Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, öðru nafni Árnastofnun, var sett á laggirnar 1. september 2006 við sameiningu fimm stofnana á sviði íslenskra fræða. Þær voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók við skyldum og verkefnum hinna eldri stofnana og þeim verkefnum sem þær höfðu sinnt.
Hlutverk stofnunarinnar er samkvæmt lögum nr. 40/2006 „að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, að miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem henni eru falin eða hún á“.
Árnastofnun er til húsa í Eddu, við Arngrímsgötu í Reykjavík. Þar eru einnig geymd þau handrit úr safni Árna Magnússonar sem stofnunin varðveitir, sem og örnefnasafn, orðasöfn og þjóðfræðisafn stofnunarinnar. Stofnunin starfrækir og heldur úti viðamiklum gagnasöfnum á vefnum, m.a. um örnefni, orðaforða og málnotkun, og sinnir margvíslegum máltækniverkefnum.
Handritasýningin Heimur í orðum var opnuð í Eddu haustið 2024.
Árnastofnun hefur náin starfstengsl við Háskóla Íslands og er hluti af fræðasamfélagi hans.