Bandarísku Jómfrúaeyjar

Bandarísku Jómfrúaeyjar eru eyjaklasi austan við Púertó Ríkó sem tilheyrir Bandaríkjunum. Þær eru hluti Hléborðseyja, sem eru nyrðri hluti Litlu-Antillaeyja. Fjórar eyjanna eru stærstar: St. Thomas, St. John, St. Croix og Water Island. Auk þeirra eru margar smærri eyjar.

United States Virgin Islands
Fáni Bandarísku Jómfrúaeyja Skjaldarmerki Bandarísku Jómfrúaeyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
United in Pride and Hope (enska)
Sameinuð í stolti og von
Þjóðsöngur:
Jómfrúaeyjamarsinn
Staðsetning Bandarísku Jómfrúaeyja
Höfuðborg Charlotte Amalie
Opinbert tungumál Enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Donald Trump
Landstjóri Albert Bryan
Bandarískt yfirráðasvæði
 • keyptar af Danmörku 17. janúar 1917 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

346 km²
1
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar

87.146
252,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 4,2 millj. dala
 • Á mann 38.136 dalir
VÞL (2019) 0.892 (31. sæti)
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur (USD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .vi
Landsnúmer +1-340

Danska Vestur-Indíafélagið settist að á St. Thomas árið 1672, á St. John árið 1718 og keypti svo St. Croix af Frökkum 1733. Árið 1754 urðu Dönsku Vestur-Indíur dönsk krúnunýlenda. Höfuðborgin Charlotte Amalie á St. Thomas var nefnd árið 1692 eftir Charlotte Amalie af Hessen-Kassel drottningu Danmerkur, eiginkonu Kristjáns 5. Danakonungs frá 1670 til 1699. Í nýlendunni var einkum ræktaður sykurreyr. Framleiðslan byggðist á vinnuafli afrískra þræla. Dönsk stjórnvöld og fyrirtæki undir þeirra verndarvæng eru talin hafa flutt yfir 100.000 manns frá Afríku í þrældóm í Vesturálfu, þar af um 80.000 til þessara nýlenda Dana sjálfra.[1]

Skömmu eftir afnám þrælahalds 1848 fór efnahagurinn mjög niður á við. Eyjarnar voru nú böggull fremur en bjargræði og á síðari helmingi 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. gerðu Danir tilraunir til að selja eyjarnar, einkum til Þýskalands og Bandaríkjanna. Tilraunir til að selja þær Bandaríkjunum runnu út í sandinn 1867 og aftur 1902. Í fyrri heimsstyrjöldinni urðu Bandaríkjamenn og Danir hins vegar sammála um að gera eignaskipti á eyjunum. Danir tóku kauptilboði Bandaríkjanna og seldu eyjarnar fyrir 25 milljónir Bandaríkjadala. Dönsk stjórnvöld óttuðust að Bandaríkin tækju eyjarnar með valdi ef svo færi að Þjóðverjar hernæmu Danmörku í stríðinu. Bandaríkjamenn óttuðust að ef Þjóðverjar eignuðust eyjarnar gætu þeir notað þær í hernaði gegn Bandaríkjunum.

Bandarísku Jómfrúaeyjar kjósa einn þingmann í fulltrúadeild Bandaríkjaþings en sá hefur ekki atkvæðisrétt á þinginu. Íbúar eyjanna hafa heldur ekki rétt til að kjósa í bandarísku forsetakosningunum.

Kristófer Kólumbus kom til eyjanna í annarri ferð sinni til Nýja heimsins árið 1493. Hann nefndi þær Santa Úrsula y las once mil vírgenes („heilög Úrsúla og ellefu þúsund meyjar“) til heiðurs dýrlingnum, að sögn vegna þess að hann heillaðist af fegurð eyjanna. Hann var þar á ferð nokkru eftir messudag heilagrar Úrsúlu sem er í október. Þetta nafn var fljótlega stytt í Las Vírgenes eða Jómfrúaeyjar (sem hefur líka verið þýtt sem „Jómfrúreyjar“ og „Meyjaeyjar“ á íslensku).

Yfirráð yfir eyjunum breyttust oft næstu aldirnar, en um miðja 17. öld skiptust þær milli Dönsku Vestur-Indía, Bresku Hléborðseyja og Spænsku Jómfrúaeyja. Dönsku Vestur-Indíur urðu svo Bandarísku Jómfrúaeyjar árið 1917. Nokkrum árum áður höfðu Spænsku Jómfrúaeyjar gengið til Bandaríkjanna sem hluti af Púertó Ríkó.

