Elísabet 2. Bretadrottning

drottning Bretlands frá 1952 til 2022

Elísabet 2. (fullt nafn: Elizabeth Alexandra Mary, 21. apríl 19268. september 2022) var drottning og þjóðhöfðingi Antígva og Barbúda, Ástralíu, Bahamaeyja, Belís, Kanada, Grenada, Jamaíku, Nýja Sjálands, Papúu Nýju Gíneu, Sankti Kristófer og Nevis, Sankti Lúsíu, Sankti Vinsent og Grenadíneyja, Salómonseyja, Túvalú, og Bretlands.

Skjaldarmerki Windsor-ætt Drottning Bretlands og
samveldisins
Windsor-ætt
Elísabet 2. Bretadrottning
Elísabet 2.
Ríkisár 6. febrúar 19528. september 2022
SkírnarnafnElizabeth Alexandra Mary
Fædd21. apríl 1926(1926-04-21)
 17 Bruton Street, Mayfair, London, Englandi, Bretlandi
Dáin8. september 2022 (96 ára)
 Balmoral-kastala, Skotlandi, Bretlandi
GröfMinningarkapella Georgs 6. konungs, Kapellu Heilags Georgs, Windsor-kastala
Konungsfjölskyldan
Faðir Georg 6. Bretlandskonungur
Móðir Elizabeth Bowes-Lyon
EiginmaðurFilippus prins, hertogi af Edinborg
BörnKarl 3., Bretakonungur
Anna, hin konunglega prinsessa
Andrés, hertogi af Jórvík
Játvarður jarl af Wessex

Þar að auki var hún höfuð samveldisins, æðsti yfirmaður ensku biskupakirkjunnar og breska heraflans og lávarður Manar. Þessum embættum gegndi hún síðan faðir hennar Georg 6. lést árið 1952 til dauðadags árið 2022. Hún var þjóðhöfðingi um 125 milljón manna og þaulsætnasti þjóðhöfðingi í sögu Bretlands.

Elísabet var eldri dóttir Alberts hertoga af York og konu hans, Elísabet Bowes-Lyon. Þegar hún fæddist var ekkert sem benti til þess að hún yrði framtíðarþjóðhöfðingi Bretlands. Ríkisarfinn var eldri bróðir föður hennar, Játvarður prins af Wales, og allir bjuggust við að hann gengi í hjónaband og eignaðist börn. Hann varð að vísu konungur 1936 en sagði af sér seinna sama ár og þá varð faðir Elísabetar konungur, þvert gegn vilja sínum, og tók sér nafnið Georg 6. Elísabet stóð þá næst til ríkiserfða þar sem hún átti engan bróður. Hún fékk þó ekki titilinn prinsessa af Wales.

Eiginmaður hennar var Filippus prins, hertogi af Edinborg, og gengu þau í hjónaband 1947. Þau eru bæði afkomendur Kristjáns 9. Danakonungs og Viktoríu Bretadrottningar. Saman eiga þau fjögur börn en þau eru í aldursröð: Karl 3. Bretakonungur, Anna prinsessa, Andrés hertogi af York og Játvarður jarl af Wessex.

Æviágrip

breyta

Elísabet fæddist árið 1926 og var hin eldri af tveimur dætrum Alberts hertoga af York og eiginkonu hans, Elísabetar Bowes-Lyon. Albert var yngri sonur Georgs 5. Bretlandskonungs og ekki var gert ráð fyrir því við fæðingu Elísabetar að hann eða niðjar hans myndu taka við bresku krúnunni. Þegar Georg konungur lést árið 1936 tók Játvarður, föðurbróðir Elísabetar, við krúnunni en ákvað sama ár að segja af sér til þess að geta kvænst Wallis Simpson, tvífráskilinni Bandaríkjakonu sem ríkisstjórninni þótti ekki efni í drottningu. Þetta leiddi til þess að faðir Elísabetar var krýndur konungur undir nafninu Georg 6. og Elísabet varð ríkisarfi að bresku krúnunni.[1]

Elísabet ólst upp í skugga seinni heimsstyrjaldarinnar og tók nokkurn þátt í starfsemi breska heimavarnarliðsins sem ung kona á stríðsárunum.[2] Elísabet flutti sitt fyrsta útvarpsávarp árið 1940, þegar hún var fjórtán ára. Í því ávarpaði hún bresk börn sem höfðu verið send í fóstur út í sveit vegna loftárása Þjóðverja og hvatti þau til að sýna styrk og hugrekki. Þegar Elísabet var tæplega sextán ára var hún gerð að ofursta í breska hernum og hlaut herþjálfun í samræmi við hefðbundna menntun breskra krúnuarfa.[3] Elísabet vann meðal annars í flutningadeild hjálparsveitanna, bæði sem bílstjóri og bifvélavirki.[4]

Elísabet kynntist grískættuðum frænda sínum, Filippusi, þegar hún var þrettán ára og þau felldu brátt hugi saman. Elísabet og Filippus trúlofuðust árið 1947 og giftust síðar sama ár.[1]

Valdatíð (1952–2022)

breyta
 
Krýningarmynd af Elísabetu og Filippusi árið 1953.
 
