Manska eða Manar-gelíska (Gaelg eða Gailck) er keltneskt tungumál sem talað er á eynni Mön í Írlandshafi. Tungumálið hafði verið talið útdautt, því síðasti málhafinn lést árið 1974, en málið hefur verið endurreist og er talað í vaxandi mæli í dag. Málið er náskylt írsku og skoskri gelísku, auk þess sem greinileg áhrif eru úr norrænu. Á árinu 2011 voru talendur málsins um 100.

Manska
Gaelg / Gailck
Málsvæði Mön
Fjöldi málhafa um 100
Ætt Indóevrópskt
 Keltneskt
  Eyjakeltneskt
   Gelískt
    Manska
Skrifletur Latneskt stafróf
Opinber staða
Opinbert
tungumál
Fáni Manar Mön
Stýrt af Coonseil ny Gaelgey
Tungumálakóðar
ISO 639-1 gv
ISO 639-2 glv
ISO 639-3 glv
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode.

Saga málsins

breyta

Á 18. öld var Manar-gelíska lifandi tungumál sem meginhluti íbúanna talaði, eða um 20.000 manns. Kaflaskil urðu árið 1765, þegar Englendingar lögðu Mön formlega undir sig og fóru að beita stjórnmálalegri og félagslegri kúgun í eigin þágu, m.a. með því að þröngva ensku upp á íbúana. Árið 1899 var stofnað félag til að viðhalda málinu, Gelíska félagið á Mön (Yn Cheshaght Ghailckagh). Við manntal árið 1901 töldust 9,1% íbúanna tala mönsku, en þá var svo komið að varla nokkur þeirra var yngri en 50 ára. Árið 1946 tókst að finna 20 aldraða menn sem töluðu málið, og beitti Gelíska félagið sér fyrir því að næstu árin voru gerðar segulbandsupptökur til þess að varðveita framburðinn og önnur einkenni málsins. Árið 1974 dó Ned Maddrell, sá síðasti sem hafði mönsku að móðurmáli.

Meginhluti örnefna á eynni Mön eru gelísk, þó að talsvert sé þar einnig af nöfnum af norrænum uppruna, t.d. Snaefell = Snæfell og Tynewald eða Tinvaal = Þingvellir. Mjög algengt er að bæjanöfn á Mön byrji á Balla- sem merkir býli, t.d. Ballabeg = Litlibær og Ballamore = Miklibær.

Endurreisn málsins

breyta

Hópur áhugamanna hefur verið að reyna að endurvekja málið, og var það um 1991 talað sem annað mál af um 700 manns á eynni, en alls búa þar um 80.000 manns. Frá árinu 1992 hafa allir skólar á Mön boðið upp á námskeið í mönsku, og sóttu um 1.400 nemendur slík námskeið fyrsta árið. Auk þess hefur verið komið upp fimm leikskólum (Mooinjer Veggey) og tveimur alþýðuskólum (Bunscoill Ghaelgagh og Scoill Balley Cottier), þar sem kennt er á mönsku. Í manntali árið 2001 voru 1.689 einstaklingar töldu sig geta talað, lesið eða skrifað Manar-gelísku, en ekki var lagt mat á kunnáttu þeirra. Engu að síður er nú að alast upp hópur barna sem talar mönsku sem móðurmál. Við endurreisn málsins er stuðst við prentuð rit og segulbandsupptökur frá því um miðja 20. öld.

Manska sem ritmál

breyta

Elstu rit á mönsku eru frá 17. öld. Fremur litlar bókmenntir eru til á málinu. Árið 1610 lét John Philipps biskup þýða bænabók á mönsku. Til er langt fornkvæði um sögu eyjarinnar, skráð á 18. öld, en það er talið samið um miðja 16. öld. Meginhluti bókmennta á mönsku eru þjóðsögur, frásagnir og ljóð sem skráð hafa verið á 19. og 20. öld.

Guðbrandur Þorláksson þeirra Manarbúa hét Thomas Wilson (1663-1755) biskup og stjórnmálamaður. Hann gaf út barnalærdómskver á Manar-gelísku 1707, og var það fyrsta bók prentuð á málinu. Árið 1722 fékk hann menn til að þýða Biblíuna, og luku þeir guðspjöllunum og postulasögunni, en aðeins Matteusarguðspjall var prentað 1748. Eftirmaður hans Mark Hildesley lauk verkinu; Nýja testamentið kom út 1767, og Biblían í heild 1772.

Heimildir

breyta
  • George Broderick: Handbook of Late Spoken Manx, Vol. 1–3: Grammar and Texts, Dictionary, Phonology, Tübingen 1984–1986.
  • George Broderick: Manx, í: Martin Ball (útg.): The Celtic Languages, London & New York 1993.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Manx (Sprache)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. desember 2008.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta