Nígería

land í Vestur-Afríku
(Endurbeint frá Federal Republic of Nigeria)

Nígería, opinbert heiti Sambandslýðveldið Nígería, er land í Vestur-Afríku með landamæri að Benín í vestri, Tjad í austri, Kamerún í suðaustri og Níger í norðri, og strönd að Gíneuflóa í suðri. Nígería er fjölmennasta land Afríku. Landið er sambandsríki sem skiptist í 36 fylki og eitt alríkissvæði sem er höfuðborgin Abútja. Yfir 500 þjóðarbrot búa í landinu. Þau helstu eru Hásar, Igbóar og Jórúbar. Um helmingur íbúa er kristinn og um helmingur múslimar.

Sambandslýðveldið Nígería
Federal Republic of Nigeria
Fáni Nígeríu Skjaldarmerki Nígeríu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unity and Strength, Peace and Progress
Þjóðsöngur:
Arise, O Compatriots
Staðsetning Nígeríu
Höfuðborg Abútja
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Sambandslýðveldi

Forseti Bola Tinubu
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 1. október, 1960 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
31. sæti
923.769 km²
1,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
7. sæti
206.630.269
218/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 1.275 millj. dala (23. sæti)
 • Á mann 5.066 dalir (129. sæti)
VÞL (2019) 0.539 (161. sæti)
Gjaldmiðill Naira
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .ng
Landsnúmer +234

Þar sem Nígería er nú voru áður mörg konungsríki sem tókust á um yfirráð yfir landi og fólki. Þrælahald var stundað og ríkin seldu þræla til Norður-Afríku og síðar til evrópskra kaupmanna við ströndina sem fluttu þá til Ameríku. Sum af þessum ríkjum efldust mjög vegna verslunarinnar við Evrópumenn en þegar þrælaverslunin lagðist af eftir Napóleonsstyrjaldirnar urðu pálmaafurðir, fílabein, timbur og vax helstu útflutningsvörur. Bretar stunduðu mikla verslun við Nígerfljót. Konunglega Nígerfélagið var stofnað til að bregðast við ásælni Þjóðverja á svæðinu. Aldamótin 1900 gengu eignir félagsins til bresku ríkisstjórnarinnar sem hóf þá að leggja landið undir sig. Landið var allt gert að bresku verndarsvæði árið 1914. Landið fékk sjálfstæði árið 1960 en fljótlega hófust átök milli helstu þjóðarbrota landsins og árið 1967 braust út borgarastyrjöld. Styrjöldinni lauk 1970 en þá tók við langt tímabil þar sem herforingjastjórnir ríktu yfir landinu nær óslitið til 1999.

Nígería er sjöunda fjölmennasta land heims og er kallað „risinn í Afríku“. Olíulindir við ósa Níger hafa fært landinu mikil auðæfi. Nígería er tólfti stærsti eldsneytisframleiðandi heims og aðili að Samtökum olíuframleiðsluríkja frá 1971. Olíuafurðir mynda um 40% af útflutningi landsins. Alþjóðabankinn skilgreinir Nígeríu sem nývaxtarland og býst við því að landið taki við af Suður-Afríku sem stærsta hagkerfi álfunnar. Nígería er í Afríkusambandinu og Breska samveldinu.

Heitið Nígería er dregið af nafni Nígerfljóts. Fyrst til að stinga upp á þessu heiti yfir landið var breski blaðamaðurinn Flora Shaw þann 8. janúar 1897. Hún giftist síðar breska landstjóranum yfir Verndarsvæðinu Suður-Nígeríu, Lugard lávarði. Nágrannalandið Níger dregur líka nafn sitt af fljótinu. Ekki er vitað hvaðan heiti fljótsins er komið. Upphaflega átti heitið aðeins við miðhluta þess og talið er að það komi upphaflega úr máli Túarega við Timbúktú, egerew n-igerewen, „fljót fljótanna“.[1]

Landfræði

breyta

Nígería er í vesturhluta Afríku við Gíneuflóa og er alls 923.768 ferkílómetrar að stærð.[2] Nígería á landamæri að Benín (773 km), Níger (1.497 km), Tjad (87 km) og Kamerún (þar á meðal aðskilnaðarhéraðinu Ambasóníu, 1.690 km). Strandlengja Nígeríu við Atlantshaf er að minnsta kosti 853 km að lengd.[3] Nígería er staðsett milli 4. og 14. breiddargráðu norður og 2. og 15. lengdargráðu austur. Hæsti tindur Nígeríu er Chappal Waddi, 2.419 metrar á hæð. Helstu vatnsföll Nígeríu eru Nígerfljót og Benúefljót sem renna saman og út í Nígerósa. Nígerósar eru einir stærstu árósar heims. Þeir eru þaktir fenjaviði.

Stærstu landfræðilegu svæði Nígeríu eru árdalir Nígerfljóts og Benúefljóts (sem sameinast og mynda Y).[4] Suðvestan við Nígerfljót er skörðótt hálendi. Suðaustur af Benúefljóti eru hæðir og fjöll sem mynda Mambilla-hálendið, hæstu hásléttu Nígeríu. Hásléttan nær yfir landamærin að Kamerún þar sem hún myndar hluta af Bamenda-hálendinu.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Nígería skiptist í 36 fylki og eitt alríkishérað. Fylkin skiptast síðan í 774 sveitarstjórnarumdæmi. Fjöldi fylkja hefur margfaldast frá því landið fékk sjálfstæði, en þá voru þau aðeins þrjú. Fjöldinn endurspeglar átakasögu landsins og erfiðleikana við að halda saman svo fjölmennu og fjölbreyttu ríki.

Í Nígeríu eru sex borgir með meira en milljón íbúa: Lagos, Kano, Ibadan, Kaduna, Port Harcourt og Benínborg. Lagos er stærsta borg Afríku sunnan Sahara með átta milljón íbúa.

 


Efnahagslíf

breyta
 
Hlutfallsleg skipting útflutningsafurða Nígeríu árið 2019.
 
Plæging í Kwara-fylki.

Nígería býr við blandað hagkerfi sem er það stærsta í Afríku og í 31. sæti á heimsvísu að nafnvirði og með kaupmáttarjöfnuði. Landið er lágmiðtekjuland[5] sem býr yfir miklum náttúruauðlindum, þróuðu fjármálakerfi, lagaumhverfi, samskipta- og flutningskerfum og kauphöll. Áralöng herforingjastjórn, spilling og óstjórn stóðu efnahagsþróun í landinu lengi fyrir þrifum. Endurheimt lýðræðis og efnahagsumbætur í kjölfarið hafa aftur gert landinu kleift að nýta möguleika sína til fulls. Fyrir utan jarðefnaeldsneyti er önnur stærsta uppspretta útflutningstekna peningasendingar frá Nígeríubúum búsettum erlendis.[6]

Þegar olíuverð var í hæstu hæðum á 8. áratug 20. aldar safnaði Nígería miklum erlendum skuldum til að fjármagna innviðafjárfestingar. Þegar olíuverð féll á 9. áratugnum átti landið í erfiðleikum með að standa undir afborgunum og hætti að lokum að greiða af höfuðstól lánanna og stóð aðeins undir vaxtagreiðslum. Við þetta stækkuðu skuldirnar þar sem sektir og dráttarvextir söfnuðust upp. Eftir samningaviðræður við lánadrottna í Parísarklúbbnum í október 2006 keypti Nígería skuldirnar með um 60% afslætti og nýtti arð af olíusölu til að greiða þau 40% sem eftir voru, sem losaði um minnst 1,15 milljarða dala tekjur árlega fyrir aðgerðir til að draga úr fátækt. Í apríl 2006 varð Nígería fyrsta Afríkulandið sem greiddi upp skuldir sínar við Parísarklúbbinn, sem voru taldar vera 30 milljarðar dala.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. Online Etymological Dictionary. Etymonline.com. Sótt 28. júlí 2014.
  2. „Rank Order – Area“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. febrúar 2014. Sótt 29. maí 2011.
  3. „Africa :: Nigeria“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. 17. maí 2011. Sótt 29. maí 2011.
  4. Nigeria. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. nóvember 2003. Sótt 19. júlí 2007.
  5. „World Bank list of economies“. http: www.worldbank.org. janúar 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. maí 2011. Sótt 27. maí 2011.
  6. Gbola Subair- Abuja (8. september 2014). „Remittances from diaspora Nigerians as lubricant for the economy“. Nigerian Tribune. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. mars 2015. Sótt 17. apríl 2015.
  7. Polgreen, Lydia (22. apríl 2006). „Nigeria Pays Off Its Big Debt, Sign of an Economic Rebound“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 17. maí 2022.
   Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.