Donald Davidson (6. mars 191730. ágúst 2003) var bandarískur heimspekingur og „Willis S. and Marion Slusser“ prófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Rit hans hafa verið gríðarlega áhrifamikil í nær öllum greinum heimspekinnar frá 7. áratug 20. aldar en einkum í hugspeki og málspeki. Þrátt fyrir að skrif hans séu flest í formi stuttra ritgerða og byggi ekki öll á einni tiltekinni kenningu þykja þau eigi að síður bera merki um ákveðna einingu — sömu aðferðunum og hugmyndunum er beitt á fjölmörg vandamál sem eru að því er virðist ótengd. Davidson fléttar einnig saman áhrifum frá mörgum öðrum heimspekingum, m.a. (en ekki eingöngu) Aristótelesi, Immanuel Kant, Ludwig Wittgenstein, F.P. Ramsey, W.V.O. Quine og G.E.M. Anscombe.

Vestræn heimspeki
Heimspeki 20. aldar
Nafn: Donald Davidson
Fæddur: 6. mars 1917Springfield í Massachusetts í Bandaríkjunum)
Látinn: 30. ágúst 2003 (86 ára) (í Berkeley í Kaliforníu í Bandaríkjunum)
Skóli/hefð: Rökgreiningarheimspeki
Helstu ritverk: Essays on Actions and Events, Inquiries into Truth and Interpretation, Subjective, Intersubjective, Objective, Problems of Rationality, Truth, Language, and History, Truth and Predication
Helstu viðfangsefni: málspeki, merkingarfræði, athafnafræði, hugspeki, þekkingarfræði
Markverðar hugmyndir: túlkun frá rótum, löglaus einhyggja, sannkjarakenning um merkingu, ástæður sem orsakir
Áhrifavaldar: W.V.O. Quine, Alfred Tarski, G.E.M. Anscombe, H.P. Grice, F.P. Ramsey, Ludwig Wittgenstein, Michael Dummett, Immanuel Kant, Bertrand Russell, Platon, Aristóteles
Hafði áhrif á: Richard Rorty, Robert Brandom, Gareth Evans, John McDowell, Ernest Lepore

Æviágrip breyta

Davidson nam heimspeki við Harvard-háskóla undir leiðsögn Alfreds Norths Whitehead, meðal annarra, og skrifaði doktorsritgerð um Fílebos eftir Platon. Á námsárunum hafði hann einkum áhuga á hugmyndasögu í víðum skilningi en vegna áhrifa frá W.V.O. Quine, sem hann kallaði lærimeistara sinn, fór hann smám saman að fá áhuga á nákvæmari aðferðum og vandamálum rökgreiningarheimspekinnar.

Á 6. áratug 20. aldar vann Davidson með Patrick Suppes að því að þróa nýja nálgun við ákvörðunarfræði. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að ómögulegt væri að einangra skoðanir og langanir manns hverja frá annarri, þ.e.a.s. að það yrðu ávallt margar leiðir til þess að greina athafnir manns með vísun til langana hans, gildismats eða hvað viðkomandi var að reyna. Niðurstöðurnar eru sambærilegar kenningu Quines um þýðingabrigði og er mikilvægur þáttur í mörgum hugmyndum Davidsons í hugspeki.

Þekktustu rit hans eru ritgerðir frá 7. áratug 20. aldar og fjalla um athafnafræði, hugspeki og málspeki en snerta stundum á fagurfræði, heimspekilegri sálfræði og sögu heimspekinnar.

Davidson ferðaðist víða og átti ótalmörg áhugamál. Hann hafði einkaflugmannsréttindi, lék á píanó, smíðaði útvarpstæki og var hrifinn af fjallgöngum og brimbrettum. Hann giftist þrisvar sinnum (síðasta eiginkona hans var heimspekingurinn Marcia Cavell). Hann var forseti bæði austur- og vesturdeildar American Philosophical Association og kenndi við Stanford-háskóla, Princeton-háskóla, Rockefeller-háskóla, Harvard-háskóla, Oxford-háskóla og Chicago-háskóla. Frá 1981 til dauðadags kenndi hann heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Árið 1995 hlaut hann Jean Nicod-verðlaunin.

