Sumarólympíuleikarnir 1916

Sumarólympíuleikarnir 1916 áttu að vera í Berlín í Þýskalandi. Þeim var aflýst vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar sem braust út árið 1914. Þótt leikarnir hafi aldrei farið fram, teljast þeir hinir sjöttu í sögu Ólympíuleikja nútímans.

Aðdragandi og skipulag

breyta
 
Íþróttasýning á Deutsches Stadion árið 1923.

Sex borgir föluðust eftir að halda leikana. Auk Berlínar voru það: Búdapest, Amsterdam, Brussel, Cleveland og Alexandría í Egyptalandi. Pierre de Coubertin, guðfaðir Ólympíuleikanna, studdi eindregið að Berlín yrði fyrir valinu, þar sem hann vonaðist til þess að það mætti verða til að afstýra styrjöld í Evrópu.

Vinna við ólympíuleikvanginn, Deutsches Stadion, hófst árið 1912. Völlurinn var vígður 8. júní 1913 við hátíðlega athöfn.

Í tengslum við leikanna stóð til að halda sérstaka vetraríþróttaviku í Svartaskógi með skíða- og skautakeppni. Líta má á þær hugmyndir sem forvera fyrstu Vetrarólympíuleikanna sem haldnir voru árið 1924.