Mannvistarleifar benda til þess að Siboneyar hafi flust til eyjanna um 1000 f.o.t. Þeir gerðu sér verkfæri úr steini og tinnu og lifðu af veiðum.[2] Síðar fluttust þangað Taínóar og aðrir Aravakar með kanóum frá norðurströnd Suður-Ameríku.[3] Þeir lifðu af landbúnaði og fiskveiðum og ræktuðu meðal annars tóbak, bómull, maís, maníok og gvava. Frá þeim tíma hafa fundist bæði hellamálverk og bergristur.

Um miðja 15. öld komu Karíbar til eyjanna og lögðu þær undir sig með hernaði. Að sögn brenndu þeir þorp innfæddra og myrtu flesta Aravakana. Evrópskir höfundar héldu því fram að þeir hefðu stundað mannát, en það gæti líka verið hluti af áróðri evrópskra landvinningamanna sem þeir veittu öflugt viðnám áður en þeim var nánast útrýmt með hernaði og sjúkdómum.

Landnám Evrópubúa

breyta

Kristófer Kólumbus sá eyjarnar í annarri ferð sinni til Nýja heimsins 1493. Hann gaf þeim núverandi nafn. [4] Kólumbus kom fyrst til St. Croix og sigldi svo áfram til St. Thomas og St. John. Hann gaf öllum eyjunum spænsk kaþólsk nöfn: Santa Cruz, San Tomas og San Juan. Kólumbus rændi sex Aravökum til að gera þá að leiðsögumönnum sem olli átökum við innfædda. Á þeim tíma var taínóíska töluð á öllum eyjunum.[5]

Árið 1555 stofnuðu Spánverjar nýlendu á St. Croix. Innfæddir voru neyddir til að snúast til kristni og notaðir sem þrælar á plantekrum sem flestar framleiddu tóbak, en síðar líka kaffi, sykur og bómull. Árið 1625 tóku enskir og hollenskir landnemar St. Croix yfir, og sama ár settust franskir landnemar að í aðskildri byggð.[6] Á 17. öld skiptust Bretar, Hollendingar og Frakkar á að fara með stjórn eyjanna í gegnum félög eins og Ameríkueyjafélagið, Mölturiddara og Franska Vestur-Indíafélagið meðal annarra. Árið 1696 voru allir landnemar fluttir frá eyjunni til frönsku nýlendunnar Saint-Domingue (nú Haítí).[6]: 206–209, 222–225 

Dönsku Vestur-Indíur

breyta
 
Kristjánsvirki á St. Thomas var byggt árið 1671.

Danska Afríkufélagið var stofnað árið 1625, en það var ekki fyrr en þýski athafnamaðurinn Hendrik Carloff bauð fram þjónustu sína að félagið tók að keppa við Sænska Afríkufélagið og Enska Gíneufélagið um yfirráð yfir Gullströndinni í Gíneuflóa (þar sem nú er Gana) um miðja 17. öld. Þegar Kristján 5. komst til valda árið 1670 gerði hann samning við Karl 2. Englandskonung um að enskir sjóræningjar hættu árásum á danska landnema á St. Thomas. Árið 1671 var Danska Vestur-Indía-Gíneufélagið stofnað með einkaleyfi á verslun milli Gullstrandarinnar og St. Thomas. Fyrstu þrælarnir frá Gullströndinni komu til eyjunnar árið 1673.[6]: 31–33  Næstu ár gerði nýlendustjórnin nokkrar árangurslausar tilraunir til að koma upp nýlendu á St. John. Árið 1718 tókst loks að koma upp byggð þar við Kóralflóa.[3]: 40–49  Árið 1733 bjuggu þar nær 1300 manns, en yfir 80% voru þrælar.[7]

Árið 1733 samþykktu Frakkar að selja félaginu St. Croix fyrir 700.000 pund í skiptum fyrir hlutleysi Dana í pólska erfðastríðinu. Við þetta var hlutabréfum í félaginu fjölgað verulega. Sama ár var gerð þrælauppreisn á St. John þar sem um 10 manna herlið, plantekrurekendur og fjölskyldur þeirra, voru myrt.[8]

Eftir kaupin á St. Croix voru eyjarnar mældar upp og skipt í jafn stórar plantekrur sem hver var 110 tunnur lands að stærð (um 60 hektarar). Á hverri plantekru var þorp þar sem bjuggu 150-200 þrælar og þar sem voru verksmiðjur til að vinna sykur eða bómull. Auk þræla bjuggu þar umsjónarmaður og 4-5 skrifstofumenn ásamt fjölskyldum. Mjög illa gekk að fá Dani til að flytja til eyjanna vegna hárrar dánartíðni þannig að flestir íbúar sem ekki voru þrælar komu frá nærliggjandi eyjum eins og Montserrat og Haítí.[9] Mikill skortur var á vinnuafli og dönsku þrælaskipin náðu aðeins að uppfylla um þriðjung af eftirspurninni, en aðrir þrælar komu þangað með skipum annarra landa eða voru keyptir í Bandaríkjunum. Þrælahald á eyjunum náði hámarki um aldamótin 1800 þegar yfir 35.000 þrælar bjuggu þar.[10] Alls er talið að 100.000 þrælar hafi verið fluttir til eyjanna frá Afríku og þar af um 55.000 frá dönsku virkjunum á Gullströndinni.[11]

Fríverslun og frelsun þrælanna

breyta
 
Auglýsing með yfirlýsingu von Scholten landstjóra um frelsun þrælanna.

Árið 1754 var verslun gefin frjáls við alla undirsáta Danakonungs og árið eftir keypti konungur allar eigur Vestur-Indíafélagsins. Eftir það gilti fríverslun á eyjunum gegn hóflegum tollum, sem jók verulega á siglingar þangað og efnahagslega velmegun. Á síðari hluta 18. aldar auðguðust margir plantekrueigendur verulega. Ein þessara fjölskyldna var Schimmelmann-fjölskyldan sem varð sú ríkasta í Danaveldi.[12] Ernst Heinrich von Schimmelmann var stór plantekrueigandi. Hann átti þátt í því að þrælaverslunin var bönnuð (en ekki þrælahaldið) frá 1803. Eftir mikinn þrýsting frá Bretum samþykkti Kristján 8. að banna þrælahald í skrefum frá 1848 (Bretar afnámu þrælahald 1833). Þrælarnir sættu sig ekki við þetta og kröfðust frelsunar strax. Peter von Scholten landstjóri samþykkti þá að gefa þrælunum frelsi með yfirlýsingu 3. júlí 1848, að sögn til að forðast blóðbað.[13] Plantekrueigendur fengu 50 dala bætur fyrir hvern þræl sem voru greiddar að mestu með skuldabréfum.[14]

Aðstæður fyrrum þræla bötnuðu ekki til muna eftir frelsunina. Í stað þrælahalds kom kerfi leiguliða sem gaf plantekrueigendum mikil völd yfir verkafólki. Þessar aðstæður leiddu til uppþota á St. Croix árið 1878 þar sem stór hluti Frederiksted og um 50 plantekrur voru brennd til grunna.[15] Plantekrubúskapurinn hrundi því fljótlega eftir afnám þrælahalds. Aukin samkeppni frá evrópskum sykurrófum olli líka niðursveiflu á sykurmarkaðnum. Umræður um sölu eyjanna hófust á danska þinginu þegar árið 1852. Næstu áratugi reyndu Danir að selja eyjarnar ýmist til Þýskalands eða Bandaríkjanna á sama tíma og stjórnin reyndi að endurreisa efnahag þeirra, en án árangurs. Á endanum var það ótti við yfirtöku Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöld sem fékk Bandaríkjamenn til að samþykkja kaup á eyjunum fyrir 25 milljón bandaríkjadali árið 1916. Könnun sem gerð var leiddi í ljós 99% stuðning við kaupin á eyjunum og í þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku reyndust 64% fylgjandi.[16] Samhliða kaupunum viðurkenndu Bandaríkjamenn formlega yfirráð Dana yfir Grænlandi öllu.[17]

Undir yfirráðum Bandaríkjanna

breyta

Bandaríkin tóku formlega við stjórn eyjanna 31. mars 1917, sem síðan er haldinn hátíðlegur sem Transfer Day. Eyjarnar fengu formlega heitið Virgin Islands of the United States „Jómfrúaeyjar Bandaríkjanna“. Bandaríkjadalur tók við af dönsku vesturindíadal sem gjaldmiðill árið 1934. Eftir síðari heimsstyrjöld jókst ferðaþjónusta og varð smám saman stærsti iðnaður eyjanna. Jómfrúaeyjaþjóðgarðurinn var stofnaður á St. John árið 1956. Árið 1966 setti Hess Oil upp olíuhreinsistöðina Hovensa á St. Croix. Hovensa var lengi ein af stærstu olíuhreinsistöðvum heims. Stöðinni var lokað árið 2014 sem olli efnahagssamdrætti á eyjunum.[18]