Heimspeki breyta

Athafnir, ástæður og orsakir breyta

Davidson vakti mikla athygli í kjölfar ritgerðar sem hann birti árið 1963, „Athafnir, ástæður og orsakir“, þar sem hann reyndi að hrekja ríkjandi viðhorf, sem oft er eignað Wittgenstein, að ástæður manns til athafna geti ekki verið orsakir athafna hans.[1] Davidson færði á hinn bóginn rök fyrir því að það að benda á ástæður til að útskýra athafnir einhvers sé „tegund af venjulegri orsakaskýringu“.[2]. Athöfn A er útskýrð með því sem Davidson kallar meginástæðu, sem felst í jákvæðu viðhorfi (löngun í víðum skilningi) gagnvart markmiðinu M og þeirri skoðun að það að framkvæma athöfnina A sé leið til þess að ná markmiðinu M. Til dæmis gæti meginástæða einhvers fyrir því að taka með sér regnhlífina þegar rignir verið sú að viðkomandi vilji haldast þurr og telur að með því að hafa með sér regnhlífina takist honum að blotna ekki.

Davidson hélt fram þessu viðhorfi, sem staðfestir að verulegu leyti alþýðusálfræði, meðal annars vegna þess að enda þótt orsakalögmálið verður að vera nákvæmt og vélrænt þurfa útskýringar með tilvísun til ástæðna ekki að vera það. Davidson færði rök fyrir því að sú staðreynd að útskýringar á ástæðum eru ekki svo nákvæmar þýddi ekki að það að maður hefði ástæðu til einhvers gæti ekki í sjálfu sér verið ástand sem gæti haft orsakaráhrif á hegðun. Davidson fylgir kenningunni eftir í ýmsum öðrum af ritgerðum sínum.

Löglaus einhyggja breyta

Í ritgerðinni „Mental Events“ (1970) setti Davidson fram teiknaefnishyggju um hugann: teikn eða tilfelli hugrænna ferla eru ekkert annað en teikn eða tilfelli efnislegra ferla. Áður höfðu heimspekingar haft áhyggjur af því að það það reyndist ógerningur að halda fram smættarefnishyggju sem lýsti því eftir hvaða lögmálum hugræn ferli — eins og sú skoðun að himininn sé blár eða að langa í súkkulaði — samsvöruðu efnislegum ferlum eins og taugaboðum í heilanum. Davidson færði rök fyrir því að slíkar smættir væru ekki nauðsynlegar í teiknaefnishyggju: það væri mögulegt að sérhvert einstakt hugarferli væri ekkert annað en samsvarandi efnislegt ferli án þess að eitthvert lögmál gilti um samband gerða eða tegunda (til aðgreiningar frá teiknum) hugarferla annars vegar og efnislegra ferla hins vegar. En Davidson færði rök fyrir því að sú staðreynd að smættir af því tagi væru ómögulegar þýddi ekki að hugurinn sé eitthvað umfram virkni heilans. Davidson nefndi því kenningu sína löglausa einhyggju (e. anomalous monism): einhyggja af því að hún kveður á um að á endanum sé einungis eitthvað eitt (þ.e. hugarferli eru á endanum efnisleg ferli); löglaus vegna þess að engin lögmál gilda um samsvörun hugrænna ferla og efnislegra ferla.

Davidson færði rök fyrir því að löglausa efnishyggju leiddi af þremur sennilegum tilgátum. Í fyrsta lagi gerir hann ráð fyrir að aukagetuhyggja sé röng — það er að segja sú kenning að hugurinn sé eitthvað umfram efnislegar orsakir sínar (er aukageta þeirra) en hefur ekki orsakaráhrif á hið efnislega. Í öðru lagi gerir Davidson ráð fyrir löghyggju um orsakavensl en samkvæmt henni orsakar einn atburður annan ef og aðeins ef það gildir undantekningarlaust lögmál um sambandið milli atburðanna. Í þriðja lagi gerir hann ráð fyrir reglunni um lögleysi hugans en samkvæmt henni gilda engin (undantekningarlaus) lögmál um hugarferli. Davidson færði rök fyrir því að af þessum þremur tilgátum leiði að orsakavenslin milli hins hugræna og hins efnislega gildi einungis milli ákveðinna tilfella eða teikna hugrænna ferla en að tegundir eða gerðir hugrænna ferla séu löglausar. Teiknaefnishyggja sé því rétt og hið hugræna séu álög (e. supervenience) á hinu efnislega.[3]

Sannleikur og merking breyta

Árið 1967 birti Davidson greinina „Truth and Meaning“ þar sem hann færði rök fyrir því að það yrði að vera hægt að lýsa reglum allra tungumála sem hægt er að læra með endanlegri lýsingu, enda þótt á tungumálinu væri hægt að mynda óendanlegan fjölda setninga — eins og gera má ráð fyrir að náttúruleg tungumál séu. Ef ekki væri hægt að lýsa reglum málsins í endanlegri lýsingu, þá væri ekki hægt að læra málið af reynslunni (sem er endanleg) líkt og menn læra tungumál sín. Af þessu leiðir að það hlýtur að vera mögulegt að setja fram merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál sem getur lýst merkingu óendanlegs fjölda setninga á grundvelli endanlegs fjölda frumsendna. Davidson fylgdi í kjölfar Rudolfs Carnap og annarra og færði einnig rök fyrir því að merking setningar væri fólgin í sannkjörum hennar og greiddi þannig götu sannkjarakenninga í merkingarfræði nútímans. Í stuttu máli lagði hann til að það hlyti að vera mögulegt að greina endanlegan fjölda málfræðireglna í tungumáli og útskýra hvernig hver og ein þeirra virkar þannig að mynda mætti augljóslega sannar fullyrðingar um sannkjör allra þeirra óendanlega mörgu setninga sem hafa sannkjör. Það er að segja, það verður að vera hægt að gefa endanlega kenningu um merkingu fyrir náttúruleg tungumál; prófsteinninn á það hvort kenningin er rétt er sá hvort hún getur myndað allar setningar á forminu „'p' er sönn ef og aðeins ef p“ (t.d. „'Snjór er hvítur' ef og aðeins ef snjór er hvítur“). (Þessar setningar nefnast T-jafngildi: Davidson fær hugmyndina að láni frá Alfred Tarski.)

Davidson setti kenninguna fyrst fram í John Locke-fyrirlestrunum sem hann flutti í Oxford og í kjölfarið reyndu fjölmargir heimspekingar að þróa davidsonskar kenningar í merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál. Davidson lagði margt fram til slíkrar kenningar í ritgerðum um tilvitnanir, óbeinar ræður og lýsingar á athöfnum.

Þekking og skoðun breyta

Eftir 8. áratuginn varð hugspeki Davidsons fyrir æ meiri áhrifum frá heimspeki Sauls Kripke, Hilarys Putnam og Keiths Donnellan en allir höfðu þeir sett fram truflandi gagndæmi gegn svonefndri „lýsingarhyggju“ um merkingu. Lýsingarhyggjan, sem á rætur að rekja til kenningar Bertrands Russell um ákveðnar lýsingar (og ef til vill til rits Wittgensteins Tractatus Logico-Philosophicus), kvað á um að tilvísun nafns — það er að segja til hvaða persónu eða hlutar nafnið vísar — réðist af skoðunum manns um þess sem bæri nafnið. Ef einhver trúir til dæmis að „Aristóteles stofnaði Lýkeion“ og „Aristóteles kenndi Alexandri mikla“, um hvern eru þá þessar skoðanir? Aristóteles, bersýnilega. En Hvers vegna? Russell segði að skoðanir manns væru um hvað svo sem gerði flestar setningarnar sannar. Ef tveir menn kenndu Alexandri en einungis einn stofnaði skólann Lýkeion, þá hljóta skoðanir manns að vera um þann sem gerði hvort tveggja. Kripke og fleiri færðu rök fyrir því að kenningin stæðist ekki og að viðfang skoðana manns réðust að miklu eða öllu leyti af því hvernig maður hefði myndað þessar skoðanir og kynnst þessum nöfnum og hvernig eða hvort mögulegt væri að rekja orsakir notkunar þessara nafna frá þeim sem notar nafnið núna aftur til þess er bar upphaflega nafnið.

Davidson tók þessa kenningu upp og í verkum sínum frá 9. áratugnum fékkst hann við ýmis vandamál varðandi það að tengja skoðanir fyrstu persónu við skoðanir annarrar og þriðju persónu. Svo virðist sem skoðanir fyrstu persónu (t.d. „ég er svöng“) séu myndaðar á allt annan hátt en skoðunum þriðju persónu (þ.e. skoðun einhvers annars um mig að „hún er svöng“) Hvernig má það vera að þær hafi sama inntakið?

Davidson nálgaðist spurninguna með því að tengja hana við aðra spurningu: Hvernig geta tvær manneskjur haft skoðanir um sama hlutinn? Hann bregður upp mynd af þríhyrningssamræmingu: Skoðanir manns um mann sjálfan, skoðanir manns um annað fólk og skoðanir manns um heiminn verða til samtímis.

Margir heimspekingar í sögunni höfðu sýnt tilhneigingu til þess að smætta tvær af þessum tegundum skoðana og þekkingar í þá þriðju: Descartes og Hume héldu að eina þekkingin sem maður hefði í upphafi væri sjálfsþekking. Sumir af rökfræðilegu raunhyggjumönnunum (og sumir segðu einnig Wittgenstein og Wilfrid Sellars) héldu að við hefðum í upphafi einungis skoðanir á hinum ytri heimi. Að mati Davidsons er ómögulegt að maður hafi einungis eina af þessum þremur tegundum skoðana; allir sem hafa skoðanir af einu tagi hljóta að hafa einnig skoðanir af hinu taginu.

Túlkun frá rótum breyta

Túlkun frá rótum er kenning sem Davidson telur að skipti höfuðmáli fyrir skilning á eðli tungumáls, hugar og þekkingu. Hún er fólgin í hugsunartilraun þar sem maður ímyndar sér að maður sé í samfélagi þar er talað tungumál sem maður skilur alls ekki. Aukinheldur eru engar orðabækur til enda tungumálið áður óþekkt. Hvernig gæti maður lært þetta tungumál? Ein hugmyndin er sú að maður hafi kenningu sem leyfir manni að mynda setningar á forminu ‚s þýðir að p‘ fyrir allar setningar viðfangsmálsins (þ.e. tungumál samfélagsins), þar sem s er nafn setningar í viðfangsmálinu og p er setningin eða þýðing hennar í umsagnarmálinu, þ.e. því tungumáli sem kenningin er sett fram á. Davidson hafnar þó þessari tillögu á þeim forsendum að orðalagið ‚þýðir að‘ varði ekki einungis umtak orðanna sem fylgja heldur einnig inntak þeirra. Davidson skiptir því orðalaginu ‚þýðir að‘ út fyrir tengingu sem varðar einungis umtak setningarinnar; úr því að umtak setningarinnar er ekkert annað en sanngildi hennar verður tengingin sanngildistenging. Davidson velur tvígildistenginguna — ef og aðeins ef — fyrir kenningu sína um merkingu. Valið er augljóst af því að það sem þarf er jafngildi merkingar setninganna s og p. En nú er vandi á ferð: ‚s ef og aðeins ef p‘ er ekki málfræðilega rétt setning af því að tengingin verður að tengja tvær yrðingar en s er nafn yrðingar (setningar) en ekki yrðingin sjálf. Til þess að gera s að yrðingu verður að finna því umsögn. Hvaða umsögn fullnægir s ef og aðeins ef setningin sem s nefnir eða þýðing hennar er tilfellið? Með öðrum orðum hvaða umsögn fullnægir „bananar eru gulir“ ef og aðeins ef bananar eru gulir? Svarið er sannleiksumsögnin (þ.e. ‚er satt‘ eða ‚er sönn‘). Davidson ályktar því að kenning um merkingu verður að vera þannig að hún geti myndað setningu á fominu ‚s er sönn ef og aðeins ef p‘ fyrir sérhverja setningu í viðfangsmálinu. Sannleikskenning tungumáls getur því gegnt starfi kenningar um merkingu fyrir þetta sama tungumál.

