Albertsvatn

stöðuvatn í Austur-Afríku

Albertsvatn eða Albert Nyanza (eða Mobutu Sese Seko-vatn) er nyrst af Stóru vötnunum í Afríku og sjöunda stærsta vatn álfunnar. Það er staðsett nokkurn veginn á miðju meginlandinu, á landamærum Úganda og Lýðveldisins Kongó. Vatnið er 160 km langt, 30 km breitt og dýpst 51 metri. Yfirborð þess er 619 metra yfir sjávarmáli. Albertsvatn er hluti af vatnakerfi efri hluta Nílar. Meginaðrennsli vatnsins eru Viktoríuníl sem rennur þangað úr Viktoríuvatni, og Semlikiá sem rennur úr Játvarðsvatni inn í mýrarnar við suðurenda Albertsvatns. Úr Albertsvatni rennur Alberts-Níl sem heitir Fjalla-Níl eftir að hún rennur inn í Súdan.

Albertsvatn á samsettri gervihnattarmynd

Breski landkönnuðurinn Samuel White Baker varð fyrstur Evrópumanna til að finna vatnið og gaf hann því nafnið í heiðursskyni við Albert prins, eiginmann Viktoríu drottningar, en hann var þá nýlátinn. Síðar var vatnið opinberlega nefnt Mobutu Sese Seko-vatn í Saír og er ennþá nefnt því nafni í Austur-Kongó.

Hitinn er um 27-29°C og þar sem vatnið er fremur grunnt nær súrefni víða til botns. Vatnið er auðugt af dýralífi, bæði landdýrum og fiski.

  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.