Þorskastríðin

Þorskastríðin nefndust politískar deilur milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum, sem leiddu til átaka á miðunum, en frá árunum 1958 til 1976 voru háð þrjú þorskastríð.

Breytingar á efnahagslögsögu íslands.      Ísland      Innsævi      4 sjómílu landhelgi      12 sjómílu landhelgi      50 sjómílu efnahagslögsaga      200 sjómílu efnahagslögsaga

Eina dauðsfallið sem varð í þorskastríðunum átti sér stað í deilu tvö þ. 29. ágúst 1973 en þá lést Halldór Hallfreðsson, vélstjóri á varðskipinu Ægi, er hann fékk raflost við viðgerðir eftir ásiglingu bresku freigátunnar Apollo.

AðdragandiBreyta

Helst hvati deilunnar varð til þegar landgrunnslög voru gerð, og landhelgin var færð út í 4 sjómílur 1948. Það vakti hörð viðbrögð hjá mörgum þjóðum að ekki var lengur hægt að stunda togveiðar innan fjögurra mílna marka og var sett löndunarbann á íslenskan fisk í Englandi. Mótmæli bárust einnig frá Belgíu, Frakklandi og Hollandi. Þann 15. nóvember 1956 var svo gerður löndunarsamningur milli Breta og Íslendinga og var þar með fiskveiðideilunni lokið í það skiptið.

Fyrsta þorskastríðið (1958–1961)Breyta

Þann 24. maí 1958 tilkynnti Lúðvík Jósepsson, sjávarútvegsráðherra að landhelgin kringum Ísland skyldi færð út í 12 sjómílur. Bretar mótmæltu þessari ákvörðun mjög og sendu herskip á Íslandsmið. Þar á meðal freigátuna HMS Russel en skipherra freigátunnar hafði sig mjög í frammi og sakaði meðal annars skipherra varðskipsins Ægis um að hafa reynt að sigla freigátuna í kaf. Mótmæli vegna yfirgangs Breta voru haldin í Reykjavík, en deilunni lauk með samningi milli Íslendinga og Breta árið 1961. En þetta reyndist aðeins skammgóður vermir í deilu þjóðanna.

Annað þorskastríðið (1972–1973)Breyta

 
Myndin sýnir hverning togvíraklippunum var beitt.

Þann 15. febrúar 1972 ákvað ríkisstjórn Íslands að færa út fiskveiðilögsöguna enn frekar og í þetta skiptið í 50 sjómílur. Ekki stóð á viðbrögðum Breta og voru herskip og dráttarbátar send á Íslandsmið til verndar breskum togurum. Átökin versnuðu stöðugt og reyndu bresku dráttarbátarnir einatt ásiglingar á íslensku varðskipin en gekk það misjafnlega þar eð varðskipin voru ganghraðari og liprari. Þann 5. september 1972 var togvíraklippunum beitt í fyrsta skipti og var það Ægir sem klippti á togvíra breska síðutogarann Peter Scott. Að lokum var samið um vopnahlé þann 13. nóvember árið 1973. En það stóð stutt. Eina dauðsfallið sem varð í þorskastríðunum átti sér stað í þessari deilu þ. 29. ágúst 1973 en þá lést vélstjóri á varðskipinu Ægi er hann fékk raflost við viðgerðir eftir ásiglingu bresku freigátunnar Apollo.[1]

Þriðja þorskastríðið (1975–1976)Breyta

 
Árekstur milli varðskipsins Óðins og freigátu breska sjóhersins HMS Scylla 23 febrúar 1976

Íslenska ríkisstjórnin ákvað að fiskveiðilögsagan skyldi færð út enn frekar og í þetta skipti í 200 sjómílur. Þann 15. október 1975 tóku nýju lögin gildi. Bretar mótmæltu og neituðu að samþykkja útfærsluna og þann 16. nóvember 1975, aðeins sólarhring eftir að lögin tóku gildi, varð breski togarinn Primella frá Hull að sjá á eftir veiðarfærum sínum sökkva í hafið. Deilurnar voru nú á háskalegri braut og aftur beittu Bretar bæði dráttarbátum og freigátum til að freista þess að hindra íslensku varðskipin sem aftur á móti voru óþreytandi við að klippa aftan úr bresku togurunum. Íslendingar tóku til þess ráðs að breyta skuttogaranum Baldri EA 124 í varðskip og reyndist hann betri en enginn því hvorki meira né minna en þrjár breskar freigátur þurftu, áður en yfir lauk, að sigla til Bretlands til viðgerða eftir árekstur við Baldur.[2] Deilan harðnaði enn frekar og Íslendingar slitu stjórnmálatengslum við Bretland í febrúar 1976 og hótuðu því að ganga úr NATO. Eitt alvarlegasta atvikið í deilunni átti sér stað þann 6. maí er freigátan Falmouth sigldi á varðskipið Tý og munaði aðeins hársbreidd að það yrði mannskaði. Bretar og Íslendingar funduðu í Ósló þann 23. maí árið 1976 og náðu að semja þann fyrsta júní og lauk þar með þorskastríðunum.

TengillBreyta

  1. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=264803&pageId=3734810&lang=is&q=Dau%F0sfall
  2. http://skemman.is/stream/get/1946/21216/49043/1/St%C3%A1l_%C3%AD_st%C3%A1l.pdf