Water Island er lítil eyja rétt sunnan við St. Thomas. Danir höfðu áður selt eyjuna til Danska Austur-Asíufélagsins og hún fylgdi því ekki með í kaupunum 1916. Bandaríkjamenn keyptu eyjuna árið 1944 fyrir 10.000 dali. Hún varð ekki hluti af Bandarísku Jómfrúaeyjum fyrr en árið 1996.[19]

Frá 1940 hafa allir íbúar fæddir á eyjunum sjálfkrafa öðlast bandarískan ríkisborgararétt samkvæmt bandarískum lögum. Árið 1968 fengu íbúar rétt til að kjósa sér landstjóra, en áður var hann skipaður af Bandaríkjaforseta. Fyrsti kjörni landstjóri eyjanna var Melvin H. Evans sem tók við embætti árið 1970.

Eyjarnar hafa oft orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna fellibylja. Fellibylurinn Hugo olli mikilli eyðileggingu á St. Croix árið 1989 og fellibylurinn Marilyn gerði 11.000 íbúa St. John heimilislausa árið 1995. Í september 2017 ollu fellibylirnir Irma og Maria mikilli eyðileggingu á öllum eyjunum.

Landfræði

breyta
 
Kort af Bandarísku Jómfrúaeyjum.

Bandarísku Jómfrúaeyjar eru í Atlantshafi, um 64 km austan við Púertó Ríkó, vestan við Bresku Jómfrúaeyjar. Ásamt Spænsku Jómfrúaeyjum mynda þær eyjaklasann Jómfrúaeyjar.

Eyjarnar ná yfir þrjár megineyjar, St. Thomas, St. John og St. Croix, auk nokkurra minni eyja.[20] Aðaleyjarnar eru kallaðar gælunöfnunum „Twin City“ (St. Croix), „Rock City“ (St. Thomas) og „Love City“ (St. John).[21][22] Samanlagt er landsvæði eyjanna tæplega 350 ferkílómetrar.

Bandarísku Jómfrúaeyjar eru þekktar fyrir hvítar sandstrendur, þar á meðal í Magens Bay og Trunk Bay; og djúpar hafnir við Anegada-sund, eins og í Charlotte Amalie og Christiansted.[23] Líkt og flestar aðrar Karíbahafseyjar eru St. Thomas og St. John hæðóttar eldfjallaeyjar. Hæsti tindur eyjanna er Crown Mountain á St. Thomas sem nær 474 metra hæð. Austasti oddi Bandaríkjanna er Point Udall á St. Croix.

Stærsta eyjan, St. Croix, liggur syðst og er flatari en hinar eyjarnar þar sem hún er kóraleyja. Yfir helmingur eyjunnar St. John, nær öll Hassel-eyja og mikið af kóralrifjum heyra undir þjóðgarða Bandarísku Jómfrúaeyja. Meðal þjóðgarða á eyjunum eru Jómfrúaeyjaþjóðgarðurinn, Kóralrif á Bandarísku Jómfrúaeyjum, Buck Island-rif, Minjastaðurinn Christiansted og Salt River Bay-minja- og verndarsvæðið.

Bandarísku Jómfrúaeyjar liggja á mörkum Norður-Ameríkuflekans og Karíbahafsflekans. Náttúrulegar ógnir sem steðja að eyjunum eru jarðskjálftar, fellibylir og flóðbylgjur.[20]

Stjórnmál

breyta
 
Þinghúsið í Charlotte Amalie.

Bandarísku Jómfrúaeyjar eru aðgreint yfirráðasvæði Bandaríkjanna.[24] Þau sem fæðast á eyjunum eru sjálfkrafa bandarískir ríkisborgarar, en íbúar hafa ekki rétt til að kjósa í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Ríkisborgararétturinn stafar af sérstökum lögum frá Bandaríkjaþingi.[25]

Bandarísku stjórnmálaflokkarnir heimila íbúum eyjanna að kjósa í forvali fulltrúa á flokksþingum.[26] Helstu stjórnmálaflokkar á Bandarísku Jómfrúaeyjum eru Demókrataflokkur Bandarísku Jómfrúaeyja, Sjálfstæða borgarahreyfingin og Repúblikanaflokkur Bandarísku Jómfrúaeyja. Aðrir frambjóðendur bjóða sig fram utan flokka.

