Liz Truss

Stjórnmálakona og forsætisráðherra Bretlands haustið 2022

Mary Elizabeth Truss (f. 26. júlí 1975) er bresk stjórnmálakona úr Íhaldsflokknum og fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Hún var áður utanríkisráðherra Bretlands frá árinu 2021 til 2022 og jafnframt kvenna- og jafnréttismálaráðherra frá árinu 2019.[1] Hún hefur setið á neðri deild breska þingsins fyrir kjördæmið Suðvestur-Norfolk frá árinu 2010.[2]

Liz Truss
Liz Truss árið 2022.
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
6. september 2022 – 25. október 2022
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
Karl 3.
ForveriBoris Johnson
EftirmaðurRishi Sunak
Utanríkisráðherra Bretlands
Í embætti
15. september 2021 – 6. september 2022
ForsætisráðherraBoris Johnson
ForveriDominic Raab
EftirmaðurJames Cleverly
Persónulegar upplýsingar
Fædd26. júlí 1975 (1975-07-26) (48 ára)
Oxford, Englandi
ÞjóðerniBresk
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiHugh O'Leary (g. 2000)
Börn2
HáskóliOxford-háskóli

Truss var aðeins forsætisráðherra í 50 daga og er því skammlífasti forsætisráðherra í sögu Bretlands.

Æviágrip breyta

Liz Truss er fædd í Oxford og hefur sagt um foreldra sína að þau hafi hallast til vinstri í stjórnmálum.[3] Faðir hennar var prófessor í fræðilegri stærðfræði við Háskólann í Leeds.[1] Móðir hennar var hjúkrunarfræðingur og tók þátt í baráttu fyrir afkjarnavopnun.[3] Þegar Truss var fjögurra ára gömul flutti fjölskylda hennar til Paisley í Skotlandi og síðar til Leeds.[3]

Truss nam heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði við Merton-skóla í Oxford-háskóla.[1][3] Á námsárum sínum var Truss virk í stúdentapólitík fyrir Frjálslynda demókrata og talaði meðal annars fyrir því að konungdæmið yrði lagt niður. Truss skipti um flokk og gekk í Íhaldsflokkinn áður en hún lauk námi.[1]

Að loknu námi vann Truss fyrir Shell og fyrir fjarskiptafyrirtækið Cable & Wireless. Hún gaf kost á sér í þingkosningum Bretlands árið 2001 í kjördæminu Hemsworth í Vestur-Jórvíkurskíri en náði ekki kjöri. Hún bauð sig aftur fram í þingkosningum ársins 2005, í þetta sinn í kjördæminu Calder Valley, einnig í Vestur-Jórvíkurskíri, en tapaði aftur. Í þingkosningum ársins 2010 náði hún loks kjöri í kjördæminu Suðvestur-Norfolk, sem var eitt af öruggum sætum Íhaldsflokksins. Hún fékk rúmlega 13.000 atkvæði.[1]

Truss hlaut sæti í ríkisstjórn Bretlands í fyrsta skipti í september árið 2012.[1] Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Bretlands að ESB 2016 studdi Truss áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu.[3] Eftir að Bretar kusu að ganga úr ESB hefur hún hins vegar lagt áherslu á jákvæð tækifæri sem fylgi útgöngunni.[1] Þegar Theresa May sagði af sér sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi Íhaldsflokksins árið 2019 var Truss meðal þeirra fyrstu sem studdu framboð Borisar Johnsons til flokksleiðtoga.[1] Þegar Boris Johnson tók við sem forsætisráðherra varð Truss utanríkisráðherra í stjórn hans þann 15. september 2019.[2]

Þegar Boris Johnson tilkynnti afsögn sína í júlí 2022 tilkynnti Truss að hún myndi gefa kost á sér í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins.[4][5] Truss hafði staðið þétt við bakið á Johnson í aðdraganda afsagnar hans, á meðan margir aðrir ráðherrar og þingmenn Íhaldsflokksins höfðu sagt af sér til að mótmæla hneykslismálum sem umvöfðu hann.[6]

Í ágúst 2022 var Truss ein tveggja frambjóðenda, ásamt fyrrum fjármálaráðherranum Rishi Sunak, sem eftir stóðu í kjörinu.[7]

Forsætisráðherratíð breyta

Kosningar milli Truss og Sunak fóru fram þann 5. september 2022. Truss hafði betur gegn Sunak og var kjörin nýr leiðtogi Íhaldsflokksins.[8] Hún tók við af Boris Johnson sem forsætisráðherra Bretlands þann 6. september 2022. Truss er þriðji kvenforsætisráðherra Bretlands á eftir Theresu May og Margaret Thatcher.[9]

Truss var síðust af fimmtán forsætisráðherrum á valdatíð Elísabetar 2. Bretadrottningar, sem lést aðeins tveimur dögum eftir að Truss tók við embætti.[10]

Þann 23. september 2022 tilkynnti Truss að stjórn hennar myndi gera umfangsmiklar skattalækkanir, meðal annars að hátekjuskattur yrði lækkaður úr 45 prósentum í 40 prósent og að hætt yrði við við áform fyrri stjórnar um að hækka skatta á fyrirtæki. Lán yrðu tekin til að fjármagna skattalækkanirnar án þess að skorið yrði niður í ríkisútgjöldum.[11] Markaðir brugðust illa við efnahagsáætlun Truss og gengi breska pundsins hrundi niður. Englandsbanki neyddist til að grípa til neyðaraðgerða og tilkynna stórfelld kaup á ríkisskuldabréfum til að halda uppi verði þeirra og koma þannig í veg fyrir fall breskra lífeyrissjóða sem fjárfestu í skuldabréfunum.[12] Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði við því að áætlun Truss kæmi til með að auka verðbólgu og ójöfnuð í Bretlandi.[13] Þann 3. október tilkynnti Truss að hætt yrði við áætlunina um afnám hátekjuskattsins, enda væru litlar vonir um að breytingin kæmist í gegnum breska þingið.[14]

Þann 14. október 2022 rak Truss fjármálaráðherrann Kwasi Kwarteng vegna ólgunnar í kjölfar fjármálafrumvarps hans.[15] Nýr fjármálaráðherra varð Jeremy Hunt, sem dró til baka nær allt sem eftir stóð af upprunalegu fjármálafrumvarpi Truss. Viðsnúningurinn veikti stöðu Truss verulega innan Íhaldsflokksins og vakti spurningar um framtíð hennar sem forsætisráðherra.[16]

Truss sagði af sér sem forsætisráðherra þann 20. október 2022, eftir aðeins 45 daga í embætti.[17] Rishi Sunak var í kjölfarið kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins og tók við Truss sem forsætisráðherra þann 25. október.[18]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 'Ambition greater than ability': Liz Truss's rise from teen Lib Dem to would-be PM“ (enska). The Guardian. 30. júlí 2022. Sótt 15. ágúst 2022.
  2. 2,0 2,1 „The Rt Hon Elizabeth Truss MP“ (enska). GOV.UK. Sótt 15. ágúst 2022.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 „Liz Truss: Fast-track career of foreign secretary“ (enska). BBC News. 25. júlí 2022. Sótt 15. ágúst 2022.
  4. Bjarki Sigurðsson (10. júlí 2022). „Liz Truss stað­festir fram­boð sitt“. Vísir. Sótt 7. ágúst 2022.
  5. Ævar Örn Jósepsson (11. júlí 2022). „Liz Truss ætlar í formannsslaginn“. RÚV. Sótt 7. ágúst 2022.
  6. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (5. september 2022). „Fetar í fót­­spor á­­trúnaðar­­goðsins Thatcher“. Vísir. Sótt 6. september 2022.
  7. „How Liz Truss went from also-ran to frontrunner in Tory leadership race“. Financial Times. Sótt 15. ágúst 2022.
  8. Benedikt Arnar Þorvaldsson (5. september 2022). „Liz Truss næsti for­­sætis­ráð­herra Bret­lands“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2022. Sótt 5. september 2022.
  9. Þorvarður Pálsson (6. september 2022). „Liz Truss hitti Elísa­betu og tók við stjórnar­taumunum í Bret­land“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2022. Sótt 6. september 2022.
  10. Oddur Ævar Gunnarsson (8. september 2022). „Elísa­bet Bret­lands­drottning er látin“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2022. Sótt 8. september 2022.
  11. Ingunn Lára Kristjánsdóttir (23. september 2022). „Liz Truss í vörn og pundið í frjálsu falli“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. október 2022. Sótt 5. október 2022.
  12. Ólafur Arnarson (1. október 2022). „Hættu­legur og van­hugsaður efna­hags­pakki“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. desember 2022. Sótt 5. október 2022.
  13. Pétur Magnússon (28. september 2022). „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gagnrýnir aðgerðir Breta“. RÚV. Sótt 5. október 2022.
  14. Sigurður Gunnarsson (3. október 2022). „Lætur undan og hættir við af­nám há­tekju­skatts“. Viðskiptablaðið. Sótt 5. október 2022.
  15. Atli Ísleifsson (14. október 2022). „Truss rekur fjár­mála­ráð­herrann úr em­bætti“. Vísir. Sótt 20. október 2022.
  16. Tryggvi Páll Tryggvason (17. október 2022). „Segir Truss hanga á blá­þræði eftir u-beygju morgunsins“. Vísir. Sótt 20. október 2022.
  17. Oddur Þórðarson; Pétur Magnússon (20. október 2022). „Liz Truss segir af sér sem forsætisráðherra“. RÚV. Sótt 20. okbóber 2022.
  18. Andri Yrkill Valsson (25. október 2022). „Sunak tekinn við og segist ætla að laga mistök Truss“. RÚV. Sótt 25. október 2022.


Fyrirrennari:
Boris Johnson
Forsætisráðherra Bretlands
(6. september 202225. október 2022)
Eftirmaður:
Rishi Sunak