Háskóli Íslands

ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Reykjavík
(Endurbeint frá )

Háskóli Íslands (HÍ) er íslenskur ríkisháskóli sem var stofnaður árið 1911. Háskóli Íslands er opinber alhliða rannsóknarháskóli sem býður upp á um 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi í yfir 160 námsgreinum í um 25 deildum. Langflest námskeið eru kennd á íslensku, en lítill hluti er kenndur á ensku. Háskólinn er með sérstakar námsleiðir fyrir erlenda nemendur, eins og í miðaldafræði og íslensku sem annað mál. Kennsla við Háskólann skiptist í fimm svið: félagsvísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, hugvísindasvið, menntavísindasvið og verkfræði- og náttúruvísindasvið.

Háskóli Íslands
Merki skólans
Stofnaður: 1911
Gerð: Ríkisháskóli
Rektor: Jón Atli Benediktsson
Nemendafjöldi: 13.701 (2023)
Staðsetning: Reykjavík, Ísland
Vefsíða
Aðalbygging Háskóla Íslands

Fjöldi nemenda við Háskólann er um 14 þúsund á hverju ári. Háskóli Íslands er því langstærsti háskóli landsins. Háskólinn í Reykjavík kemur næstur með um 3500 nemendur. Um tveir þriðju hlutar nemenda eru konur.[1] Háskólinn er með um 600 fastráðna kennara og yfir 3000 stundakennara og aðjúnkta, auk um 1000 starfsmanna og rannsakenda.[2] Háskólinn er þannig einn af stærstu vinnustöðum á Íslandi. Rektor skólans er Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði.

Háskóli Íslands hefur verið metinn í 201–250. sæti yfir bestu háskóla heims af Times Higher Education,[3] en í 401–500. sæti hjá Academic Ranking of World Universities.[4]

Háskóli Íslands var stofnaður 17. júní árið 1911 og tók til starfa í októberbyrjun sama ár. Við það sameinuðust Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn. Ein deild innan Háskólans var tileinkuð hverjum þeirra auk þess sem stofnuð var sérstök heimspekideild. Fyrsta árið voru 45 nemendur við skólann, fimm í guðfræðideild, sautján í lagadeild og 23 í læknadeild, en enginn var skráður í heimspekideild. Aðeins ein kona var skráð til náms fyrsta árið.[5] Fyrsti rektor skólans var Björn M. Ólsen, prófessor við heimspekideild.[6] Háskólaráð var skipað fjórum aðalmönnum, auk rektors. Stúdentaráð Háskóla Íslands var stofnað árið 1920 að danskri fyrirmynd.

 
Anddyri aðalbyggingar Háskólans

Fyrstu 29 árin var Háskóli Íslands staðsettur á neðri hæð Alþingishússins við Austurvöll, en árið 1940 flutti skólinn starfsemi sína í nýtt húsnæði, aðalbyggingu Háskólans, austan við Suðurgötu. Þá var Háskólabókasafn jafnframt stofnað við sameiningu bókasafna hinna ýmsu deilda og staðsett í nýju byggingunni. Árið 1935 tók atvinnudeild Háskólans til starfa og hafði með höndum rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Hún skiptist í fiskideild, búnaðardeild og iðnaðardeild. Sérstakt hús var reist yfir hana árið 1937 (nú Setberg). Atvinnudeildin var lögð niður árið 1965 þegar Hafrannsóknastofnun Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins voru stofnaðar undir Rannsóknaráði Íslands.

 
„Menntavegurinn“ er göngustígur sem tengir nokkrar af byggingum Háskólans austan við Suðurgötu.

Síðan þá hefur Háskólasvæðið stækkað til muna, og kennt er í mörgum byggingum beggja vegna Suðurgötu og á fleiri stöðum. Kostnaður við nýbyggingar skólans sem og viðhald eldri bygginga hefur að miklu leyti verið greiddur af Happdrætti Háskólans sem var stofnað árið 1934 með sérstöku leyfi.[7] Sama ár var fyrsti stúdentagarður Háskólans, Garður (nú Gamli garður), tekinn í notkun. Næsti nýi stúdentagarðurinn var Nýi garður sem var tekinn í notkun árið 1943. Á 10. áratug 20. aldar var hlutverki hússins breytt þannig að það hýsir kennslu og rannsóknarstarfsemi. Þar er nú hluti af starfsemi heilbrigðisvísindasviðs.

