Kingston upon Hull
Kingston upon Hull (oftast stytt í Hull) er borg í Yorkshire við norðursjávarströnd Englands. Hull er gömul hafnarborg, en skip þaðan komu við sögu í þorskastríðunum við Íslandsstrendur. Íbúar eru um 269 þúsund (2022).
Kingston upon Hull | |
---|---|
Land | England |
Svæði | Yorkshire and the Humber |
Sýsla | East Riding of Yorkshire |
Stofnun | 1151 sem klaustur |
Stjórnarfar | |
• Borgarstjóri | Daniel Brown |
Flatarmál | |
• Samtals | 71,45 km2 |
Mannfjöldi (2022) | |
• Samtals | 269.000 |
• Þéttleiki | 3.599/km2 |
Tímabelti | GMT |
Vefsíða | www.hullcc.gov.uk |
Lega og lýsing
breytaHull er hafnarborg við norðurströnd fljótsins Humber sem rennur í austurátt og mundar í Norðursjó. Borgin er um 40 km inn í landi frá ósunum. Áin Hull rennur í gegnum borgina og mundar í Humber. Næstu stærri borgir eru Grimsby til suðausturs (25 km loftlína), Leeds til vesturs (80 km), York til norðvesturs (80 km) og Sheffield til suðvesturs (100 km). Borgin er með víðáttumikil hafnarsvæði við ána Humber, fyrir flutningaskip, fiskiskip og ferjur. Sérhvert hafnarsvæði er með stórar hafnarlokur, þar sem gríðarlegur munur er á sjávarföllum við Humber.
Orðsifjar
breytaFullt heiti borgarinnar er Kingston upon Hull. Borgin hét upphaflega Wyke on Hull, sem merkir bærinn við ána Hull. En 1299 breytti Játvarður I Englandskonungur heitinu í Kings town upon Hull (Bær konungsins við Hull). Kings town var svo skeytt saman síðar í Kingston. Yfirleitt tala menn hins vegar bara um Hull og gildir það bæði á Íslandi og í Bretlandi. Íbúar borgarinnar eru kallaðir Hullensians.
Skjaldarmerki
breytaSkjaldarmerki Hull sýnir þrjár gullnar kórónur á bláum fleti. Kórónurnar vísa til þjóðsögurnar um vitringanna þrjá (konungar á ensku máli), en þeir koma víða fyrir í skjaldarmerkjum í Evrópu. Þó er ekki vitað með vissu hvernig á því stóð að Hull tók merki þetta upp. Það kemur fyrst fram á mynd á 15. öld, en á skjaldarmerki árið 1612. Það var staðfest 1879 og hefur ekki breyst síðan.
Saga Hull
breytaKonungsborgin
breytaKlaustrið Meaux var stofnað 1151 á reit sem nú er borgarstæði Hull. Ábótarnir þar áttu landið allt í kring, einnig bæinn sem myndaðist í kringum vefnað munkanna. Lítil hafnaraðstaða myndaðist við ána Hull sem var notuð til að flyta vefnaðinn út. 1293 keypti Játvarður 1 Englandskonungur bæinn allan af klaustrinu og reisti sér herrasetur þar. Honum þótti staðsetningin ágæt þegar verja skyldi landið erlendum innrásarher. Sjálfur dvaldi Játvarður í Hull þegar hann safnaði liði fyrir innrásina í Skotland 1296, en þar höfðu Andrew de Moray og William Wallace gert uppreisn. 1299 veitti Játvarður Hull formleg borgarréttindi. Við það tækifæri breyttist heiti bæjarins í King‘s town upon Hull, sem síðar breyttist í Kingston. Leyfisskjalið, undirritað af konungi, er enn til og er til sýnis í safni í borginni. Sökum hafnarinnar var verslun æ ríkari þáttur í athafnalífi borgarbúa. Skip sigldu til Niðurlanda og Eystrasalts og versluðu einnig við Hansasambandið. Hull varð að mestu hafnarborg Englands við Norðursjó.
Umsátrið
breyta1440 veitti konungur Hull leyfi til að mynda borgarstjórn. Fyrsti borgarstjórinn hét William de la Pole. Honum til aðstoðar var embætti fógeta stofnað, sem og öldungaráð tólf manna. Borgin óx mjög á 16. og 17. öld. Siglingar urðu æ mikilvægari, ekki síst með tilkomu Vesturheims og annarra heimshluta. Í Hull hafði Englandskonungur einnig látið reisa sér eitt stærsta vopnabúr Englands. 11. janúar 1642 skipaði Karl I jarlinn af Newcastle sem nýjan landstjóra í Hull. Þingið í London hafði hins vegar rofið tengslin við konunginn og skipað John Hotham sem landstjóra í Hull. Hotham hélt rakleiðis til Hull og vann borgina á sitt band. Því meinuðu borgarbúar Karli inngöngu í borgina þegar hann kom þangað í apríl. Karl hóf þá umsátur um Hull en Hotham náði að hrekja umsátursliðið á brott. Karl hrökklaðist frá og þótti hafa farið mikla hneisuför. Enska borgarastyrjöldin hófst aðeins nokkrum mánuðum síðar.
Nýrri tímar
breytaNæstu aldir óx borgin og var enn sem áður mikilvægasta hafnarborg Englands við Norðursjó. Þúsundir Evrópubúa komu til Hull á leið sinni til Vesturheims, en frá Hull fór fólkið yfirleitt með lest til Liverpool og sigldi þaðan yfir Atlantshafið. 1825 var skipafélagið Wilson Line of Hull stofnað, en það er í dag stærsta einkarekna skipafélag heims. Auk farþegasiglinga og fiskveiða, voru einnig nokkur hvalskip gerð út frá Hull, allt þar til Englendingar hættu hvalveiðum á 19. öld. Í heimstyrjöldinni fyrri varð Hull fyrir loftárásum Zeppelin loftskipa í 7 skipti. Í heimstyrjöldinni síðari varð Hull fyrir gríðarlegum loftárásum Þjóðverja og skemmdist borgin meira en nokkur önnur ensk borg, fyrir utan London. 86 þús byggingar skemmdust eða eyðilögðust, en það voru 95% allra bygginga í borginni. Nær öll miðborgin var í rústum, en einnig mörg íbúðahverfi, iðnaðarhverfi og járnbrautarkerfið. Tæplega 1.200 manns biðu bana og rúmlega 150 þús manns urðu heimilislausir. Síðasta loftárás Þjóðverja á enska borg var í Hull 17. mars 1945. Árásir þessar fóru í sögubækurnar sem Hull Blitz. Þrátt fyrir allar skemmdir hélt starfsemin í höfninni áfram allt stríðið, enda mikilvægasta höfn Englendinga við Norðursjó. Eftir stríð veiddu margir togarar frá Hull við Íslandsstrendur og voru þátttakendur í þorskastríðunum, en þeim lauk 1976 með sigri Íslendinga. Margir sjómenn í enskum borgum, þar á meðal Hull, urðu atvinnulausir. Þetta varð til þess að efnahagur borgarinnar fór síversnandi og afleiðingin var mikil fólksfækkun. Á tímabilinu 1991-2001 fækkaði íbúum um 5,3%, úr 300 þús niður í 240 þús, en hefur fjölgað aftur í 260 þús allra síðustu ár. Könnun sem gerð var 2003 sýndi fram á að 27% íbúa lifðu með innan við £10.000 í tekjur á ári. [1] Breska ríkisstjórnin bað sjómenn afsökunar á atvinnuleysið og erfiðleikana, þó ekki fyrr en árið 2012 og gaf þeim að auki 1000 pund á mann. Þetta var mikið gagnrýnt fyrir að koma 35 árum of seint. Í dag er höfnin enn einn mikilvægasti atvinnuvettvangur borgarinnar, en þar starfa um 5 þús manns. Ferjur frá Hull flytja um milljón farþega árlega til ýmissa hafna á meginlandi Evrópu.
Viðburðir
breytaNokrar hátíðir og stórviðburðir í Hull eru:
- Hafnarhátíðin Internatonal Sea Shanty Festival
- Freedom Festival, en þá er tónlist leikin utandyra og friður fagnaður í allri sinni mynd
- Skemmtigarðurinn Hull Fair er einn af stærstu farandskemmtigörðum Evrópu og hefur verið starfræktur í Hull síðan 1278.
- Matarhátíðin Hull Global Food Festival
Íþróttir
breytaAðalknattspyrnufélag borgarinnar er Hull City. Í tvö ár, 2008-2010, lék félagið í úrvalsdeildinni, en leikur í sem stendur í b-deildinni. Félagið hefur aldrei unnið stóran bikar.
Tvö helstu rúgbýlið borgarinnar eru: Hull F.C. og Hull Kingston Rovers. Til eru nokkur smærri, en þau leika í neðri deildum.
Íshokkí er einnig hátt skrifað í Hull, en þaðan er liðið Hull Stingrays. Félagið á hins vegar í fjárhagskröggum og tókst með naumindum að bjarga því frá gjaldþroti. Ekki er útséð hvernig framhaldið verður.
Í hafnabolta leikur liðið Hull Hornets í efri deildum. Borgin verður vettvangur bresku meistarakeppninnar í skvassi fyrir árin 2013 og 2014.
Vinabæir
breytaHull viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
Frægustu börn borgarinnar
breyta- (1759) William Wilberforce, stjórnmálamaður og aðalhvatamaður þrælabannsins 1807
- (1824) John Hall, forsætisráðherra Nýja-Sjálands
- (1903) Amy Johnson, flugkona og frumkvöðull í langflugi
- (1974) Nick Barmby, knattspyrnumaður
Byggingar og kennileiti
breytaMjög lítið er um gamlar byggingar í Hull, þar sem þær eyðilögðust að mestu leyti í loftárásum seinna stríðsins.
- Þrenningarkirkjan í Hull (Holy Trinity Church) er rúmmesta kirkja Englands sem ekki er dómkirkja. Kirkjan er frá aldamótum 1300
- The Deep er heiti á sædýrasafni og er staðsett við samflæði ánna Hull og Humber. Byggingin er ákaflega nýtískuleg og var formlega opnuð í mars 2002. Í safninu er heljarstórt sjávarker sem tekur 2,5 milljón lítra af sjó. Í kerinu þúsundir sjávardýra, þar á meðal hákarlar, sem synda um allt.
- KC Stadium er íþróttamannvirki í Hull sem var opnað árið 2002. Það er heimavöllur knattspyrnuliðsins Hull City, sem og rúgbýliðsins Hull F.C. Þar hafa einnig farið fram stórtónleikar.
-
Sædýrasafnið The Deep
-
KC Stadium
-
Í Hull eru símaklefarnir ekki rauðir eins og gengur og gerist í Bretlandi, þar sem símakerfið er rekið af einkaaðila
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Kingston upon Hull“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. mars 2013.