James Cook (27. október 172814. febrúar 1779) var breskur landkönnuður og kortagerðarmaður sem fór þrjár langar ferðir Kyrrahafsins á árunum 1768 til 1779 þegar íbúar Hawaii drápu hann í átökum vegna stolinna léttabáta. Cook varð fyrstur Evrópubúa til að kanna margar Kyrrahafseyja, eins og Páskaeyju. Ferðir hans juku mjög á þekkingu Evrópubúa á Kyrrahafinu og urðu hvatinn að stofnun breskrar fanganýlendu á Ástralíu á síðari hluta 18. aldar.

James Cook á málverki eftir Nathaniel Dance um 1775.

Hinn skoskættaði James Cook fæddist þann 27. október árið 1728 í þorpinu Marton nálægt Middlesborough á Englandi, annar átta systkina. Faðir hans og alnafni var landbúnaðarverkamaður á sveitabæ þar í grenndinni. Er Cook var átta ára gamall kostaði yfirmaður James eldri drenginn í fimm ára nám í hverfisskólanum.

Árið 1745, eftir nokkur ár sem aðstoðarmaður föður síns, fór hann í læri hjá matar- og vefnaðarvörukaupmanni í nálægum fiskibæ þar sem hann vann sem búðardrengur, en þar er talið að hafið hafi fyrst heillað hann. Eftir átján mánuði var honum orðið algerlega ljóst að búðarstarfið hentaði sér ekki, svo hann strauk til sjós og gerðist lærlingur hjá útgerðarmanninum John Walker í Whitby í þrjú ár. Þar fór hann í fyrstu sjóferðina, átján ára gamall, og hóf að leggja stund á siglingafræði, stærðfræði, stjörnufræði o.þ.h. námsgreinar sem áttu eftir að hjálpa honum að vinna sín mörgu og merku afrek síðar meir.

Er lærlingstímanum var lokið vann Cook á kolaverslunarskipum í Eystrasalti um nokkurt skeið, eða framt til ársins 1755 er hann gekk til liðs við konunglega sjóherinn. Þar þótti hann afar efnilegur og var brátt gerður að aðstoðarstýrimanni. Sérlega þótti hann góður í kortlagningu og var m.a. fenginn til að kortleggja sundið frá Quebec til sjávar í Sjö ára stríðinu (1756-1763).

Í því stríði þjónaði Cook á herskipunum Eagle og Pembroke og þegar friður komst loks á eyddi hann fjórum árum í að kortleggja strandlínu Nýfundnalands og Labrador.

Snemma kom í ljós að James hinn ungi hafði mikla leiðtogahæfileika að bera, auk þess sem hann var ákveðinn og metnaðarfullur, jafnvel dálítið skapstór. Þetta sést m.a. af orðum hans um að hann ætlaði „...ekki einungis að fara lengra en nokkur maður hefur áður farið, heldur eins langt og ég held að mögulegt sé fyrir manninn að fara.“

Fyrsti Kyrrahafsleiðangurinn

breyta

Árið 1768 fór Cook í fyrsta Kyrrahafsleiðangur sinn af þremur, en fyrir þessar ferðir er hann einna frægastur, enda afar afdrifaríkar. Leiðangurinn var farinn á vegum breska flotamálaráðuneytisins og Konunglega breska vísindafélagsins og opinber tilgangur hennar var að sigla til Tahiti og mæla hve langan tíma það tæki Venus að skyggja algerlega á sólu í væntanlegum sólmyrkva þar. Upphaflega átti land- og stjörnufræðingurinn Alexander Dalrymple að stjórna leiðangrinum, en flotamálastjórninni þótti reynsla hans í siglingum ekki næg og því varð Cook fyrir valinu.

