Bútan (dsongka: འབྲུག་ཡུལ་ Druk Yul) er lítið landlukt land í Suður-Asíu. Það liggur í austurenda Himalajafjalla á milli Indlands og Kínverska alþýðulýðveldisins. Í vestri skilur indverska héraðið Sikkim landið frá Nepal og í suðri skilja indversku héruðin Assam og Vestur-Bengal það frá Bangladess. Bútan er önnur fámennasta þjóð Suður-Asíu, á eftir Maldíveyjum. Timfú er höfuðborgin og stærsta borg landsins, en Phuntsholing er fjármálamiðstöð þess.

Konungs­ríkið Bútan
འབྲུག་ཡུལ
Druk Yul
Fáni Bútan Skjaldarmerki Bútan
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Druk tsendhen
Staðsetning Bútan
Höfuðborg Timfú
Opinbert tungumál dsongka
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Jigme Khesar Namgyel Wangchuck (འཇིགས་མེད་གེ་སར་རྣམ་རྒྱལ་དབང་ཕྱུག)
Forsætisráðherra Tshering Tobgay (ཚེ་རིང་སྟོབས་རྒྱས།)
Stofnun
 • Sameining 1616–1634 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
135. sæti
38.394 km²
1,1
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
165. sæti
754.388
19,3/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 7,701 millj. dala (154. sæti)
 • Á mann 9.426 dalir (115. sæti)
VÞL (2018) 0.617 (134. sæti)
Gjaldmiðill núltrum
Tímabelti UTC+6
Þjóðarlén .bt
Landsnúmer ++975

Svæðið þar sem Bútan er nú var staðsett á Silkiveginum. Landið skiptist milli lítilla furstadæma þar til Shabdrung Ngawang Namgyal, flóttamaður frá Tíbet, sameinaði það undir eina stjórn á 17. öld og kom þar á búddísku guðræði líkt og í Tíbet, undir stjórn lama sem nefndur var Zhabdrung Rinpoche. Eftir borgarastyrjöld á 19. öld sameinaði Wangchuck-ætt landið undir konungsstjórn 1907 og tók upp stjórnmálasamband við Breska heimsveldið. Eftir endalok Breska Indlands tók Bútan upp náið samstarf við Indland, til að bregðast við uppgangi Kína. Landamæri landsins að Kína eru umdeild. Árið 1971 gerðist Bútan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Snemma á 10. áratug 20. aldar rak stjórn Bútan mikið af nepölskumælandi minnihluta Lhotsampa úr landinu, sem olli flóttamannavanda í Nepal. Sjónvarpið (og síðar Internetið) var bannað í Bútan til ársins 1999. Árið 2008 var stjórnarfari í Bútan breytt úr einveldi í þingbundna konungsstjórn. Þá voru haldnar fyrstu þingkosningar í landinu og þing Bútan kom saman í fyrsta sinn.

Landslag í Bútan er breytilegt, allt frá frjósömum heittempruðum sléttum í suðri að háfjallaloftslagi Himalajafjalla í norðri þar sem fjallstindar ná yfir 7.000 metra hæð. Hæsti tindur Bútan er Gangkhar Puensum og er jafnframt mögulega hæsta óklifna fjall heims. Dýralíf Bútan er þekkt fyrir mikla fjölbreytni. Nautgemsa er þjóðardýr Bútan.

Bútan er það Suður-Asíuland sem situr hæst á listum yfir lönd eftir viðskiptafrelsi, skilvirkni í viðskiptum og friði, og var minnst spillta land heimshlutans árið 2016. Það er áfram meðal vanþróuðustu landanna en býst við að komast af þeim lista fyrir 2023. Vatnsorka er helsta útflutningsafurð landsins. Bútan á í stjórnmálasambandi við 52 ríki og Evrópusambandið, en hefur ekki formleg tengsl við fimm fastafulltrúa í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Landið er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Samstarfsráði Suður-Asíuríkja, BIMSTEC og Sambandi hlutlausra ríkja. Bútan gerði árið 1910 samning við Bretland um að það færi með utanríkis- og varnarmál landsins. Bútan fékk því svipaða stöðu og sjálfstæðu indversku furstadæmin. Tveimur árum eftir að Indland fékk sjálfstæði gerði Bútan svipaðan samning við Indland. Landið hefur því sterk efnahagsleg og hernaðarleg tengsl við Indland.

Bútan hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir að styðja notkun mælikvarðans verg landshamingja.

Óvíst er með uppruna heitisins Bútan, en almennt er talið að það sé dregið af forntíbetska heitinu „Böd“, sem vísar til Tíbet. Algengast er að ætla það komið úr sanskrít, Bhoṭa-anta, „endi Tíbet“. Það vísar til þess hvernig Bútan er staðsett á suðurenda tíbetsku hásléttunnar.[1][2][3]

Frá 17. öld hefur opinbert heiti landsins verið Druk Yul, „land Drukpa“, „land drekafólksins“, eða „land þrumudrekans“. Heitið vísar til ríkjandi greinar búddatrúar í landinu.

Heitið Bútan fór að koma fyrir í ýmsum afbrigðum í evrópskum ritum frá 16. öld. Í ritinu Les Six Voyages de Jean-Baptiste Tavernier frá 1676 kemur heitið Boutan fyrir, en þar vísar það ekki til núverandi Bútan heldur konungsríkisins Tíbet. Núverandi aðgreining landanna kemur fyrst fram í frásögn af leiðangri skoska erindrekans George Bogle árið 1774. Í skýrslu sinni til Breska Austur-Indíafélagsins stakk hann upp á því að kalla land Druk Desi Boutan, en land Panchem Lama Tibet. Landmælingamaður félagsins, James Rennell, stakk upp á ensku útgáfunni Bootan og kynnti aðgreininguna milli þess og Tíbet.[4]

Þegar Bútan birtist fyrst sem sérstakt ríki á vestrænu landakorti var það merkt með nafni sínu meðal heimamanna, Broukpa. Meðal annarra heita landsins má nefna Lho Mon („dökka suðurland“), Lho Tsendenjong („suðurland sýprusviðarins“), Lhomen Khazhi („suðurland fjögurra hliða“) og Lho Menjong („suðurland lyfjagrasanna“).[5][6]

Stjórnmál

breyta
 
Jigme Khesar Namgyel Wangchuck hefur verið konungur Bútan frá 2004, en var krýndur 2006.

Í Bútan er þingbundin konungsstjórn og þingræði. Fræðimaðurinn Dhurba Rizal hefur lýst því sem hálflýðræði þar sem aðeins minniháttar breytingar hafi verið gerðar á stjórnskipuninni áður en einveldið var afnumið árið 2000.[7] Ríkjandi konungur er Jigme Khesar Namgyel Wangchuck. Lotay Tshering, leiðtogi flokksins Druk Nyamrup Tshogpa, er forsætisráðherra Bútan.

„Drekakonungurinn“, Druk Gyalpo, er þjóðhöfðingi landsins.[8] Kosningakerfið byggist á almennum kosningarétti. Löggjafinn skiptist í þjóðarráð Bútan með 25 kjörna þingmenn í efri deild, og þing Bútan með 47 kjörna þingmenn.

Ríkisstjórn Bútan fer með framkvæmdavaldið og forsætisráðherra Bútan er stjórnarleiðtogi. Löggjafarvaldið er bæði hjá ríkisstjórninni og þinginu. Dómsvaldið liggur hjá dómstólum. Lagakerfið Bútan er að stofni til Tsa Yig-klausturréttur undir miklum áhrifum frá enskum fordæmisrétti.

Tilvísanir

breyta
  1. Chakravarti, Balaram (1979). A Cultural History of Bhutan. 1. árgangur. Hilltop. bls. 7. Afrit af uppruna á 12. janúar 2016. Sótt 18. október 2015.
  2. Taylor, Isaac (1898). Names and Their Histories: A Handbook of Historical Geography and Topographical Nomenclature. Gale Research Co. bls. 69.
  3. U.S. Library of Congress, Country Studies, Bhutan, HISTORICAL SETTING, BHUTAN Origins and Early Settlement, A.D. 600–1600, http://lcweb2.loc.gov/cgi-bin/query/r?frd/cstdy:@field(DOCID+bt0014) Geymt 28 september 2017 í Wayback Machine
  4. "History of Bhutan: How Europe heard about Bhutan". Kuensel. 24. ágúst 2003. Sótt 28. september 2011.
  5. Grange, Kevin (2011). Beneath Blossom Rain: Discovering Bhutan on the Toughest Trek in the World. Outdoor Lives. University of Nebraska Press. ISBN 978-0-8032-3433-8. Sótt 18. október 2015.
  6. Clements, William M. (2006). The Greenwood Encyclopedia of World Folklore and Folklife. The Greenwood Encyclopedia of World Folklore and Folklife: Southeast Asia and India, Central and East Asia, Middle East. 2. árgangur. Greenwood Press. bls. 105. ISBN 978-0-313-32849-7. Afrit af uppruna á 12. janúar 2016. Sótt 18. október 2015.
  7. Rizal, Dhurba (2015). The Royal Semi-Authoritarian Democracy of Bhutan. Lexington Books. bls. 309. ISBN 9781498507486. Sótt 24. maí 2020.
  8. „Bhutan 2008“. Constitute. Afrit af uppruna á 2. apríl 2015. Sótt 30. mars 2015.

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.