Elísabet, 1959.

Georg 6. lést árið 1952, á meðan Elísabet var í opinberri heimsókn í Keníu. Elísabet varð þannig þjóðhöfðingi samveldisins undir nafninu Elísabet 2. og var krýnd drottning í júní næsta ár.[5]

Elísabet var vinsæll þjóðhöfðingi allt frá valdatöku sinni og einbeitti sér lengi að því að endurheimta virðuleika konungsfjölskyldunnar eftir umdeilda afsögn frænda síns.[6] Þó fór að bera á gagnrýni á hana árið 1957 í Súesdeilunni, þegar Mountbatten lávarður, frændi bæði Filippusar og Elísabetar, lét hafa eftir sér að drottningin væri á móti stríðsrekstri Breta í Egyptalandi. Anthony Eden forsætisráðherra, sem hafði átt frumkvæði að stríðinu, neyddist í kjölfarið til að segja af sér formennsku í Íhaldsflokknum og Elísabet skipaði Harold Macmillan í embætti forsætisráðherra. Þegar Macmillan sagði síðan af sér sex árum síðar staðfesti Elísabet valið á aðalsmanninum Alec Douglas-Home sem eftirmanni hans, sem mörgum þótti ólýðræðislegt og leiddi til frekari gagnrýni á embætti Elísabetar.[3]

Elísabet hafði átt í góðu sambandi við fyrsta forsætisráðherra sinn, Winston Churchill, sem hrósaði henni fyrir sterkan persónuleika og hafði mynd af henni fyrir ofan rúm sitt á sveitasetri sínu síðustu árin. Samskipti hennar við Margaret Thatcher, forsætisráðherra frá 1979 til 1990, voru með stirðara móti og Thatcher mun hafa sagt um Elísabetu við flokksfélaga sína: „Hún er ekki ein af okkur.“[1]

Á níunda og tíunda áratugnum var mikið fjallað í slúðurblöðum og öðrum fjölmiðlum um kynlíf barna Elísabetar og myndugleiki krúnunnar beið nokkurn hnekki fyrir vikið. Í frægri ræðu sem Elísabet hélt árið 1992 kallaði hún árið „annus horribilis“ („hræðilegt ár“ á latínu) og vísaði þar í ýmsa fjölskylduharmleiki sem þá stóðu yfir, meðal annars fráskilnað tveggja barna hennar (Önnu og Andrésar) frá mökum sínum og uppljóstranir um framhjáhald elsta sonar hennar, Karls krónprins, á eiginkonu sinni, Díönu prinsessu.[7]

Til þess að reyna að breyta ímynd konungdæmisins byrjaði drottningin að borga skatta í kjölfar hneykslismálanna og lét opna Buckinghamhöll fyrir almenningi í tvo mánuði á ári.[7] Karl og Díana hlutu lögskilnað árið 1996 og Díana lést með sviplegum hætti í bílslysi í París næsta ár. Fráskilnaður og dauði Díönu, sem hafði notið mikilla vinsælda og hafði þótt anda ferskum andvara á ímynd konungfjölskyldunnar á meðan þau Karl voru hjón, olli straumhvörfum í drottningartíð Elísabetar. Í fyrstu leiddi dauði Díönu til harðrar gagnrýni á Elísabetu, sem þótti draga lappirnar með að sýna viðbrögð við andlátinu og vannýta tækifæri til að tengjast þjóðinni, sem var í sorg.[8] Elísabet sýndi sína mannlegu hlið er hún minntist Díönu í sjónvarpsávarpi og vann sér aftur inn mikla velvild sem hún hafði glatað á undanförnum árum.[7]

Rannsókn The Guardian á skjölum úr Þjóðskjalasafni Bretlands bendir til þess að á valdatíð sinni hafi Elísabet getað beitt svokölluðu „samþykki drottningarinnar“ (e. Queen's consent) til þess að hafa áhrif á lagasetningar áður en þær eru samþykktar af breska þinginu. Meðal annars hafi lögfræðingur drottningarinnar beitt ríkisstjórn Edwards Heath þrýstingi á áttunda áratuginum til þess að hún yrði undanskilin nýjum upplýsingalögum sem hefðu annars skyldað hana til þess að gera opinberar upplýsingar um eignarhluti og auðæfi sín.[9] Elísabet hafi þannig farið með dulda valdheimild í formi táknrænnar athafnar á ríkisárum sínum.[10]

Filippus prins, eiginmaður Elísabetar, lést í apríl árið 2021, en þau Elísabet höfðu þá verið gift í rúm 73 ár.[11]

Andlát

breyta
 
Kista Elísabetar var geymd í Westminster í fimm daga fyrir útförina, þar sem hundruðir þúsunda manns biðu í röðum til að votta drottningunni virðingu sína.

Elísabet lést þann 8. september 2022, þá 96 ára gömul.[12] Hún lést í Balmoral-kastala í Skotlandi, þar sem hún hafði verið undir eftirliti lækna vegna hrakandi heilsu.[13] Aðeins tveimur dögum fyrir andlát sitt hafði Elísabet veitt fimmtánda forsætisráðherranum á valdatíð sinni, Liz Truss, stjórnarmyndunarumboð. Vegna hrakandi heilsu hafði Elísabet hitt verðandi forsætisráðherrann í Balmoral-kastala en ekki í Buckingham-höll eins og venjan er.[14]

Elísabet var borin til grafar í Windsor-kastala þann 19. september í opinberri útför. Hundruð þúsunda manna vottuðu drottningunni virðingu sína fyrir útförina, þar á meðal fjöldi erlendra þjóðarleiðtoga. Öryggisgæsla við jarðarförina var því ein stærsta aðgerð í sögu bresku lögreglunnar.[15][16]

Tenglar

breyta
  • „„Já, en hvað getur hún alltaf verið að gera?". Lesbók Morgunblaðsins. 5. júní 1977. bls. 8-11; 16.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Kolbrún Bergþórsdóttir (8. september 2015). „Elísabet II slær met Viktoríu“. Dagblaðið Vísir. bls. 28-32.
  2. Cynthia Asquith (22. apríl 1944). „Elísabet prinsessa er orðin myndug“. Morgunblaðið. bls. 2.
  3. 3,0 3,1 Gunnar Hrafn Jónsson (20. febrúar 2016). „Elísabet níræð - konungsveldi á tímamótum“. RÚV. Sótt 21. september 2019.
  4. „Höfuð elstu veraldlegrar stofnunar Bretaveldis“. Tíminn, helgin. 23. júní 1990. bls. 11-13.
  5. „Krýnd Elisabet II Bretadrottning“. Eining. 1. október 1953. bls. 1-3.
  6. „Elísabet II Bretadrottning sextug: Með heiðri og sóma“. Morgunblaðið. 10. ágúst 1986. bls. 12-14.
  7. 7,0 7,1 7,2 „Drottningin skyldurækna“. SunnudagsMogginn. 3. júní 2012. bls. 32-35.
  8. Júlía Aradóttir; Oddur Þórðarson; Jóhann Alfreð Kristinsson (13. september 2022). „„Þau komu bara ekki vel fram við Díönu". RÚV. Sótt 25. september 2022.
  9. Valgerður Árnadóttir (8. febrúar 2021). „Hlutaðist til um lög til að halda auðæfunum leyndum“. RÚV. Sótt 24. mars 2021.
  10. Hólmfríður Gísladóttir (7. febrúar 2021). „Drottningin fékk lögum breytt til að sveipa auðæfi sín leyndarhjúp“. Vísir. Sótt 24. mars 2021.
  11. „Átti sér­stak­an stað í hjarta Breta“. mbl.is. 9. apríl 2021. Sótt 9. apríl 2021.
  12. Oddur Ævar Gunnarsson (8. september 2022). „Elísa­bet Bret­lands­drottning er látin“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2022. Sótt 8. september 2022.
  13. Heimir Már Pétursson (8. september 2022). „Elísabet II leiddi Breta í gegnum súrt og sætt í 70 ár“. Vísir. Sótt 8. september 2022.
  14. Þorvarður Pálsson (6. september 2022). „Liz Truss hitti Elísa­betu og tók við stjórnar­taumunum í Bret­land“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2022. Sótt 6. september 2022.
  15. Sunna Ósk Logadóttir (19. september 2022). „Stærsta verkefnið hafið – Sjóliðar draga vagn með kistu drottningar“. Kjarninn. Sótt 25. september 2022.
  16. Ævar Örn Jósepsson (19. september 2022). „Jarðarförin „umfangsmesta lögregluaðgerð sögunnar". RÚV. Sótt 25. september 2022.


Fyrirrennari:
Georg 6.
Bretadrottning
(6. febrúar 19528. september 2022)
Eftirmaður:
Karl 3.