Hermann Jónasson
Hermann Jónasson (fæddur 25. desember 1896, látinn 22. janúar 1976) var leiðtogi Framsóknarflokksins stóran hluta 20. aldar og þar með einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum aldarinnar. Hann sat á Alþingi í yfir þrjátíu ár og gegndi embættum forsætis- dóms- og landbúnaðarráðherra í ýmsum ríkisstjórnum. Hann var þar að auki lögreglustjóri í Reykjavík 1929 - 1934. Auk þess má nefna að Hermann var glímukóngur Íslands árið 1921.
Hermann Jónasson | |||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Forsætisráðherra Íslands | |||||||||||||
Í embætti 28. júlí 1934 – 16. maí 1942 | |||||||||||||
Þjóðhöfðingi | Kristján 10. | ||||||||||||
Forveri | Ásgeir Ásgeirsson | ||||||||||||
Eftirmaður | Ólafur Thors | ||||||||||||
Í embætti 24. júlí 1956 – 23. desember 1958 | |||||||||||||
Forseti | Ásgeir Ásgeirsson | ||||||||||||
Forveri | Ólafur Thors | ||||||||||||
Eftirmaður | Emil Jónsson | ||||||||||||
Alþingismaður | |||||||||||||
| |||||||||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||||||||
Fæddur | 25. desember 1896 Syðri-Brekkum, Skagafirði, Íslandi | ||||||||||||
Látinn | 22. janúar 1976 (79 ára) Reykjavík, Íslandi | ||||||||||||
Stjórnmálaflokkur | Framsóknarflokkurinn | ||||||||||||
Maki | Vigdís Oddný Steingrímsdóttir | ||||||||||||
Börn | Herdís, Steingrímur, Pálína, Lúðvík | ||||||||||||
Foreldrar | Jónas Jónsson og Pálína Guðný Björnsdóttir | ||||||||||||
Háskóli | Háskóli Íslands | ||||||||||||
Starf | Lögfræðingur, stjórnmálamaður | ||||||||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Fjölskylda
breytaHermann var sonur Jónasar Jónssonar bónda og trésmiðs og Pálínu Björnsdóttur. Hann var kvæntur Vigdísi Oddnýju Steingrímsdóttur (fædd 4. október 1896, dáin 2. nóvember 1976). Þau áttu saman börnin Herdísi (1927), Steingrím (1928) (síðar forsætisráðherra) og Pálínu (1929).
Lúðvík Gizurarson, hæstaréttarlögmaður, hafði lengi haldið því fram að hann væri óskilgetinn sonur Hermanns og höfðaði barnsfaðernismál árið 2004. Niðurstaða DNA-rannsóknar kom árið 2007 um að 99,9% líkur væru á að Lúðvík væri sonur Hermanns.[1]
Æviágrip
breytaHermann fæddist til gamallar bóndafjölskyldu á Syðri-Brekkum í Blönduhlíð á Skagafirði árið 1896. Hann hóf nám í Gagnfræðiskólanum á Akureyri árið 1914, þegar hann var 17 ára, og útskrifaðist þaðan með gagnfræðapróf árið 1917. Á námsárum sínum í gagnfræðaskólanum tók Hermann mikinn þátt í íþróttalífinu og byrjaði að æfa glímu. Hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1917 til 1920 og æfði á þeim árum glímu í Glímufélaginu Ármanni.[2]
Árið 1921 felldi Hermann alla keppinauta sína á Íslandsglímumóti og var lýstur glímukóngur. Hermann keppti einnig á glímusýningu á Þingvöllum sem haldin var í tilefni heimsóknar Kristjáns 10. Danakonungs til Íslands sama ár. Í keppninni felldi Hermann alla andstæðinga sína en hlaut þó ekki konungsbikarinn í keppninni þar sem dómnefnd keppninnar taldi Guðmund Kr. Guðmundsson hafa sýnt fegurstu glímuna. Hermann fékk þó síðar silfurbikar frá Íþróttasambandi Íslands sem lýsti hann sigurvegara konungsmótsins.[2]
Hermann hætti þátttöku í kappglímum eftir konungsmótið, að eigin sögn til að geta einbeitt sér að námi og störfum sínum. Hermann tók lögfræðipróf 1924 og varð í kjölfarið fulltrúi við bæjarfógetaembættið í Reykjavík. Þremur árum síðar skipaði Jónas frá Hriflu, þá nýorðinn dómsmálaráðherra, Hermann í embætti lögreglustjóra Reykjavíkur. Þar sem lögreglustjóri átti á þessum tíma einnig að vera héraðsdómari í sakamálum og almennum lögreglumálum fór Hermann til Norðurlanda og Þýskalands árið 1928 til þess að kynna sér lögreglumál áður en hann tók við embættinu þann 1. janúar 1929.[2]
Stjórnmálaferill
breytaHermann var kjörinn í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir Framsóknarflokkinn árið 1930. Stjórnmálaskoðanir hans mótuðust nokkuð á þessum árum af Gúttóslagnum, sem átti sér stað á meðan hann var lögreglustjóri og bæjarfulltrúi í Reykjavík þann 9. nóvember 1932. Varnarsveitir sem bæði kommúnistar og þjóðernissinnar stofnuðu í kjölfar götuóeirðanna sannfærðu hann enn frekar um mikilvægi þess að hafa sterkan miðjuflokk í íslenskum stjórnmálum.[2]
Hermann var kosinn alþingismaður 1934 og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn fram til 1967. Hann var skipaður forsætisráðherra og jafnframt dóms- og kirkjumálaráðherra og landbúnaðarráðherra 28. júlí 1934, einnig atvinnu- og samgöngumálaráðherra frá 20. mars til 2. apríl 1938 og fór með kennslumál og utanríkismál frá 20. mars 1938 til 17. apríl 1939, lausn frá embætti 7. nóvember 1941, en gegndi störfum til 18. nóvember. Skipaður að nýju 18. nóv. 1941 forsætisráðherra og jafnframt dómsmála- og landbúnaðarráðherra, lausn 16. maí 1942. Skipaður 14. mars 1950 landbúnaðarráðherra, lausn 11. sept. 1953. Skipaður 24. júlí 1956 forsætisráðherra og jafnframt landbúnaðar- og dómsmálaráðherra, lausn 4. des. 1958, en gegndi störfum til 23. des. 1958.
