Skoðun er í heimspeki venjulega skilgreind sem sannfæring án sannreynslu eða staðfestingar, þ.e. þegar maður heldur að eitthvað sé satt án þess að vita það. Skoðun, í þessum skilningi, er þess vegna íbyggið viðhorf, þar sem hún er fólgin í því viðhorfi til tiltekinnar staðhæfingar að staðhæfingin sé sönn.

Skoðun í þekkingarfræði

breyta

Af því að skoðun er venjulega sögð vera það að halda að eitthvað sé satt án þess að vita það, er stundum litið svo á að þegar maður veit eitthvað, þá sé það ekki skoðun manns. Þetta kann hins vegar að vera villandi því þetta gefur til kynna að skoðun og þekking séu ósamrýmanlegar. Til að komast hjá þessu mætti segja að þegar maður veit eitthvað, þá sé það ekki einungis skoðun manns.

Í þekkingarfræði er skoðun yfirleitt talin liggja til grundvallar þekkingu og er þá þekking skilgreind sem sönn, rökstudd skoðun. Það er að segja, maður veit að P (þar sem P stendur fyrir hvaða staðhæfingu sem vera skal) ef:

  • maður hefur þá skoðun að P
  • það er satt að P
  • maður hefur fullnægjandi ástæðu til að halda að P

Skoðun er því ekki frábrugðin þekkingu hvað viðfang eða inntak varðar heldur er munurinn fólginn í réttlætingu og óhagganleika. Skoðun getur verið vel eða illa rökstudd og getur verið sönn eða ósönn en réttnefnd þekking getur ekki verið ósönn, heldur er hún sönn skoðun sem maður hefur fullnægjandi ástæður fyrir; á hinn bóginn er það sem maður veit einnig skoðun manns samkvæmt hinni hefðbundnu skilgreiningu þekkingar.

Til að varpa ljósi á þetta má hugsa sér tvo menn sem báðir telja að það sé rigning úti. Segja má að báðir hafi þá skoðun að það sé rigning úti. En annar þeirra telur að það sé rigning úti vegna þess að fyrr um daginn var þungskýjað og leit út fyrir að það myndi ef til vill rigna; hann hefur aftur á móti ekki athugað málið. Hinn telur að það sé rigning úti af því að hann sá það út um gluggann. Í þessu tilviki hafa báðir þá skoðun að það sé rigning úti (af því að báðir telja að það sé rigning úti) og það er í báðum tilvikum satt. En sá síðarnefndi hefur fengið staðfestingu á að það rigni, því hann sá það út um gluggann; sá fyrrnefndi hefur hins vegar ekki sannreynt að það sé rigning úti og veit því ekki að það sé rigning úti þótt hann haldi það og það sé satt. Það sem annar maðurinn heldur að sé satt, það veit hinn. Viðfang þekkingar hins síðarnefnda og skoðunar hins fyrrnefnda - nefnilega staðhæfingin að það sé rigning úti - er það sama; og inntakið - að staðhæfingin sé sönn - er einnig það sama. Munurinn er fólginn í réttlætingunni.

Skoðun í hversdagsmáli

breyta

Í hversdagsmáli er orðið „skoðun“ stundum skilið öðrum, víðari skilningi þar sem skoðun er ekki síður talin vera persónulegt mat eða viðhorf sem er hvorki satt eða ósatt.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Belief
  • „Hvað er að skilja skoðun?“. Vísindavefurinn.