Hann lagði af stað í ágúst á skipinu Endeavour (gamalt kolaskip frá Whitby) og fór suður um Hornhöfða og þaðan út á Kyrrahafið. Ferðalangarnir fengu heldur dræmar viðtökur frá eyjarskeggjum Tahítí í fyrstu, en stuttu síðar hafði viðhorf þeirra umturnast og þeir tóku Cook og mönnum hans fagnandi. Þeir luku öllum mælingum í júní 1769 og yfirgáfu þá eyna með túlkinn Túpía, félaga drottningarinnar Púríu, með sér.

Ferðinni var þó ekki nærri því lokið. Nú hófst annar hluti hennar, sem Cook fékk ekki að vita um fyrr en á Tahiti er hann opnaði leynilegt innsigli frá flotamálaráðuneytinu. Þar var hann beðinn um að athuga hvað hæft væri í sögusögnunum um hið mikla óþekkta landsvæði „Terra Australis“ sem er latína og þýðir bókstaflega „Land suðursins.“

Cook hafði ekki krónómeterúr í ferðinni, en treysti aðallega á dómgreind sína og siglingakunnáttu, auk nokkurra handbóka. Hann sló eign sína á nágrannaeyjar Tahítí, sem hann nefndi Félagseyjar, og hóf svo leitina umsvifalaust. Hann sigldi fyrstur Evrópubúa til Nýja-Sjálands. Hálft ár fór í að kortleggja strandlínu eyjarinnar til að fullvissa sig um að hún tilheyrði ekki Ástralíu, eða Nýja-Hollandi eins og landið var kallað allt fram á átjándu öld, og er sundið milli Nýja-Sjálands og Ástralíu nefnt Cooks sund eftir honum. Ekki gat hinn rúmlega fertugi sæfari þó farið mikið inn fyrir landsteinana vegna óvinveittra frumbyggja sem þar bjuggu.

Þegar Nýja-Sjáland hafði verið kortlagt í hörgul, var röðin komin að austurhluta Ástralíu, en hana kortlagði Cook einnig fyrstur Evrópubúa. Frumbyggjarnir vörnuðu honum einnig landgöngu þar, en í staðinn eignaði hann Bretlandi stóran hluta strandarinnar og skýrði hana Nýja-Suður-Wales. Einnig sigldi hann inn hinn fræga Botanyflóa. Því næst var förinni heitið til Nýju Guineu sem einnig var kortlögð til að ganga í skugga um að hún tiheyrði ekki meginlandi Ástralíu. Til þess þurfti að sigla gegnum hið torfæra Torressund. Á leið frá eyjunni lenti skipið í miklum hremmingum í Kóralrifinu mikla, en atvikið seinkaði leiðangrinum um tæpar sjö vikur.

Eftir allar þessar könnunarferðir og mælingar taldi James víst að hið umtalaða Terra Australis væri einfaldlega Nýja-Holland og lagði því af stað aftur til Englands. Heimleiðin lá gegnum Batavíu (nú Jakarta) þar sem stór hluti áhafnarinnar lést úr malaríu, suður fyrir Góðravonahöfða og þaðan upp til Bretlands þar sem áhöfnin steig á land í Plymoth þann tólfta júlí 1771. Þetta fullkomnaði hnattsiglingu Cooks, fyrstu hnattsiglingu Breta á aðeins einu skipi.

Eftir heimkomuna var James fagnað eins og hetju og hann gerður að sjóliðsforingja. Bandaríski grasafræðingurinn Joseph Banks, er hafði verið með honum í för, hlaut jafnvel enn meiri athygli, en hann varð síðar forseti Vísindafélagsins.

Annar Kyrrahafsleiðangurinn

breyta

Cook dvaldi ekki lengi í heimalandinu, heldur lagði hann af stað í næsta -leiðangur strax árið 1772. Þrátt fyrir að hann hefði siglt árangurslaust um nær allt Suður-Kyrrahaf, neitaði Konunglega breska vísindafélagið (og þá aðallega Dalrymple) enn að afskrifa tilvist hins dularfulla Terra Australis og setti Cook að fara enn sunnar og austar og halda leitinni áfram.