Þessi niðurstaða gerir Davidson kleift að byggja á verkum Alfreds Tarski þegar hann setur fram kenningu um merkingu fyrir náttúruleg tungumál. Tarski sýndi hvernig unnt væri að setja fram kenningu um merkingu fyrir tilbúin tungumál. Davidson álítur því þrjár spurningar skipta höfuðmáli fyrir túlkun frá rótum. Í fyrsta lagi, er hægt að setja fram sannleikskenningu fyrir náttúruleg tungumál? Í öðru lagi, að gefnum þeim vitnisburði sem túlkendur frá rótum geta búist við að hafa, geta þeir þá sett fram og sannreynt kenningu um sannleika fyrir tungumálið sem þeir vilja túlka? Í þriðja lagi, mun kenning um sannleika nægja til þess að gera túlkandanum kleift að skilja tungumálið? Davidson hefur sýnt með því að byggja á verkum Tarskis að fyrstu spurningunni er hægt að svara játandi.

Að hvaða vitnisburði má gera ráð fyrir að túlkandinn hafi aðgang? Davidson bendir á að merking og skoðanir séu óaðskiljanlegar. Maður telur að setning sé sönn að gefnum skoðunum hans og því hvernig hann skilur setninguna. Ef túlkandinn vissi að maðurinn tryði því sem setning segir þegar viðkomandi heldur að hún sé sönn, þá væri hægt að draga ályktun um merkingu setningarinnar. Og öfugt, ef túlkandinn vissi að hvernig einhver skildi setningu þegar hann héldi að hún væri sönn, þá væri hægt að draga ályktun um skoðun viðkomandi. Davidson leyfir því túlkandanum ekki að hafa aðgang að skoðununum sem vitnsiburði enda leiddi það til hringavitleysu. Í staðinn leyfir Davidson að túlkandinn geti dregið skynsamlegar ályktanir um hvenær mælandinn telur að setning sé sönn án þess að túlkandinn viti neitt um tilteknar skoðanir eða merkingu. Þannig getur túlkandinn sett fram tilgátu sem tengir mælandann og setninguna til tiltekna stöðu mála á tilteknum tímapunkti. Dæmið sem Davidson gefur er af þýskumælandi manni sem segir „Es regnet“ þegar það rignir.

Davidson heldur því fram að enda þótt mælandinn geti haft rangt fyrir sér um stöðu mála í sumum tilvikum (til dæmis gæti þýskumælandi maður sagt „Es regnet“ jafnvel þótt það rigni ekki), þá grafi það ekki undan kenningunni. Það er vegna þess að skoðanir mælandans verða að vera að mestu leyti réttar og mótsagnarlausar (en ekki allar réttar). Ef þær væru það ekki bærum við ekki einu sinni kennsl á mælandann sem mælanda. Þetta er velvildarlögmál Davidsons í verki og það er það sem leyfir túlkandanum að treysta á að vitnisburðurinn sem hann safnar muni gera honum kleift að sannreyna sannleikskenninguna fyrir tungumálið.

Við fyrstu sýn gæti virst sem sannleikskenning nægi ekki til þess að túlka tungumál frá rótum. Því ef sannkjör eru allt sem máli skiptir, hvernig væri þá þá hægt að sýna fram á að óreglulegar setningar eins og ‚„Schnee ist weiss“ er sönn ef og aðeins ef snjór er hvítur og gras er grænt‘ væru ósannar? (Vandinn er hér sá að það er satt að gras er grænt og því myndi allur vitnisburður túlkandans samrýmast því að setningin væri sönn en samt sem áður hefur sú staðreynd að gras er grænt ekkert með það að gera að snjór er hvítur og kemur merkingu þýsku setningarinnar ekki við.) Davidson færir rök fyrir því að þótt að tungumál séu fólgin í samseningu sé merking einu að síður heildstæð: setningar byggja á merkingu orðanna í setningunni en merking orðanna í setningunni veltur samt líka á merkingu setningarinnar sem heildar. Og þetta á að tryggja að þýðingarbrigðin verði ekki svo mikil að árangursrík samskipti geti átt sér stað.

Túlkun frá rótum varðar því nauðsynleg og nægjanleg skilyrði samskipta. Skilyrðin eru: að til þess að bera kennsl á mælanda sem mælanda verði að gera ráð fyrir að skoðanir hans séu að mestu leyti réttar og mótsagnarlausar; þýðingarbrigði grafa ekki undan samskiptum af því að merkign er heildstæð.

Tilvitnanir breyta

  • „We are interested in the concept of truth only because there are actual objects and states of the world to which to apply it: utterances, states of belief, inscriptions. If we did not understand what it was for such enteties to be true, we would not be able to characterize the contents of these states, objects, and events. So in addition to the formal theory of truth, we must indicate how truth is to be predicated of these empirical phenomena.“
  • „It is easy to underestimate the condition a creature must satisfy in order to think, speak, and understand others. Interpersonal interaction is a central requirement for the existence of conceptualization, and this explains why developed thought depends on language.“
  • „Relativism about truth is perhaps always a symptom of infection by the epistemelogical virus.“
  • „[...] terminological infelicities have a way of breeding conceptual confusion.“
  • „For me philosophizing is trying to keep an open mind.“
  • „I have said little about knowledge of the contents of our own minds. Like all knowledge, it cannot exist in isolation from its social beginnings; the concept of oneself as an independent entity depends on the realization of the existence of others, a realization that comes into its own with communication.“
  • „Að undrast suma hluti er nauðsynlegt og nægjanlegt skilyrði hugsunar almennt.“

Helstu ritverk breyta

  • Davidson, Donald og Harman, Gilbert (ritstj.). Semantics of Natural Languages, 2. útg. (Springer, 1973).
  • ásamt Suppes, Patrick, Decision-Making: An Experimental Approach (Chicago, 1977).
  • Plato's ‘Philebus’. (New York, 1990).
  • Essays on Actions and Events, 2. útg. (Oxford. 2001).
  • Inquiries into Truth and Interpretation, 2. útg. (Oxford, 2001).
  • Subjective, Intersubjective, Objective. (Oxford, 2001).
  • Problems of Rationality. (Oxford, 2004).
  • Truth, Language, and History. (Oxford, 2005).
  • Truth and Predication. (Harvard, 2005).

Neðanmálsgreinar breyta

  1. Malpas, 2005, §2.
  2. Davidson, 1963: 685.
  3. Malpas, 2005, §2.

Heimildir og frekari fróðleikur breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Donald Davidson (philosopher)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. maí 2006.
  • Davidson, Donald, „Actions, Reasons, and Causes“, Journal of Philosophy 60 (1963).
  • Joseph, Marc, Donald Davidson. (McGill-Queen's University Press, 2004).
  • LePore, Ernest (ritstj.). Truth and Interpretation: Perspectives on the Philosophy of Donald Davidson. (Oxford, 1986).
  • LePore, Ernest og Kirk Ludwig. Donald Davidson: Meaning, Truth, Language and Reality. (Oxford, 2005).
  • Ludwig, Kirk (ritstj.). Donald Davidson. (Cambridge, 2003).
  • Malpas, Jeff E. Donald Davidson and the Mirror of Meaning - Holism, Truth, Interpretation. (Cambridge, 1992).
  • Ramberg, Bjorn. Donald Davidson's Philosophy of Language: An Introduction. (Oxford, 1989).
  • Preyer, Gerhard/Siebelt, Frank/Ulfig, Alexander (ritstj.). Language, Mind and Epistemology. On Donald Davidson´s philosophy. (Dordrecht, 1994).

Tengt efni breyta

Tenglar breyta

 
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni