Aukagetuhyggja
Aukagetuhyggja er kenning í hugspeki sem kveður á um að sum eða öll sálarlífsfyrirbæri séu aukageta eða aukaverkun efnislegra ferla. Aukagetuhyggja neitar því þar af leiðandi að hugur geti haft orsakaráhrif á líkamann eða nokkuð annað efnislegt: hugarferi orsakast af efnislegum undirstöðum en hafa ekki gagnkvæm áhrif á efnislegar undirstöður sínar.
Sumar útgáfur aukagetuhyggju halda því fram að öll hugarferli séu áhrifalaus en aðrar útgáfur kveða á um að einungis sum hugarferli séu áhrifalaus. Síðarnefndu útgáfurnar halda því oft fram að sumar tegundir sálarlífsfyrirbæra séu aukageta, svo sem huglægar upplifanir á borð við sársauka.