Nýja-Sjáland

eyríki í Suðvestur-Kyrrahafi
(Endurbeint frá New Zealand)

Nýja-Sjáland (enska: New Zealand, maóríska: Aotearoa) er land í Eyjaálfu í suðvesturhluta Kyrrahafsins. Meginhluti ríkisins eru tvær eyjar; Norðurey eða Te Ika-a-Māui, og Suðurey eða Te Waipounamu, auk fjölda minni eyja. Nýja Sjáland er í Tasmanhafi í Suður-Kyrrahafi um 1.500 km austan við Ástralíu og um 1.000 km sunnan við Nýju-Kaledóníu, Fídjieyjar og Tonga. Vegna þess hve afskekkt landið er var það eitt síðasta byggilega landsvæðið sem menn námu. Þar þróaðist því sérstætt lífríki. Landfræðilega er Nýja-Sjáland mjög fjölbreytt vegna samblands landriss og eldvirkni. Hæsta fjall Nýja Sjálands heitir Mount Cook og er í Suður-Ölpunum.

Nýja-Sjáland
New Zealand (enska)
Aotearoa (maóríska)
Fáni Nýja-Sjálands Skjaldarmerki Nýja-Sjálands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
God Defend New Zealand
God Save the King
Staðsetning Nýja-Sjálands
Höfuðborg Wellington
Opinbert tungumál enska, maóríska, nýsjálenskt táknmál
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Cindy Kiro
Forsætisráðherra Christopher Luxon
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
76. sæti
268.021 km²
1,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2017)
 • Þéttleiki byggðar
123. sæti
4.759.090
17,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2016
 • Samtals 173,2 millj. dala (67. sæti)
 • Á mann 36.950 dalir (35. sæti)
VÞL 0.913
Gjaldmiðill Nýsjálenskur dalur
Tímabelti UTC +12 (UTC +13 yfir sumarið)
Ekið er vinstri megin
Þjóðarlén .nz
Landsnúmer +64

Pólýnesar settust að á eyjunum á milli 1250 og 1300 e.Kr. og þróuðu þar sérstaka maóríska menningu. Hollenski landkönnuðurinn Abel Tasman sá eyjarnar fyrstur Evrópumanna árið 1642. Maórar gengu Breska heimsveldinu á hönd 1840 með Waitangi-friðarsamningnum. Árið eftir varð Nýja-Sjáland bresk nýlenda og hluti af Breska heimsveldinu. Árið 1907 varð Nýja-Sjáland sjálfstjórnarsvæði undir bresku krúnunni. Mikill meirihluti núverandi íbúa Nýja-Sjálands eru af evrópskum uppruna og enska er opinbert tungumál ásamt maórísku og nýsjálensku táknmáli. Tæplega 15% íbúa eru Maórar.

Nýja-Sjáland er þróað ríki og situr hátt á alþjóðlegum listum sem bera saman heilsu, menntun, efnahagsfrelsi og lífsgæði íbúa ólíkra landa. Frá 9. áratug 20. aldar hefur efnahagslíf Nýja-Sjálands smám saman verið að breytast úr miðstýrðu landbúnaðarhagkerfi í markaðshagkerfi sem byggist á þjónustu. Löggjafi Nýja-Sjálands er þing Nýja-Sjálands sem situr í einni deild, en framkvæmdavaldið er í höndum ríkisstjórnar Nýja-Sjálands. Forsætisráðherra Nýja-Sjálands er stjórnarleiðtogi. Þjóðhöfðingi landsins er Karl 3. Bretakonungur og landstjóri Nýja-Sjálands fulltrúi hans. Nýja-Sjáland skiptist í 11 héruð og 67 umdæmi. Konungsríkið Nýja-Sjáland nær auk þess yfir hjálenduna Tókelá, sjálfstjórnarlöndin Cooks-eyjar og Niue, og Rosshjálenduna sem er landakrafa Nýja-Sjálands á Suðurskautslandinu. Nýja-Sjáland er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Breska samveldinu, ANZUS-varnarsamstarfinu, Efnahags- og framfarastofnuninni, Samstarfi Kyrrahafseyja og Efnahagssamstarfi Asíu- og Kyrrahafsríkjanna.