Þegar Handritamálið leystist og danska þingið samþykkti að afhenda Íslandi safn handrita úr Árnasafni í Kaupmannahöfn árið 1961 var hluti af því samkomulagi að stofna Handritastofnun Íslands. Árið 1967 hófst vinna við að reisa nýja byggingu yfir þessa stofnun. Árnagarður var formlega tekinn í notkun 21. desember 1969 og hýsti lengi vel hluta af kennslu heimspekideildar, auk Handritastofnunar. Árið 1971 bættist Lögberg við byggingar Háskólans og VR-I og VR-II voru líka reistar á 8. áratugnum.

Árið 1963 fékk Ottó A. Michelsen fyrsta „rafheilann“ á leigu til notkunar í kennslu við Háskólann, af gerðinni IBM 1620. Árið eftir ákvað Framkvæmdabanki Íslands að gefa Háskólanum upphæð að andvirði sams konar tækis. Þegar tækið var keypt árið 1964 var Reiknistofnun Háskóla Íslands stofnuð og fékkst við margvíslega útreikninga fyrir rannsóknir og fleira næstu áratugi. Árið eftir var stungið upp á nýyrðinu „tölva“ fyrir þetta tæki.

Árið 1967 var Félagsstofnun stúdenta (FS) stofnuð til að taka að sér rekstur stúdentagarða við Háskóla Íslands. FS hefur síðan þá staðið að byggingu fjölda nýrra stúdentagarða á Háskólasvæðinu, rekur leikskóla og veitingasölu í Háskólanum. Árið 1971 var Félagsheimili stúdenta við Hringbraut opnað og Bóksala stúdenta tók þar til starfa. Stúdentaráð og Ferðaskrifstofa stúdenta fluttu líka þar inn. Stúdentakjallarinn var stofnaður í kjallara Gamla garðs árið 1975 og hefur starfað síðan með hléum. Hann er nú staðsettur í kjallara Háskólatorgs. Fyrstu stúdentagarðarnir fyrir hjón (Hjónagarðar) voru teknir í notkun 1976.

Árið 1982 var Læknagarður vígður en læknadeildin flutti ekki þangað inn fyrr en árið 1988. Árið 1986 var Oddi tekinn í notkun fyrir kennslu félagsvísindadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar. Félagsvísindastofnun var stofnuð árið áður og fékk hluta efstu hæðar hússins til afnota. Árið 1988 var svo Tæknigarður tekinn í notkun, en þar voru ýmis sprotafyrirtæki til húsa fyrst um sinn, auk Reiknistofnunar, Endurmenntunar og kennslu í tölvunarfræði. Fyrsta IP-tengingin við útlönd var í Tæknigarði.

Árið 1994 voru Háskólabókasafn og Landsbókasafn Íslands sameinuð í eitt Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn í Þjóðarbókhlöðunni, skammt frá Háskólasvæðinu. Eftir að Íslensk erfðagreining reisti sér hús í Vatnsmýrinni var tekið að ræða um „þekkingarþorp“ á því svæði þar sem kæmu saman rannsóknarstofnanir og þekkingarfyrirtæki í tengslum við Háskólasvæðið. Árið 2004 var nýtt náttúrufræðihús vígt í Vatnsmýri og hlaut nafnið Askja. Árið 2003 stóð Háskóli Íslands ásamt nokkrum tækni- og rannsóknarfyrirtækjum að stofnun Vísindagarða utan um þróun byggðar í Vatnsmýri, milli Háskólasvæðisins og Reykjavíkurflugvallar. Hugmyndahúsið Gróska reis á vegum Vísindagarða og var tekið í notkun árið 2020.

 
Háskólatorg árið 2009

Í lok árs 2007 lauk byggingu Háskólatorgs og Gimli[8] sem eru samanlagt 8.500 m2 að stærð. Byggingavinna hófst vorið 2006. Háskólatorg hýsir nú helstu veitingasölur Háskólans, Hámu og Stúdentakjallarann, auk Bóksölu stúdenta, og þar eru skrifstofur Stúdentaráðs og Félagsstofnunar stúdenta til húsa. Fyrrum Félagsheimili stúdenta fékk þá nafnið Stapi og hýsir námsbrautir á heilbrigðisvísindasviði.

