Waitangi-samningurinn

Eitt af fáum frumeintökum Waitangi-samningsins sem enn eru til

Waitangi-samningurinn (maoríska: Tiriti o Waitangi) er samningur sem fulltrúar bresku krúnunnar gerðu við höfðingja maoría frá Norðureyju Nýja-Sjálands árið 1840. Með samningnum varð til landstjóri Nýja-Sjálands og maoríar urðu breskir þegnar. Um 530-540 höfðingjar maoría undirrituðu samninginn.

Töluverður merkingarmunur er á maorískri og enskri útgáfu samningsins sem hefur leitt til deilna um það hvað felist í honum nákvæmlega. Breska krúnan leit svo á að með samningnum hefði Bretland fengið fullveldi á eyjunum og landstjórinn rétt til yfirráða, en maoríar litu svo á að með samningnum hefðu Bretar fengið rétt til yfirstjórnar í skiptum fyrir vernd og að maoríar hefðu haldið rétti til sjálfsstjórnar.

Eftir gerð samningsins var hann að mestu leyti hunsaður af stofnunum krúnunnar á Nýja Sjálandi sem litu ekki svo á að hann veitti maoríum neinn sérstakan rétt. Eftir 1970 stóðu maoríar fyrir mótmælum gegn mismunun og landaráni bresku stjórnarinnar sem þeir litu á sem brot á samningnum. Árið 1975 var Waitangi-dómstóllinn settur upp sem rannsóknarnefnd til að rannsaka brot gegn samningnum. Ályktanir dómstólsins eru þó ekki lagalega bindandi.

Dagurinn þegar fyrsta undirritun samningsins fór fram, 6. febrúar, er haldinn hátíðlegur sem Waitangi-dagurinn á Nýja-Sjálandi.

Wiki letter w.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.