James sigldi af stað frá Plymoth þann 13. júlí, fimm dögum eftir fæðingu sonar síns, Georges, með 193 manna áhöfn á skipunum Adventure, sem Tobias Furneux stýrði, og Resolution, þar sem Cook var sjálfur skipstjóri. Skipin fóru suður fyrir Góðravonahöfða, inn í heimskautabeltið og svo út úr því aftur áður en komið var að landi á Nýja-Sjálandi í mars 1773.

Skipsklukkur voru nú í fyrsta sinn verið um borð, en þær gáfu nákvæman tíma og gerðu sjómönnunum kleift að átta sig á lengdarbaugunum.

Cook sigldi yfir Kyrrahafið þvert og endilangt í leit að Suðurlandinu mikla og fór sunnar en nokkur Evrópumaður á undan honum. Hann var þá kominn ansi nálægt Suðurskautslandinu, sem var ekki uppgötvað fyrr en á 19. öld, en neyddist til að snúa við vegna hafíss og vistaskorts.

Þrátt fyrir að hafa ekki náð til Antartíku kom enski skipstjórinn þó víða annars staðar við, s.s. á Páskaeyjum, Cooks-eyjum, Tonga, Marquesaeyjum og Nýja-Sjálandi auk þess sem hann heimsótti Tahiti tvisvar og tók þaðan með sér tvo túlka, Omai og Oddity (Túpía hafði dáið úr Malaríu). Evrópa var meðvituð um tilvist flestra þessara eyja, en með útreikningum sínum, kortum og frásögnum gaf Cook henni í fyrsta sinn nánari útlistun á þeim auk almenns yfirlits yfir Kyrrahafið.

Í síðustu leitarferðinni um Kyrrahafið kom Cook að Suður-Georgíu. Hann nefndi eyna Samlokuland eftir vini sínum John Sandwich lávarði, yfirmanni flotamálaráðuneytisins og upphafsmanni samlokunnar. Að lokum hélt hann til Suður-Atlanthafs og sannaði þar með endanlega að sögusagnirnar um Terra Australis væru eintóm bábilja.

Leiðangrinum lauk í júlí 1775, en vegalengdin jafngilti nær þremur hringjum umhverfis miðbaug. Aðeins fjórir menn fórust í allri ferðinni, sem má að stórum hluta þakka þeirri ákvörðun James Cook að hafa c-vítamínríkt fæði um borð í skipunum til að forðast skyrbjúg.

Er hann kom heim var Cook var hann orðinn þekktur maður, jafnt í siglingageiranum sem hjá almenningi. Hann fékk inngöngu í Konunglega vísindafélagið og hlaut þar verðlaun fyrir afrek sín. Honum var boðið að hætta í flotanum og verða yfirmaður Greenwich-spítalans. Þetta samþykkti James með semingi og aðeins með því skilyrði að hann mætti snúa aftur ef tækifæri gæfist. Sjórinn hefur þó eflaust enn heillað hinn 47 ára gamla landkönnuð því næsta ferð hans hófst minna en ári eftir að þeirri síðustu lauk.

Þriðji Kyrrahafsleiðangurinn

breyta

Þriðja og síðasta ferð Cooks (1776-1779) var farin undir því yfirskini að koma eynni Omai aftur í hendur Tahitibúa, en höfuðtilgangur hennar var að gera það sem svo mörgum hafði mistekist, fara norðvesturleiðina frá Kyrrahafinu til Atlantshafsins.

Cook fór aftur á skipinu Resolution en hafði nú með sér skipið Discovery. Enn og aftur sigldi hann suður fyrir Góðravonahöfða og inn á Kyrrahafið en nú var förinni heitið norður eftir örskamma dvöl í Nýja Sjálandi.