Hermann var formaður Framsóknarflokksins 1944 – 1962.
Gyðingastefna Hermanns
breytaSem dómsmálaráðherra á fjórða áratugnum bar Hermann meginábyrgð á því að Íslendingar neituðu nánast alfarið að skjóta skjólshúsi yfir Gyðinga sem flúðu ofsóknir nasista á meginlandi Evrópu.[3] Í júlí árið 1938 gáfu íslensk stjórnvöld út yfirlýsingu um að þau myndu ekki veita þýskum og austurrískum Gyðingum landvistarleyfi og útilokuðu síðan jafnframt veitingar landvistarleyfa til tékkneskra Gyðinga í byrjun apríl.[4] Hermann lýsti því enn fremur yfir í maí 1938 að Ísland væri „harðlokað land“.[5]
Í nóvember 1938 sendi Sveinn Björnsson, sendiherra Íslendinga í Danmörku, Hermanni bréf þar sem hann spurði hvort stjórn Íslands hygðist víkja frá þessari stefnu í ljósi breyttra aðstæðna í kjölfar atburða kristalsnæturinnar í Þýskalandi. Hermann svaraði því að stjórn sín væri „principelt mótfallin“ því að veita þýskum Gyðingum dvalarleyfi á Íslandi.[6] Í desember sama ár reyndi Katrín Thoroddsen, forstöðumaður Friðarvinafélagsins, að fá leyfi stjórnvalda til að koma nokkrum Gyðingabörnum tímabundið í fóstur á Íslandi á meðan foreldrar þeirra flýðu frá Þýskalandi. Hermann dró það á langinn að svara beiðni Katrínar og þegar hann var inntur eftir svari gaf hann henni skýringalausa synjun.[7] Katrín birti í kjölfarið pistil undir fyrirsögninni „Mannúð bönnuð á Íslandi“ í Þjóðviljanum þar sem hún greindi frá samskiptum þeirra Hermanns í málinu.[8]
Stjórn Hermanns réttlætti synjanir á dvalarleyfum Gyðinga með því móti að kreppuástand ríkti á landinu og hlutfallslega margir útlendingar hefðu hlotið landvistarleyfi á undanförnum árum. Landið gæti því ekki tekið við fleira fólki. Þessar fullyrðingar samræmdust hins vegar ekki opinberum tölum dómsmálaráðuneytisins yfir útlendinga búsetta á Íslandi. Innflytjendur annarra þjóðernishópa, sér í lagi Norðmenn og Þjóðverjar, fengu áfram dvalarleyfi í óbreyttum mæli.[9] Flóttamaðurinn Hans Mann, danski erindrekinn C. A. C. Brun og breski erindrekinn Berkeley Gage höfðu allir eftir Hermanni að honum hefði verið umhugað um að vernda „hreint kyn“ Íslendinga og að stefna hans hafi litast af því.[10]
Tæplega þrjátíu Gyðingar fengu brottvísunartilkynningar frá yfirvöldum frá maí 1936 til maí 1939, á meðan Hermann var einráður um veitingu dvalarleyfa, og að minnsta kosti sextán var vísað úr landi.[11]
Hermann varðist gagnrýni fyrir Gyðingastefnu sína á Alþingi árið 1945 og hélt því ranglega fram að Ísland hefði tekið við fleiri flóttamönnum Gyðinga á stríðsárunum miðað við höfðatölu en nokkuð annað Evrópuríki. Í raun höfðu aðeins tveir Gyðingar fengið landvistarleyfi á Íslandi eftir að hafa beinlínis flúið kynþáttaofsóknir á meginlandinu, sem nam 0,002 prósentum af heildaríbúafjölda landsins.[12]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Lúðvík: Gleðst yfir að barnsfaðernismálinu fer að ljúka“. mbl.is. 28. ágúst 2007. Sótt 28. ágúst 2007.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 Halldór Kristjánsson (1. janúar 1978). „Hermann Jónasson“. Andvari. bls. 3-36.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 246.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 236.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 244.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 237.
- ↑ Anna Marsibil Clausen (10. febrúar 2022). „Frænka forsætisráðherra vildi bjarga börnum gyðinga“. RÚV. Sótt 18. janúar 2023.
- ↑ Katrín Thoroddsen (28. apríl 1939). „Mannúð bönnuð á Íslandi“. Þjóðviljinn. bls. 3.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 247-248.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 268.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 280.
- ↑ Erlendur landshornalýður?. bls. 265.
Heimildir
breyta- Æviágrip: Hermann Jónasson. Skoðað þann 17. maí 2006.
- Snorri G. Bergsson (2017). Erlendur landshornalýður? Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853–1940. Almenna bókafélagið. ISBN 9789935486288.
Fyrirrennari: Ásgeir Ásgeirsson |
|
Eftirmaður: Ólafur Thors | |||
Fyrirrennari: Ólafur Thors |
|
Eftirmaður: Emil Jónsson | |||
Fyrirrennari: Jónas Jónsson frá Hriflu |
|
Eftirmaður: Eysteinn Jónsson |