Bandarísku Jómfrúaeyjar kjósa einn þingmann á fulltrúadeild Bandaríkjaþings sem sérstakt kjördæmi sem nær yfir allar eyjarnar.[27] Þingmaður eyjanna má taka þátt í nefndum, en hefur ekki kosningarétt á þingfundum. Núverandi þingmaður Bandarísku Jómfrúaeyja er Demókratinn Stacey Plaskett. Líkt og önnur yfirráðasvæði Bandaríkjanna eiga Bandarísku Jómfrúaeyjar engan öldungadeildarþingmann.[28]

Innanlands kjósa eyjarskeggjar sér fimmtán öldungadeildarþingmenn: sjö frá St. Croix, sjö frá St. Thomas og St. John, og einn frá öllu landinu sem verður þó að vera íbúi á St. John. Þingmennirnir eru kosnir til tveggja ára setu á þing eyjanna, en engin tímamörk eru á fjölda kjörtímabila.[29]

Bandarísku Jómfrúaeyjar hafa kosið sér landstjóra á fjögurra ára fresti frá 1970. Áður voru landstjórar skipaðir af Bandaríkjaforseta.[30]

Stjórnsýslueiningar

breyta

Bandarísku Jómfrúaeyjar skiptast í tvö umdæmi: St. Thomas og St. John annars vegar, og St. Croix hins vegar.[31][32][33] Hagstofa Bandaríkjanna skiptir eyjunum hins vegar í þrjú tölfræðiumdæmi (sem aftur skiptast í 20 undirumdæmi).[34] Skiptingin fyrir neðan byggist á Hagstofuskiptingunni.

 
Umdæmi og undirumdæmi Bandarísku Jómfrúaeyja
Sýsluígildi St. Thomas St. John St. Croix
Undirumdæmi
  1. Charlotte Amalie
  2. East End
  3. Northside
  4. Southside
  5. Tutu
  6. Water Island
  7. West End
  1. Central
  2. Coral Bay
  3. Cruz Bay
  4. East End
  1. Anna's Hope Village
  2. Christiansted
  3. East End
  4. Frederiksted
  5. Northcentral
  6. Northwest
  7. Sion Farm
  8. Southcentral
  9. Southwest

Hver og ein stóru eyjanna er talin sem sýsluígildi hjá Bandarísku hagstofunni með eftirfarandi FIPS-númer: 78010 á St. Croix, 78020 á St. John og 78030 á St. Thomas.[35][36]