Ekki leið á löngu uns leiðangursmenn rákust á stóran eyjaklasa. Þessar eyjar höfðu verið uppgötvaðar af spænskum sjómanni um miðja 16. öld, en Spánverjum hafði verið afar umhugað um að halda tilvist þeirra leyndri. Það tókst vel, raunar svo vel að eyjurnar gleymdust allt þar til Cook fann þær aftur í febrúar 1778. Þessar eyjar nefndi hann Samlokueyjur (reyndar þýddar sem Sandvíkureyjar á íslensku). Þær eru þó betur þekktar undir sínu núverandi nafni, Hawaii-eyjar. Skipin fóru einn réttsælis hring í kringum klasann í rannsóknarskyni áður en áhöfnin gekk á land á stærstu eynni. Evrópumennirnir hittu einmitt á Makahiki, mikla uppskeruhátið eyjarskeggja til heiðurs guðinum Lono. Hringferð hans kringum Hawaii eyjar var í samræmi við hátíðarskrúðgönguna og skipið Resolution líktist ýmsum helgimunum tengdum hátíðarhöldunum. Eyjarskeggjar töldu Cook því vera Lono, en það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Eftir dvölina á Hawaii hélt James upp með vesturströnd Norður-Ameríku uns hann fann Beringssund, en sigla þurfti gegnum það til að ná til Atlantshafsins. Í sundinu varnaði hafís honum vegar og eftir þrjár tilraunir áttaði hann á sig að sigling yfir sundið væri ómöguleg. Hann rannsakaði strendurnar umhverfis sundið í nokkurn tíma en sneri svo aftur til Hawaii. Á bakaleiðinni rakst Cook á vestasta hluta Norður-Ameríku sem var áður ókunnur stærstum hluta Evrópu, en töluverður fjöldi Rússa hafði sest þar að. Á leiðinni hafði hann m.a. kortlagt vesturströnd Norður-Ameríku allt norður með Alaska, auk þeirra fjölmörgu eyja er var að finna á Kyrrahafinu. Með kynnunum við rússnesku landnemana, og sínum eigin rannsóknum, tókst James að brúa bilið milli spænskra og rússneskra rannsókna á Kyrrahafssvæðinu.

Það var ekki fyrr en í annarri heimsókn Cooks til Hawaii-eyja sem hann áttaði sig almennilega á stærð og mikilvægi eyjanna, þó það hafi einnig verið í þeirri ferð sem hann lét lífið.

Dauði

breyta

Eftir um mánaðarlanga dvöl ákvað Cook að snúa sér aftur að könnun norðurhluta Kyrrahafsins þar sem Makahiki hátíðin var á enda og eyjarskeggar höfðu ekki tekið honum eins vel og í fyrra skiptið. Vegna viðgerða á skipinu Resolution neyddist hann þó til að staldra aðeins við á ströndinni Kealakekua.

Aðfaranótt þrettánda febrúar 1779 stálu nokkrir innfæddra einum af bátum skipsins Discovery. Þetta mislíkaði Cook og félögum sem reyndu að taka til fanga kóng innfæddra. Nú skullu á átök sem neyddu hina evrópsku sjómenn til að hörfa aftur til skips. Cook flýði síðastur og hann var komin langleiðina er högg höfðingjans Kalanimanokahoowaha hæfði hann. Cook féll við og reis svo strax upp aftur, en þá var það of seint. Fjölmargar hnífsstungur eyjarskeggja skullu á honum og lét hann lífið skjótt.

Hinir áhafnarmeðlimirnir komust við illan leik í bátana. Maður að nafni Clerke tók við stjórninni, en dó í hafi eftir aðra árangurslausa tilraun til að finna norðvesturleiðina og á endanum voru það skipverjarnir Gore og King sem náðu höfn á Englandi í ágúst árið 1780.

Tenglar

breyta
  • „Hver var James Cook og hvað hvert sigldi hann?“. Vísindavefurinn.
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.