Hinrik 4. Englandskonungur

Hinrik 4. (3. apríl 136620. mars 1413) var konungur Englands frá 1399 til dauðadags. Hann var af Lancaster-grein Plantagenet-ættar og var fyrsti konungur Englands af þeirri grein. Hann var fæddur í Bolingbroke-höll í Lincolnshire og var yfirleitt kenndur við hana áður en hann varð konungur og kallaður Henry (af) Bolingbroke.

Hinrik 4. Bolingbroke.

Uppruni

breyta

Faðir hans, John af Gaunt, var þriðji sonur Játvarðar konungs 3. en móðir hans var fyrsta kona Johns, Blanche, dóttir og erfingi hertogans af Lancaster, auðugasta manns Englands. Hertoginn átti ekki son og eldri systir Blanche dó barnlaus svo að titlar og eignir féllu í skaut tengdasonar hertogans.

Hinrik átti tvær eldri alsystur; Filippa varð drottning Portúgals, kona Jóhanns 1., en Elísabet giftist hertoganum af Exeter. Katrín hálfsystir hans var drottning Kastilíu, kona Hinriks 3. Með hjákonu sinni, Katherine Swynford, átti John af Gaunt fjögur börn sem voru svo gerð skilgetin þegar hann giftist Katherine eftir lát miðkonu sinnar. Þau báru öll ættarnafnið Beaufort.

Henry Bolingbroke

breyta

Elsti sonur Játvarðar 3. og bróðir Johns af Gaunt, Játvarður svarti prins, lést árið 1376 og lét eftir sig níu ára son, Ríkharð. Ári síðar dó Játvarður og Ríkharður varð konungur, tíu ára að aldri. John föðurbróðir hans var valdamesti maður landsins næstu árin. Frændurnir Ríkharður og Hinrik voru nær jafnaldrar og voru leikfélagar í æsku en seinna slettist upp á vinskapinn og Hinrik tók þátt í uppreisn gegn konunginum árið 1387. Ríharður lét hann þó ekki gjalda þess.

Á árunum 1390-1392 fór Hinrik ásamt hópi riddara í tvær krossferðir til Litháen með Þýsku riddurunum, sem voru að reyna að ná Vilnius á sitt vald, en tókst það ekki. Á árunum 1392-1393 fór Hinrik svo í pílagrímsferð til Jerúsalem.

Samband Hinriks og konungsins var áfram ótryggt og árið 1398 skoraði Thomas de Mowbray, hertogi af Norfolk, Hinrik á hólm þar sem hann taldi að orð sem hann hafði látið falla um stjórnarhætti konungs jafngiltu landráðum. Ekki kom þó til einvígis þar sem Ríkharður 2. tók í taumana og rak báða úr landi með samþykki Johns af Gaunt.

Ríkharði velt úr sessi

breyta

Þegar John af Gaunt dó ári síðar ógilti Ríkharður skjöl sem hefðu gert Hinrik kleift að erfa lendur hans beint og gerði Hinrik ljóst að hann þyrfti að biðja um að fá þær aftur. Eftir nokkra umhugsun gerði Hinrik bandalag við Thomas Arundel, áður erkibiskup af Kantaraborg, sem hafði verið sviptur embætti og rekinn í útlegð fyrir þátttöku í uppreisnininni 1387. Þeir héldu til Englands þegar Ríkharður konungur var í herleiðangri á Írlandi og tókst að afla sér nægs stuðnings til að velta Ríkharði úr sessi og stinga honum í dýflissu, þar sem hann dó nokkru síðar og var sennilega sveltur í hel. Hinrik lýsti svo sjálfan sig konung og var krýndur 13. október 1399.

 
Krýning Hinriks 4.

Í raun hefði Edmund Mortimer, jarl af March, átt að taka við ríkinu þegar Ríkharður 2. var þvingaður til að segja af sér þar sem hann var kominn af næstelsta syni Játvarðar 3., Lionel af Antwerpen, en Hinrik og fylgismenn hans lögðu áherslu á að Hinrik væri kominn af Játvarði 3. í beinan karllegg en erfðalína jarlsins af March væri um kvenlegg þar sem hann væri kominn af dóttur Lionels. Auk þess var Edmund aðeins sjö ára en Hinrik átti fjóra syni sem komnir voru á legg og því mátti gera ráð fyrir að hann væri búinn að tryggja ríkiserfðirnar. Þegar erfðadeilurnar sem leiddu til Rósastríðanna hófust síðar voru þær hins vegar ekki við Mortimer-ættina, heldur York-ættina, afkomendur Edmund af Langley, hertoga af York og yngsta sonar Játvarðar 3.

Hinrik konungur

breyta

Hinrik fékk þó lítinn frið á konungsstóli því að fyrstu tíu árin þurfti hann að kljást við stöðugar uppreisnir og skæruhernað, þar á meðal við Owain Glyndŵr, sem lýsti sig prins af Wales árið 1400, og uppreisn Henry Percy, jarls af Norðymbralandi. Stöðugt gekk orðrómur um að Ríkharður 2. væri enn á lífi og kynti það undir uppreisnunum. Sá sem átti mestan þátt í að bæla niður uppreisnirnar var krónprinsinn, Hinrik, sem reyndist öflugur herforingi og náði í reynd völdunum að mestu af föður sínum síðustu árin.

Hinrik var heilsuveill síðustu æviárin, þjáðist bæði af alvarlegum húðsjúkdómi og fékk svo nokkrum sinnum bráð köst af óþekktum sjúkdómi sem drógu hann að lokum til dauða.

Fjölskylda

breyta

Fyrri kona Hinriks var Mary de Bohun (um 1368 – 4. júní 1394), dóttir jarlsins af Hereford. Þau áttu sex börn: Hinrik 5., Thomas, hertoga af Clarence, John, hertoga af Bedford, Humphrey, hertoga af Gloucester, Blönku, sem giftist Loðvík 3. kjörfursta af Pfalz, og Filippu, sem giftist Eiríki af Pommern og varð drottning Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Íslands.

Mary lést 1394 og varð því aldrei drottning. Hinrik var ekkjumaður í níu ár en 7. febrúar 1403 giftist hann að nýju Jóhönnu af Navarra, dóttur Karls 2. af Navarra, sem var þá ekkja eftir Jóhann 5. hertoga af Bretagne, og sjö barna móðir. Þau áttu einn son sem dó ungur.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Ríkharður 2.
Konungur Englands
(1399 – 1413)
Eftirmaður:
Hinrik 5.