 
Brot af korti frá 1657 þar sem heitið Nova Zeelandia kemur fyrir.

Hollenski landkönnuðurinn Abel Tasman kom fyrstur Evrópumanna auga á Nýja-Sjáland og nefndi það Staten Landt þar sem hann gerði ráð fyrir því að það tengdist samnefndu landi í Suður-Ameríku. Árið 1645 gáfu hollenskir kortagerðarmenn landinu nafnið Nova Zeelandia eftir hollenska héraðinu Sjálandi (Zeeland). Breski landkönnuðurinn James Cook breytti því síðar í ensku útgáfuna New Zealand.

Núverandi nafn landsins á maórísku er Aotearoa sem ef oftast þýtt sem „land hins langa hvíta skýs“. Það er ekki vitað hvort Maórar höfðu eitt heiti yfir báðar eyjarnar saman fyrir komu Evrópumanna. Aotearoa var þá aðeins heiti á Norðureyjunni. Maórar höfðu nokkur nöfn yfir hvora eyju um sig, þar á meðal Te Ika-a-Māui („fiskur Māuis“) fyrir Norðureyjuna og Te Waipounamu („vötn grænsteinsins“) eða Te Waka o Aoraki („eintrjáningur Aorakis“) fyrir Suðureyjuna.

Á fyrstu evrópsku kortunum voru eyjarnar kallaðar Norðurey, Miðey (nú Suðurey) og Suðurey (nú Stewart-ey) en um 1830 var farið að nota Norður- og Suðurey um tvær stærstu eyjarnar. Landfræðiráð Nýja-Sjálands uppgötvaði árið 2009 að heitin Norðurey og Suðurey höfðu aldrei verið formlega tekin upp. Árið 2013 var ákveðið að formleg heiti skyldu vera Norðurey eða Te Ika-a-Māui og Suðurey eða Te Waipounamu þar sem má nota ýmist enska eða maóríska heitið eða bæði.

Nýja-Sjáland var eitt síðasta stóra landið sem menn settust að í. Kolefnisgreining, ummerki um skógareyðingu og breytileiki mtDNA meðal Maóra benda til þess að Austur-Pólýnesar hafi fyrst sest að á eyjunum milli 1250 og 1300 og að það hafi verið lokaskrefið í langri röð leiðangra um Suður-Kyrrahaf. Á þeim mörgu öldum sem fylgdu þróuðu íbúarnir sérstaka menningu sem í dag er þekkt sem maórísk menning. Íbúarnir skiptust í ættbálka (iwi) og undirættbálka (hapū) sem stundum unnu saman, kepptu stundum sín á milli og áttu stundum í styrjöldum. Á einhverjum tímapunkti settist hópur Maóra að á Chatham-eyjum (sem þeir nefndu Rēkohu) þar sem þeir þróuðu sérstaka Morioramenningu. Moriorum var nær útrýmt þegar Maórar af Taranaki-ættbálknum lögðu Chatham-eyjar undir sig á 4. áratug 19. aldar. Síðasti Moriorinn sem vitað var um lést árið 1933.

Fyrstu Evrópumennirnir sem komu til Nýja-Sjálands svo vitað sé voru hollenski landkönnuðurinn Abel Tasman og áhöfn hans árið 1642. Til átaka kom milli þeirra og innfæddra og fjórir áhafnarmeðlimir og einn Maóri voru drepnir. Engir Evrópumenn komu til landsins eftir það fyrr en árið 1769 þegar James Cook kortlagði nær alla strandlengjuna. Í kjölfar Cooks komu fjöldi evrópskra og norðuramerískra hvalveiði-, selveiði- og kaupskipa til landsins. Þeir versluðu við innfædda og seldu þeim meðal annars mat, járnhluti og byssur. Kartaflan og byssan höfðu mikil áhrif á samfélag Maóra. Kartaflan gaf af sér stöðugri og meiri matarbirgðir en áður höfðu þekkst og gerði þannig lengri styrjaldir mögulegar. Byssustríðin milli ættbálka Maóra stóðu frá 1801 til 1840 og urðu til þess að milli 30 og 40.000 Maórar týndu lífinu. Ásamt sjúkdómum sem Evrópumenn báru með sér urðu þessi átök til þess að fjöldi Maóra varð aðeins 40% af því sem hann hafði verið fyrir komu Evrópumanna. Snemma á 19. öld hófu trúboðar starfsemi á eyjunum og sneru meirihluta Maóra smám saman til kristni.

 
Mynd frá 1863 sem sýnir fund evrópskra landnema og Maóra.

Árið 1788 var Arthur Phillip skipaður landstjóri yfir nýlendunni Nýja Suður-Wales sem samkvæmt skipunarbréfi hans náði líka yfir Nýja-Sjáland. Árið 1832 skipaði breska ríkisstjórnin James Busby ráðherra á eyjunum í kjölfar bænarskjals frá Maórum á Norðurey. Þegar franski ævintýramaðurinn Charles de Thierry tilkynnti árið 1835 að hann hygðist stofna ríki á Nýja-Sjálandi sendu Sameinaðir ættbálkar Nýja-Sjálands Vilhjálmi 4. Sjálfstæðisyfirlýsingu Nýja-Sjálands þar sem þeir báðu um vernd. Nýja-Sjálandsfélagið hóf um sama leyti að kaupa land af ættbálkahöfðingjunum til að stofna nýlendu. Þetta varð til þess að Breska nýlenduskrifstofan sendi William Hobson til að gera tilkall til eyjanna fyrir hönd Bretlands og semja við ættbálkahöfðingjana. Waitangi-samningurinn var fyrst undirritaður í Eyjaflóa 6. febrúar 1840. Þann 21. maí sama ár lýsti Hobson því yfir að eyjarnar væru breskt yfirráðasvæði þótt enn ættu margir eftir að undirrita samninginn. Eftir undirritun samningsins jókst landnám fólks frá Bretlandi.

Stjórn Nýja-Sjálands var aðskilin frá stjórn nýlendunnar Nýja Suður-Wales 1. júlí 1841. Nýlendan fékk heimastjórn árið 1852 og fyrsta þing Nýja-Sjálands kom saman árið 1854. Árið 1856 fékk nýlendan sjálfstjórn í öllum málum nema þeim sem vörðuðu Maóra (það fengu þeir hins vegar um miðjan 7. áratuginn). Áhyggjur af því að Suðurey klyfi sig frá nýlendunni leiddu til þess að forsætisráðherrann Alfred Domett flutti höfuðborgina frá Auckland til Wellington við Cook-sund. Átök milli landnema og Maóra um landrými leiddu til Nýsjálensku styrjaldanna á 7. og 8. áratug 19. aldar. Í þeim misstu Maórar stærstan hluta landa sinna.

Fyrsti skipulegi stjórnmálaflokkur Nýja-Sjálands, nýsjálenski frjálslyndi flokkurinn, komst til valda árið 1891. Ríkisstjórn Richard Seddon innleiddi mikilvægar umbætur í félags- og efnahagsmálum. Árið 1893 var Nýja-Sjáland með fyrstu löndum heims sem lögleiddi almennan kosningarétt kvenna og árið 1894 urðu samningar milli atvinnurekenda og verkafólks lögbundnir. Fyrsta almenna eftirlaunakerfið í löndum bresku krúnunnar var sett á stofn af ríkisstjórn Seddons árið 1898.

Að ósk nýsjálenska þingsins lýsti Játvarður 7. því yfir að Nýja-Sjáland væri sjálfstjórnarríki innan Breska heimsveldisins. Westminster-samþykktin var lögleidd 1947 og fól í sér að breska þingið gæti ekki sett Nýja-Sjálandi lög án samþykkis nýsjálenska þingsins.