Árið 2008 sameinuðust Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands undir nafni þess fyrrnefnda. Kennaraháskólinn varð menntavísindsvið Háskólans, en kennsla er áfram í húsnæði Kennaraháskólans í Stakkahlíð. Áform voru um flutning menntavísindasviðs í nýtt húsnæði á háskólasvæðinu við Suðurgötu. Árið 2021 keypti íslenska ríkið Hótel Sögu undir hluta af starfsemi Háskóla Íslands. Hótelið hafði hætt rekstri vegna kórónaveirufaraldursins. Eftir gagngerar breytingar hóf menntavísindasvið flutning þangað inn árið 2024.

Árið 2021 brast vatnslögn við Suðurgötu ofan við Háskólatorg með þeim afleiðingum að kjallari Háskólatorgs og jarðhæð Gimli fylltust af köldu vatni sem olli miklu tjóni.[9][10] Kennslu- og lesrými á þessu svæði voru aftur tekin í notkun einu og hálfu ári síðar.

Árið 2023 var nýtt hús tekið í notkun fyrir Árnastofnun og kennslu og rannsóknir í íslenskum fræðum: Edda (Hús íslenskra fræða), spölkorn frá Þjóðarbókhlöðunni.

 
Háskólasvæðið þar sem sést í aðalbyggingu, Háskólatorg og Lögberg

Háskóli Íslands býður upp á fjölbreytt nám, bæði á grunnstigi og framhaldsstigi. Við Háskóla Íslands eru 26 deildir og fjórar þverfræðilegar námsbrautir. Að auki fer fram kennsla á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands.

Þann 1. júlí 2008 tóku gildi breytingar á námsskipulagi sem og stjórnkerfi skólans. Ákveðið var að HÍ og Kennaraháskóli Íslands myndu sameinast. Fræðasvið skólans urðu fimm talsins og deildirnar 25. Núverandi fræðasvið skólans eru:

Félagsvísindasvið

breyta
 
Lögberg

Félagsvísindadeild Háskóla Íslands var stofnuð árið 1976. Sviðið er það fjölmennasta í Háskólanum. Deildir sviðsins eru sex talsins: félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, félagsráðgjafardeild, hagfræðideild, lagadeild, stjórnmálafræðideild og viðskiptafræðideild.

Kennsla á félagsvísindasviði fer að mestu fram í byggingunum Odda, Gimli og Lögbergi.

Heilbrigðisvísindasvið

breyta
 
Læknagarður í desember 2006

Deildir sviðsins eru eftirfarandi: hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, læknadeild (þar á meðal geislafræði, lífeindafræði og sjúkraþjálfun), matvæla- og næringarfræðideild, sálfræðideild og tannlæknadeild.

Kennsla á heilbrigðisvísindasviði fer að mestu fram á Landspítala, og í háskólabyggingunum Læknagarði, Stapa og Nýja garði.

Hugvísindasvið

breyta

Á Hugvísindasviði eru eftirtaldar deildir: guðfræði- og trúarbragðafræðideild, íslensku- og menningardeild, mála- og menningardeild, og sagnfræði- og heimspekideild.

Kennsla á hugvísindasviði fer að mestu fram í Árnagarði, aðalbyggingu, Veröld og Eddu.

Menntavísindasvið

breyta

Kjarni menntavísindasviðs er myndaður úr Kennaraháskóla Íslands sem sameinaðist Háskólanum í júlí 2008. Menntavísindasvið menntar kennara fyrir leik- grunn- og framhaldsskóla, íþrótta- og heilsufræðinga, tómstunda- og félagsmálafræðinga og þroskaþjálfa. Deildir sviðsins eru: íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, kennaradeild og uppeldis- og menntunarfræðideild.

Kennsla menntavísindasviðs fer að mestu fram í byggingum Háskólans í Stakkahlíð og Skipholti.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

breyta
 
VR-III

Deildir á verkfræði og náttúruvísindasviði eru: iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild; jarðvísindadeild, líf- og umhverfisvísindadeild, rafmagns- og tölvuverkfræðideild, raunvísindadeild, og umhverfis- og byggingarverkfræðideild.

Kennsla verkfræði- og náttúruvísindasviðs fer að mestu fram í VR-I til III, Öskju og Tæknigarði.

Stofnanir skólans

breyta
 
Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Húsavík hefur rannsakað stórhveli við Ísland.

Rannsóknastofnanir

breyta

Innan vébanda Háskóla Íslands starfar mikill fjöldi rannsóknastofnana af ýmsu tagi, eins og Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, Siðfræðistofnun, Hafréttarstofnun Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Norræna eldfjallasetrið.[11] Flestar stofnanirnar eru staðsettar á háskólasvæðinu í Reykjavík. Að auki rekur Háskólinn ellefu rannsóknarsetur um allt land þar sem hvert setur fæst við sérhæfðar rannsóknir sem tengjast þeim stað sem það er á.[12] Rannsóknarsetrin eru meðal annars á Egilsstöðum, Bolungarvík, Hólmavík, Húsavík, Sandgerði, Stykkishólmi, Breiðdalsvík og Vestmannaeyjum.

Þjónustustofnanir

breyta

Innan Háskólans eru fjölmargar þjónustueiningar sem sinna miðlægri þjónustu háskólans. Meðal þeirra eru nemendaskrá, skrifstofa alþjóðasamskipta, námsráðgjöf, rannsóknaþjónusta, kennslumiðstöð og tungumálamiðstöð. Íþróttahús HÍ er lítið íþróttahús með íþróttasal og líkamsræktarsal fyrir nemendur og starfsfólk. Upplýsingatæknisvið Háskóla Íslands rekur tölvubúnað og upplýsingakerfi Háskólans, auk þess að sinna notendaþjónustu. Listasafn Háskóla Íslands var stofnað árið 1980 með listaverkagjöf Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur.

Endurmenntun Háskóla Íslands er sérstök stofnun sem býður upp á námskeið á ýmsum sviðum fyrir almenning. Háskólaútgáfan er bókaútgáfa innan vébanda Háskólans. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er sjálfstæð háskólastofnun sem sinnir upplýsingaþjónustu fyrir Háskólann meðal annarra. Árnastofnun er önnur sjálfstæð háskólastofnun sem er nátengd Háskóla Íslands.

Stjórnsýsla

breyta
 
Jón Atli Benediktsson er núverandi rektor Háskóla Íslands.

Rektor og háskólaráð

breyta

Rektor Háskóla Íslands er æðsti fulltrúi skólans og ber ábyrgð á allri starfsemi hans. Rektor er skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára í senn samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, að undangengnum almennum kosningum innan Háskólans.

Fyrsti rektor Háskólans var Björn M. Ólsen. Núverandi rektor er Jón Atli Benediktsson.[13]

Auk rektors fer háskólaráð með yfirstjórn Háskólans. Tíu manns sitja nú í háskólaráði: þrír fulltrúar háskólasamfélagsins, tveir valdir af ráðherra, tveir fulltrúar stúdenta og þrír valdir af háskólaráði sjálfu. Rektor er forseti háskólaráðs.

Tilvísanir

breyta
  1. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (2. nóvember 2019). „Fleiri konur en karlar í háskólanámi“. RÚV.
  2. „Starfsmenn“. Háskóli Íslands.
  3. „World University Rankings“. 30. september 2015.
  4. „Academic Ranking of World Universities 2017“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. janúar 2019. Sótt 21. desember 2023.
  5. „Saga“. Háskóli Íslands.
  6. „Saga Háskóla Íslands - Yfirlit um hálfrar aldar starf“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 12. febrúar 2007. Sótt 4. september 2009.
  7. „Ágrip af sögu HÍ á vefsíðu Árnastofnunnar“. Sótt 10. september 2009.
  8. „Heimasíða Háskólatorgs“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. febrúar 2007. Sótt 1. mars 2007.
  9. „Vatnstjón í Háskóla Íslands“. Háskóli Íslands.
  10. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (21. janúar 2021). „Gríðar­legt vatns­tjón í HÍ: Meira en tvö þúsund tonn af vatni runnu út eftir rof á kalda­vatns­lögn“. Vísir.is.
  11. „Rannsóknastofnanir“. Háskóli Íslands.
  12. „Rannsóknasetur Háskóla Íslands“. Háskóli Íslands.
  13. „Hlutverk rektors“. Sótt 30. nóvember 2009.

Tenglar

breyta

64°08′26″N 21°56′58″V / 64.14056°N 21.94944°V / 64.14056; -21.94944