Patrice Lumumba

Kongóskur stjórnmálamaður, fyrrverandi forsætisráðherra Lýðveldisins Kongó

Patrice Émery Lumumba (2. júlí 1925 – 17. janúar 1961) var kongóskur sjálfstæðisleiðtogi og fyrsti lýðræðislega kjörni forsætisráðherra Lýðveldisins Kongó (nú Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó). Lumumba var lykilmaður í að semja um sjálfstæði Kongó frá Belgíu og var stofnandi og leiðtogi Kongósku þjóðernishreyfingarinnar (fr. Mouvement national congolais; MNC).

Patrice Lumumba
Patrice Lumumba í Brussel árið 1960.
Forsætisráðherra Lýðveldisins Kongó
Í embætti
24. júní 1960 – 5. september 1960
ForsetiJoseph Kasa-Vubu
ForveriFyrstur í embætti
EftirmaðurJoseph Iléo
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. júlí 1925
Katakokombe, belgíska Kongó (nú Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó)
Látinn17. janúar 1961 (35 ára) Élisabethville (nú Lubumbashi), Katanga
DánarorsökMyrtur
StjórnmálaflokkurKongóska þjóðernishreyfingin (Mouvement national congolais)
MakiPauline Opanga Lumumba
TrúarbrögðKaþólskur
BörnMichel, François, Guy Patrice, Juliane, Patrice, Roland
StarfStjórnmálamaður

Stuttu eftir að Kongó hlaut sjálfstæði árið 1960 gerði herinn uppreisn sem markaði upphaf Kongódeilunnar. Lumumba biðlaði til Bandaríkjanna og Sameinuðu þjóðanna um hjálp við að kveða niður aðskilnaðarsinnana í Katanga en hafði ekki erindi sem erfiði. Því leitaði hann þess í stað til Sovétríkjanna. Þetta leiddi til ágreinings Lumumba við Joseph Kasa-Vubu forseta og starfsmannastjórann Joseph-Desiré Mobutu auk þess sem ákvörðunin styggði mjög Bandaríkin og Belgíu. Í kjölfarið var Lumumba handtekinn af ráðamönnum undir stjórn Mobutu, framseldur aðskilnaðarsinnunum í Katanga og tekinn af lífi. Lík hans var síðan bútað í sundur og líkamshlutarnir leystir up í sýru.[1] Eftir dauða hans fóru sjálfstæðissinnar í Afríku að líta á Lumumba sem píslarvott sem hefði látið lífið í viðleitni til að endurheimta sjálfstæði nýlendanna.

Bæði belgísk og bandarísk stjórnvöld liggja undir grun sem þátttakendur í samsærinu sem leiddi til dauða Lumumba. Viðhorf þeirra til Lumumba litaðist af kalda stríðinu og voru þau tortryggin í hans garð þar sem hann þótti hallur undir Sovétríkin. Lumumba sagðist þó ekki vera kommúnisti, heldur hafi hann neyðst til að leita á náðir Sovétríkjanna þar sem enginn annar vildi hjálpa honum að leysa Kongó úr viðjum nýlenduyfirráða.[2] Belgískir liðsforingjar fóru fyrir aftökusveitinni sem batt enda á líf Lumumba.[3][4][3] Bandaríska leyniþjónustan hafði auk þess lagt drög að áætlunum til að koma Lumumba fyrir kattarnef[5][6][7] og Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseti hafði sjálfur viljað hann feigan.[8]

Það eina sem varðveittist af jarðneskum leifum Lumumba var ein gulltönn sem belgískur lögreglumaður reif úr líkinu og fór með til Belgíu. Tönnin varðveittist í fórum fjölskyldu hans fram til ársins 2020, en þá úrskurðaði belgískur dómstóll að tönninni skyldi skilað til Kongó.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. Vera Illugadóttir (2018). „Forsætisráðherra myrtur og leystur upp í sýru“. RÚV.
  2. Sean Kelly, America's Tyrant: The CIA and Mobutu of Zaire, bls. 29.
  3. 3,0 3,1 The Assassination of Lumumba, Ludo De Witte, 2003.
  4. Hollington, Kris (2007). Wolves, Jackals and Foxes: The Assassins Who Changed History. True Crime. bls. 50–65. Sótt 11. desember 2010.
  5. 6) Plan to poison Congo leader Patrice Lumumba (p. 464), Family jewels CIA documents, on the National Security Archive's website
  6. „A killing in Congo“. US News. 24. júlí 2000. Sótt 18. júní 2006.
  7. Sidney Gottlieb "obituary" „Sidney Gottlieb“. Counterpunch.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2011. Sótt 21. október 2017.
  8. Kettle, Martin (10. ágúst 2000). „President 'ordered murder' of Congo leader“. The Guardian. London. Sótt 18. júní 2006.
  9. Atli Ísleifsson (11. september 2020). „Belgar munu loks skila tönninni úr Lumumba til Kongó“. Vísir. Sótt 11. september 2020.