Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur það tvíþætta hlutverk að vera þjóðbókasafn Íslands, sem þaulsafnar útgefnu íslensku prentefni og hljóðritum, og háskólabókasafn, en safnið á stærsta safn fræðirita á landinu. Safnið er bókasafn Háskóla Íslands og því er þjónusta þess við skólann skilgreind með sérstökum samningi.[1] Þess utan er safnið öllum opið. Forstöðumaður safnsins hefur titilinn landsbókavörður.

Þjóðarbókhlaðan

Safnið var opnað 1. desember 1994 eftir sameiningu Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðunni, byggingu sem stendur á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur nálægt Hringbraut.

Safnkosturinn er um milljón titlar af ýmsu tagi sem skiptist í nokkur söfn: þeirra á meðal eru þjóðbókasafnið, handrit og sérsöfn einstaklinga sem aðeins er hægt að skoða á sérstökum lestrarsal á fyrstu hæð í Þjóðarbókhlöðu, tón- og myndsafn safnar íslenskri tónlist sem hægt er að hlusta á á efstu hæð, og dagblöð og tímarit er hægt að lesa á þriðju hæð. Stærstan hluti fræðirita og bókmenntarita safnsins er hins vegar hægt að skoða í hillum og taka að láni.

Starfsmenn safnsins eru tæplega áttatíu. Safnið rekur meðal annars upplýsingaþjónustu fyrir skóla og atvinnulíf, landsmiðstöð millisafnalána, bókbandsstofu og skráningardeild. Safnið sér líka um úthlutun ISBN- og ISSN-númera fyrir íslenska bóka- og tímaritaútgáfu og heldur utan um íslenska útgáfuskrá. Á síðustu árum hefur safnið staðið að stórum verkefnum sem ganga út á að veita aðgang að safnkostinum á Veraldarvefnum. Dæmi um slík verkefni eru Gegnir (samskrá íslenskra bókasafna), Tímarit.is (dagblöð og tímarit), Handrit.is (handrit), Vefsafn.is (vefsíður) og Bækur.is (bækur). Safnið heldur einnig utan um áskriftir ýmissa stofnana að stórum tilvísana- og gagnasöfnum og rafrænum tímaritum.

Á 6. áratug síðustu aldar var farið að ræða um það að óhagkvæmt væri að byggja upp tvö vísindabókasöfn á landinu. Sérstök nefnd undir forsæti Þorkels Jóhannessonar rektors var skipuð til að fjalla um málið og árið 1957 var samþykkt þingsályktunartillaga um að sameina bæri Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið sem allra fyrst í sérstöku húsnæði þar sem Safnahúsið myndi ekki nægja til að svara þörfum sameinaðs bókasafns.[2]

Í framhaldi af því var farið að ræða um byggingu sérstaks húsnæðis, „þjóðarbókhlöðu“, nálægt háskólanum og voru menn helst á því að ljúka ætti við bygginguna þjóðhátíðarárið 1974 þegar minnst yrði 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Ákveðið var að safnið yrði „gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín“ á þjóðhátíðinni. Söfnin hófu þá undirbúning og fengu meðal annars erlenda sérfræðinga í hönnun slíkra bókasafna frá UNESCO til ráðlegginga. 1970 var svo samþykkt nánast samhljóða þingsályktun þess efnis byggð á tillögu þjóðhátíðarnefndar sem Gylfi Þ. Gíslason bar fram. Þá var þegar búið að stofna byggingasjóð með reglulegu framlagi af fjárlögum til að fjármagna framkvæmdina.

Þjóðargjöfin sem tafðist

breyta

Lyktir þjóðhátíðarmálsins þegar nær dró afmælinu urðu þær að hætt var við flestar tillögur þjóðhátíðarnefndar og fjármagn til verkefna skorið verulega niður. Ákveðið var að taka fyrstu skóflustungu að nýrri þjóðarbókhlöðu í stað þess að vígja bygginguna eins og upphaflega var ráðgert. Samið var við arkitektana Þorvald S. Þorvaldsson og Manfreð Vilhjálmsson um hönnun hússins en Arkitektafélag Íslands gagnrýndi að ekki hefði verið haldin samkeppni um hönnunina. Staðsetning bókhlöðunnar á Birkimel nokkurn spöl frá miðju háskólasvæðisins var líka gagnrýnd en þessari lóð hafði verið úthlutað af borginni á 150 ára afmæli Landsbókasafnsins 1968.

Þegar leið á árið 1974 varð ljóst að ekki væru til nægir peningar til að hefja framkvæmdir og þar við það sat næstu ár. Árin 1972 og 1975 hafði ríkissjóður tekið aftur framlag sitt til byggingasjóðs. Olíukreppan olli því meðal annars að afkoma ríkissjóðs versnaði næstu árin og ekkert varð því af framkvæmdum þótt viljinn væri fyrir hendi.

Bygging hússins

breyta

Árið 1977 komst skriður á málið þegar ákveðið var að verja hluta ágóða af sölu þjóðhátíðarmyntar til byggingar þjóðarbókhlöðu. Samningar náðust við Reykjavíkurborg um gatnagerð og skipulag Birkimelssvæðisins og var meðal annars gert ráð fyrir því að færa Melavöllinn um set tímabundið, en áætlað var að hann hyrfi á brott þegar húsið yrði tekið í notkun. Vilhjálmur Hjálmarsson, menntamálaráðherra, tók fyrstu skóflustungu að húsinu 28. janúar 1978. Eftir það var tekinn grunnur og steyptir sökklar og neðsta gólfplatan. Næstu ár var unnið að uppsteypu hússins og Vigdís Finnbogadóttir lagði hornstein að því 23. september 1981. 1983 var húsið nánast fullsteypt. Það ár komu til landsins sérsmíðaðir álskildir sem klæða það að utan.

Þótt húsið væri nú nánast fullbyggt var ljóst að töluvert fé vantaði upp á til að ljúka við frágang að innan og utan. Framkvæmdafé var enn skorið niður en 1986 var ákveðið að hluti eignaskatts skyldi renna til byggingarinnar árin 1987–89. Þetta var kallað „þjóðarátak til byggingar Þjóðarbókhlöðu“ en einn af forvígismönnum þess var Sverrir Hermannsson menntamálaráðherra. Raunin varð hins vegar sú að einungis lítill hluti af eignaskattsaukanum rann til byggingarinnar. Samt var það stóraukið fjármagn miðað við fyrri ár. Steininn tók svo úr 1989 þegar ríkisstjórnin samþykkti að helmingur framkvæmdafjár næsta árs skyldi koma frá Happdrætti Háskóla Íslands. Háskólinn mótmælti þessari ráðstöfun á sjálfsaflafé skólans harðlega.

Opnun Þjóðarbókhlöðu

breyta

Viðeyjarstjórnin ákvað 1991 að setja stóraukið fjármagn í síðustu áfangana til að verkinu lyki á tilsettum tíma sem var áætlað árið 1994. 1991–94 var unnið hörðum höndum að frágangi hússins að innan. 1. desember 1994, á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins, var byggingin loks vígð og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn tók formlega til starfa. Fyrsti landsbókavörður hins nýstofnaða safns var skipaður Einar Sigurðsson fyrrum háskólabókavörður. Í aðdraganda opnunarinnar var talsvert rætt um að hinu nýja bókasafni væri þröngt skorinn stakkur varðandi rekstur og ætlaðir opnunartímar voru ekki í samræmi við það sem háskólanemar vildu helst. Nemendur hrundu því af stað söfnunarátaki til að safna rekstrarfé fyrir hið nýja safn. Þannig söfnuðust yfir 22 milljónir króna sem safnið fékk að gjöf við opnunina.

Við opnun safnsins nam heildarbyggingarkostnaður á þáverandi verðlagi 2,5 milljörðum króna. Yfir helmingur af því fé kom til síðustu fjögur ár byggingartímans. Mikið var rætt um hinn langa byggingatíma og var Þjóðarbókhlaðan borin saman við Kringluna sem var opnuð 1987 eftir aðeins þriggja ára framkvæmdir. Var þetta tekið sem dæmi um seinagang í opinberum framkvæmdum.

Hlutverk

breyta

Hlutverk safnsins er skilgreint í lögum nr. 142 28. september 2011 sem leystu af hólmi eldri lög frá 1994 nr. 71 11. maí 1994 sem aftur leystu af hólmi lög um Landsbókasafn Íslands frá 1969. Í lögunum eru talin upp átján atriði sem teljast til hlutverks safnsins en nánar er kveðið á um það í reglugerð sem menntamálaráðherra setur. Helstu verkefni safnsins eru þau að þaulsafna íslensku efni, varðveita handritasöfn, sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi við Háskóla Íslands og annast alhliða upplýsinga- og þekkingarmiðlun.

Safnið nýtur skylduskila á öllu prentuðu efni og hljóðritum sem gefin eru út á Íslandi. Það leitast jafnframt við að safna öllu efni sem tengist Íslandi og íslensku efni sem gefið er út erlendis.

Upplýsingatækni verður æ stærri þáttur í rekstri safnsins og meðal helstu verkefna á því sviði eru vefútgáfa íslenskra dagblaða og tímarita (Tímarit.is), söfnun íslenskra vefsíðna, og vefútgáfa íslenskra handrita (Handrit.is) meðal annarra.

Þjóðarbókhlaðan

breyta

Höfuðstöðvar bókasafnsins eru í Þjóðarbókhlöðunni sem er 13.000 fermetra bygging sem stendur á Birkimel í Vesturbæ Reykjavíkur. Húsið er fjögurra hæða hátt og mjög áberandi þar sem það stendur nálægt Hringbraut. Efstu tvær hæðirnar eru klæddar með rauðum álskjöldum sem voru sérsmíðaðir í Japan.

Þjóðarbókhlaðan er reglulegur ferningur með fjórum stigahúsum utanáliggjandi auk inngangs sem tengist aðalbyggingunni með brú þar sem gengið er inn á aðra hæð. Húsið stendur ofaní eins konar dæld eða skál þar sem neðst er grunnt síki fyllt með vatni. Húsið er fjórar hæðir og kjallari. Í kjallara eru bókageymslur og myndastofa. Á fyrstu hæð er aðstaða starfsfólks, skrifstofur, auk lestrarsals fyrir notendur handrita- og skjalasafna og Íslandssafns. Aðalinngangur safnsins er á annarri hæð þar sem er afgreiðsla, upplýsingaborð og handbókadeild, auk skrifstofa. Á þriðju og fjórðu hæð eru svo tímarit og bækur, auk tón- og myndsafns. Í húsinu eru yfir 500 sæti í lestraraðstöðu og nokkrar tölvur til afnota fyrir gesti. Þráðlaust net er í öllu húsinu. Veitingastofa er rekin á annarri hæð. Fyrir framan innganginn er hellulögð skál með vatni í.

Tilvísanir

breyta
  1. „Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns“ (PDF). Sótt 7. apríl 2014.
  2. Tillaga til þingsályktunar - um sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns o.fl., Árbók Landsbókasafns Íslands 1957

Tenglar

breyta