Henry Morton Stanley
Sir Henry Morton Stanley (29. janúar 1841 – 10. maí 1904) var bandarískur blaðamaður og landkönnuður af velskum uppruna. Hann varð frægur fyrir leiðangra sína til Afríku, fund sinn með David Livingstone 1871 og ferð sína eftir Kongófljóti frá upptökum þess við Tanganjikavatn í Austur-Afríku til ósanna við Atlantshaf.
Stanley barðist með báðum aðilum í Þrælastríðinu og gerðist eftir það blaðamaður á New York Herald 1867. Eftir ferð og greinaskrif frá Mið-Austurlöndum, fékk hann það verkefni að finna David Livingstone sem enginn vissi þá hvað orðið hefði af. Stanley lagði upp frá Sansibar með gríðarlegan útbúnað þar sem ekkert var til sparað. Fundum þeirra bar saman í bænum Ujiji á bökkum Tanganjikavatns 10. nóvember 1871 þar sem hann sagðist hafa mælt hina frægu setningu „Doktor Livingstone, vænti ég?“ („Dr. Livingstone, I presume?“).
New York Herald og Daily Telegraph fjármögnuðu annan leiðangur Stanleys 1874, til að finna upptök Hvítu Nílar, sem Livingstone taldi vera fljótið Lualaba, en John Hanning Speke hafði talið vera Viktoríuvatn. Ferð Stanleys staðfesti að engin tenging var milli Tanganjikavatns og Nílar, og með því að sigla umhverfis Viktoríuvatn á gufuknúnum báti sínum Lady Alice komst hann að því að vatnið var gríðarstórt og að eina áin sem úr því rennur að ráði rann um Ripponfossa þaðan sem hún rennur í Albertsvatn. Stanley staðfesti þar með að hugmyndir Spekes um upptök Nílar væru réttar. Eftir þessa ferð hélt hann leiðangrinum áfram með því að reyna að sigla eftir Lualabafljóti. Hann kom að ósum Kongófljóts við Boma 12. ágúst 1877. Leiðangurinn hafði þá staðið í hartnær þúsund daga og nánast enginn eftir lifandi af þeim sem lagt höfðu upp með honum.