Nýja-Sjáland tók þátt í bæði fyrri og síðari heimsstyrjöld. Kreppan mikla á 4. áratug 20. aldar hafði líka mikil áhrif og leiddi til fyrstu ríkisstjórnar nýsjálenska verkamannaflokksins 1935. Sú stjórn innleiddi velferðarkerfi og verndartolla. Eftir síðari heimsstyrjöld naut Nýja-Sjáland vaxandi velgengni efnahagslega. Margir Maórar hurfu frá hefðbundnum byggðum sínum og settust að í borgunum. Mótmælahreyfing Maóra varð til snemma á 8. áratug 20. aldar og krafðist aukinnar viðurkenningar maórískrar menningar, endurheimtar lands og að Waitangi-samningurinn væri virtur. Waitangi-dómstóllinn var stofnaður árið 1975 til að skera úr um deilumál vegna samningsins. Ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefur samið við marga ættbálka Maóra um bætur vegna þessara brota . Á sama tíma hóf stjórn verkamannaflokksins efnahagsumbætur sem meðal annars fólust í skattalækkunum og að draga úr umsvifum ríkisins.

Landfræði

breyta
 
Snævi þaktir Suður-Alparnir rísa yfir Suðurey, meðan Norðurlandsskagi Norðureyjar teygir sig í átt að heittempraða beltinu.

Nýja-Sjáland er nærri miðju vatnshvelsins og skiptist í tvær stórar eyjar og yfir 700 minni eyjar.[1] Aðaleyjarnar tvær (Norðurey, eða Te Ika-a-Māui, og Suðurey eða Te Waipounamu) liggja sitt hvorum megin við Cook-sund sem er 22 km á breidd þar sem það er grennst.[2] Fyrir utan Norðurey og Suðurey eru fimm stærstu byggðu eyjarnar Stewart-eyja (handan Foveaux-sunds), Chatham-eyja, Great Barrier-eyjaHauraki-flóa),[3] D'Urville-eyjaMarlborough-sundum)[4] og Waiheke-eyja (um 22 km frá miðju Auckland).[5]

Nýja-Sjáland er langt og mjótt. Landið er 1600 km frá norðri til suðurs og breiðast 400 km[6] með um 15.000 km langa strandlengju.[7] Flatarmál landsins er 268.000 km².[8] Landið ræður yfir mörgum eyjum sem liggja langt úti í hafi og hefur langa strandlengju sem þýðir að landhelgi þess er ein af þeim stærstu í heimi, yfir 15 sinnum stærri en fastalandið.[9]

Aoraki er hæsta fjall Nýja-Sjálands, 3724 metrar á hæð.
Suður-Alparnir liggja eftir Suðurey 500 metrar á lengd.

Norðurey er stærsta þurrlendi Nýja-Sjálands. Suður-Alparnir skipta henni eftir endilöngu.[10] Þar eru 18 tindar sem ná 3000 metra hæð. Hæsti tindurinn er Aoraki (Cook-fjall), 3724 metrar yfir sjávarmáli.[11] Fiordland einkennist af bröttum fjöllum og djúpum fjörðum sem urðu til vegna hreyfinga ísaldarjökulsins á þessu suðvesturhorni Suðureyjar.[12] Norðurey hefur minna af fjöllum en meiri eldvirkni.[13] Taupō-gosbeltið hefur myndað stóran hluta af hraunsléttu Norðureyjar. Þar er líka hæsta fjall Norðureyjar, Ruapehu-fjall (2797 metrar). Á hraunsléttunni er líka stærsta stöðuvatn landsins, Taupō-vatn,[1] ofan í gíg eins af virkustu ofureldfjöllum heims.[14] Eldgos og jarðskjálftar eru fremur algeng á Nýja-Sjálandi.

Fjölbreytt landslag Nýja-Sjálands stafar af því að landið er á mörkum Kyrrahafsflekans og Indó-Ástralíuflekans.[15] Nýja-Sjáland er hluti af Sjálandíu sem er örmeginland, um helmingi minna en Ástralía, sem sökk smám saman eftir að hafa losnað frá risameginlandinu Gondvana.[16][17] Fyrir um 25 milljónum ára urðu breytingar á landreki til þess að Kaikoura-fellingin hófst. Þetta sést best í Suður-Ölpunum sem mynduðust við samþjöppun jarðskorpunnar við Alpamisgengið. Annars staðar er sökkbelti á flekaskilunum, sem myndar Puysegur-djúpálinn í suðri, Hikurangi-djúpálinn austan við Norðurey og Kermadec-djúpálinn og Tonga-djúpálinn[18] enn norðar.[15]

Ásamt Ástralíu myndar Nýja-Sjáland heimshluta sem er nefndur Ástralasía.[19] Landið er líka suðvestasti hluti heimshluta sem nefnist Pólýnesía.[20] Eyjaálfa er heimsálfa sem nær yfir ástralska meginlandið, Nýja-Sjáland og mörg eyríki í Kyrrahafi sem ekki teljast með öðrum heimsálfum.[21]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Walrond, Carl (8. febrúar 2005). „Natural environment – Geography and geology“. Te Ara: The Encyclopedia of New Zealand.
  2. McLintock, Alexander, ritstjóri (apríl 2009) [1966]. „The Sea Floor“. An Encyclopaedia of New Zealand. Sótt 13. janúar 2011.
  3. „Hauraki Gulf islands“. Auckland City Council. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. desember 2010. Sótt 13. janúar 2011.
  4. Hindmarsh (2006). „Discovering D'Urville“. Heritage New Zealand. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. maí 2011. Sótt 13. janúar 2011.
  5. „Distance tables“. Auckland Coastguard. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. janúar 2011. Sótt 2. mars 2011.
  6. McKenzie, D. W. (1987). Heinemann New Zealand atlas. Heinemann Publishers. ISBN 0-7900-0187-X.
  7. „New Zealand“. The World Factbook. US Central Intelligence Agency. 25. febrúar 2021. Sótt 20. mars 2021.
  8. „Geography“. Statistics New Zealand. 1999. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. maí 2010. Sótt 21. desember 2009.
  9. Offshore Options: Managing Environmental Effects in New Zealand's Exclusive Economic Zone (PDF). Wellington: Ministry for the Environment. 2005. ISBN 0-478-25916-6. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. apríl 2019. Sótt 23. júní 2017.
  10. Coates, Glen (2002). The rise and fall of the Southern Alps. Canterbury University Press. bls. 15. ISBN 0-908812-93-0.
  11. Garden 2005, bls. 52.
  12. Grant, David (mars 2009). „Southland places – Fiordland's coast“. Te Ara: The Encyclopedia of New Zealand. Sótt 14. janúar 2011.
  13. „Central North Island volcanoes“. New Zealand Department of Conservation. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. desember 2010. Sótt 14. janúar 2011.
  14. „Taupō“. GNS Science. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. mars 2011. Sótt 2. apríl 2011.
  15. 15,0 15,1 Lewis, Keith; Nodder, Scott; Carter, Lionel (mars 2009). „Sea floor geology – Active plate boundaries“. Te Ara: The Encyclopedia of New Zealand. Sótt 4. febrúar 2011.
  16. Wallis, G. P.; Trewick, S. A. (2009). „New Zealand phylogeography: Evolution on a small continent“. Molecular Ecology. 18 (17): 3548–3580. doi:10.1111/j.1365-294X.2009.04294.x. PMID 19674312. S2CID 22049973.
  17. Mortimer, Nick; Campbell, Hamish (2014). Zealandia: Our Continent Revealed. Auckland. ISBN 978-0-14-357156-8. OCLC 887230882.
  18. Wright, Dawn; Bloomer, Sherman; MacLeod, Christopher; Taylor, Brian; Goodliffe, Andrew (2000). „Bathymetry of the Tonga Trench and Forearc: A Map Series“. Marine Geophysical Researches. 21 (5): 489–512. Bibcode:2000MarGR..21..489W. doi:10.1023/A:1026514914220. S2CID 6072675.
  19. Deverson, Tony; Kennedy, Graeme, ritstjórar (2005). „Australasia“. New Zealand Oxford Dictionary. Oxford University Press. doi:10.1093/acref/9780195584516.001.0001. ISBN 9780195584516.
  20. Hobbs, Joseph J. (2016). Fundamentals of World Regional Geography. Cengage Learning. bls. 367. ISBN 9781305854956.
  21. Hillstrom, Kevin; Collier Hillstrom, Laurie (2003). Australia, Oceania, and Antarctica: A Continental Overview of Environmental Issues. 3. árgangur. ABC-Clio. bls. 25. ISBN 9781576076941.

Tenglar

breyta

Greinar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.