Tilvísanir

breyta
  1. Sjá t.d. Svend Erik Green-Pedersen (1975). „The History of The Danish Negro Slave Trade, 1733–1807“. Revue française d'histoire d'outre'mer: 196–220.
  2. Rouse, Irving (1992). The Tainos. Yale University Press. bls. 5. ISBN 0300051816.
  3. 3,0 3,1 Dookhan, Isaac (1994). A History of the Virgin Islands of the United States. Kingston, Jamaica: Canoe Press. ISBN 9789768125057.
  4. Traboulay, David M. (1994). Columbus and Las Casas. University Press of America. bls. 48. ISBN 0-8191-9642-8.
  5. Granberry, Julian; Vescelius, Gary S. (2004). Languages of the Pre-Columbian Antilles. Tuscaloosa: University of Alabama Press. bls. 123. ISBN 0-8173-1416-4.
  6. 6,0 6,1 6,2 Westergaard, Waldemar (1917). The Danish West Indies Under Company Rule (1671–1754): With a Supplementary Chapter, 1755–1917. New York: Macmillan Company. OCLC 1533021. Sótt 8. september 2022.
  7. Sabino, Robin (2012). Language Contact in the Danish West Indies: Giving Jack His Jacket. Brill Publishers. bls. 68–70. ISBN 978-90-04-23070-5.
  8. Petersen, Bernhard V. (=1855). En historisk Beretning om de dansk-vestindiske Öer St. Croix, St. Thomas og St. Jan (PDF).
  9. Frans Lawaetz. „The History of Skt. Croix“. usvi.net (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 5-06-2007. Sótt 13. juni 2007.
  10. Sveistrup, P. P. (1942). „Bidrag til de tidligere Dansk-vestindiske øers økonomiske historie, med særligt henblik paa sukkerproduktion og sukkerhandel“ (PDF). Nationaløkonomisk Tidsskrift. 80.
  11. „Trans-Atlantic Slave Trade: Estimates“. Slave Voyages. Sótt 19 janúar 2022.
  12. Thomas, Hugh (2006). The Slave Trade. London: Phoenix edition. ISBN 0-7538-2056-0.
  13. „The Abolition of Slavery“. National Museum of Denmark (enska). Sótt 9. september 2022.
  14. „The end of slavery – Compensation to the slave owners“. Danska þjóðskjalasafnið (bandarísk enska). Sótt 9. september 2022.
  15. „Fireburn“. natmus.dk. Danska þjóðminjasafnið. Sótt 23.4.2025.
  16. Millette, James (2004). „Decolonization, Populist Movements and the Formation of New Nations, 1945-70“. Í Brereton, Bridget (ritstjóri). General History of the Caribbean. Vol. V: The Caribbean in the Twentieth Century. UNESCO. bls. 179. ISBN 923103359X.
  17. Thomas Meloni Rønn. „Wilkens om et eventuelt salg af Dansk Vestindien“. Geografforlaget. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2007. Sótt 5. september 2007.
  18. Daniel Shea (Daily News Staff) (19 janúar 2012). „HOVENSA closing – News“. Virgin Islands Daily News. Afrit af upprunalegu geymt þann 28 júlí 2012. Sótt 13. desember 2012.
  19. Chuck Gidley & Jim Wilkinson. „Transfer and Transition of Water Island 1992-1996“. Water Island Civic Association. Sótt 23.4.2025.
  20. 20,0 20,1 „CIA World Factbook- USVirgin Islands“. Afrit af uppruna á 13 janúar 2021. Sótt 14 júlí 2019.
  21. Slawych, Diane. „Love is in the air“. CANOE.ca. Afritað af uppruna á 18 júlí 2012. Sótt 25 janúar 2008.
  22. United States Encyclopedia: America's People, Places, and Events (enska). National Geographic Kids. 2015. bls. 258. ISBN 978-1-4263-2092-7. Afrit af uppruna á 8 apríl 2023. Sótt 8 apríl 2023.
  23. „The World Factbook“. CIA. Afrit af uppruna á 13 janúar 2021. Sótt 1 ágúst 2017.
  24. „CIA World Factbook – US Virgin Islands“. Afrit af uppruna á 13 janúar 2021. Sótt 14 júlí 2019.
  25. „8 U.S. Code § 1406 – Persons living in and born in the Virgin Islands“. LII / Legal Information Institute. Afrit af uppruna á 22. september 2018. Sótt 22. september 2018.
  26. „Presidential election in the U.S. Virgin Islands, 2016“. Ballotpedia. 1 júlí 2016. Afrit af uppruna á 21 apríl 2017. Sótt 24 febrúar 2017.
  27. Lin, Tom C.W., Americans, Almost and Forgotten Geymt 21 september 2020 í Wayback Machine, 107 California Law Review (2019)
  28. „Watch John Oliver Cast His Ballot for Voting Rights for U.S. Territories“. Time. Afrit af uppruna á 18. september 2018. Sótt 22. september 2018.
  29. „Legislature of the Virgin Islands“. Ballotpedia. 1 júlí 2016. Afrit af uppruna á 23 maí 2017. Sótt 24 febrúar 2017.
  30. „Virgin Islands – History“. Encyclopaedia Britannica. Afrit af uppruna á 2 janúar 2020. Sótt 2 janúar 2020.
  31. „Senator Marvin A. Blyden – Legislature of the Virgin Islands“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12 október 2018. Sótt 22. september 2018.
  32. „Historical Evolution of the Legislature of the Virgin Islands“. Legislature of the Virgin Islands. Afrit af upprunalegu geymt þann 12 október 2018. Sótt 22. september 2018.
  33. „USGS. How many counties are there in the United States? Retrieved September 21, 2018“. Afrit af uppruna á 7. september 2018. Sótt 22. september 2018.
  34. „Census.gov. 2010 Census – U.S. Virgin Islands Districts and Subdistricts. Retrieved September 21, 2018“. Afrit af uppruna á 22. september 2018. Sótt 22. september 2018.
  35. 2010 FIPS Codes for Counties and County Equivalent Entities. Census.gov. Retrieved September 21, 2018“. Afrit af uppruna á 12. mars 2016. Sótt 22. september 2018.
  36. „U.S. Virgin Islands Districts“. www.statoids.com. Afrit af uppruna á 21. september 2018. Sótt 22. september 2018.