Bola Tinubu
Bola Ahmed Adekunle Tinubu (f. 29. mars 1952) er nígerískur endurskoðandi og stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Nígeríu. Hann var áður landstjóri Lagos-fylkis frá 1999 til 2007. Tinubu var kjörinn forseti í forsetakosningum Nígeríu í febrúar 2023 og tók við embætti þann 29. maí.
Bola Tinubu | |
---|---|
Forseti Nígeríu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 29. maí 2023 | |
Varaforseti | Kashim Shettima |
Forveri | Muhammadu Buhari |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. mars 1952 Lagos, Nígeríu |
Þjóðerni | Nígerískur |
Stjórnmálaflokkur | Allsherjarráð framfarasinna (2013–) |
Maki | Oluremi Tinubu |
Háskóli | Chicago State University |
Æviágrip
breytaBola Tinubu er frá suðvesturluta Nígeríu og hefur verið kallaður „pólitískur guðfaðir“ í þeim landshluta vegna þess hve oft hann hefur komið stuðningsfólki sínu fyrir í embættisstöðum. Tinubu var landstjóri Lagos-fylkis frá 1999 til 2007 og hefur mikið stært sig af uppbyggingarstarfi sem var unnið í borginni Lagos á þessum tíma. Tinubu er einn ríkasti stjórnmálamaður í Nígeríu.[1]
Tinubu bauð sig fram í forsetakosningum Nígeríu í febrúar árið 2023 fyrir Allsherjarráð framfarasinna, flokk fráfarandi forsetans Muhammadu Buhari. Slagorð Tinubu í kosningunum var Emi lo kan, eða „Það er komið að mér“.[2]
Helstu keppinautar Tinubu í kosningunum voru Atiku Abubakar, frambjóðandi Lýðræðisflokks alþýðunnar, og Peter Obi, frambjóðandi Verkamannaflokksins. Í heimahéraði Tinubu, Lagos, tapaði hann óvænt naumlega fyrir Peter Obi.[3]
Á landsvísu hlaut Tinubu um 37 prósent atkvæðanna en Abubakar 29 prósent og Obi 25 prósent.[1] Kosningakerfið í Nígeríu er með þeim hætti að til að ná kjöri til forseta verður frambjóðandi að hljóta flest atkvæði á landsvísu og meira en 25 prósent atkvæða í tveimur þriðju af fylkjum landsins. Samkvæmt opinberum talningum tókst Tinubu þetta og hann var því lýstur sigurvegari kosninganna þann 1. mars.[4]
Í sigurræðu sinni eftir kosningarnar hvatti Tinubu til friðar og bauð keppinautum sínum að mynda með sér bandalag í þágu Nígeríu. Abubakar og Obi vefengdu báðir niðurstöður kosninganna og sögðust ætla að reyna að fá þeim hnekkt.[4]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Helgi Steinar Gunnlaugsson (1. mars 2023). „Kosningum er lokið í Nígeríu“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2023. Sótt 2. mars 2023.
- ↑ „Nýr forseti Nígeríu kjörinn“. mbl.is. 1. mars 2023. Sótt 2. mars 2023.
- ↑ Bjarki Sigurðsson (1. mars 2023). „Tinubu verður forseti Nígeríu“. Vísir. Sótt 2. mars 2023.
- ↑ 4,0 4,1 Oddur Þórðarson (1. mars 2023). „Á brattann að sækja fyrir nýkjörinn forseta Nígeríu sem vill slíðra sverðin“. RÚV. Sótt 2. mars 2023.
Fyrirrennari: Muhammadu Buhari |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |