Sumarólympíuleikarnir 1980

Sumarólympíuleikarnir 1980 voru haldnir í Moskvu í Sovétríkjunum dagana 19. júlí til 3. ágúst 1980.

Maraþon fyrir framan Dómkirkju heilags Basilíusar í Moskvu 1980.

Bandaríkin ákváðu að hunsa Ólympíuleikana vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan sem hófst árið áður. Mörg önnur stór ríki eins og Japan, Vestur-Þýskaland, Kína, Filippseyjar og Kanada ákváðu í kjölfarið að hunsa leikana í mótmælaskyni. Sum ríki sem hunsuðu leikana eins og Bretland leyfðu íþróttamönnum sínum að taka þátt á eigin vegum. Íþróttamenn sextán landa gengu inn á leikvanginn undir ólympíufána í stað þjóðfána.

Aðdragandi og skipulag breyta

Auk Moskvu sóttist Los Angeles eftir því að halda leikana árið 1980. Ákvörðunin var tekin á þingi Ólympíuhreyfingarinnar í október 1974, þar sem Moskva fékk 39 atkvæði á móti 20 atkvæðum Los Angeles. Tveir fulltrúar sátu hjá.

Keppnisgreinar breyta

Keppt var í 203 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn breyta

Sovétríkin og Austur-Þýskaland skiptu á milli vel rúmlega helmingnum af gullverðlaunum á leikunum.

Eþíópíumaðurinn Miruts Yifter fékk gullverðlaun í bæði 5.000 og 10.000 metra hlaupi og lék þannig eftir afrek Finnans Lasse Virén frá fyrri tveimur leikum.

Einvígi bresku hlauparanna Steve Ovett og Sebastian Coe í 1.500 metra hlaupinu vakti mikla athygli. Orðhákurinn Ovett, sem var ósigraður um þriggja ára skeið, hafði lýst því yfir fyrir hlaupið að hann væri nær öruggur um sigur og myndi líklega slá heimsmetið glæsilega. Coe fór óvænt með sigur af hólmi og varð einn ástsælasti íþróttamaður Bretlands í kjölfarið.

Stangarstökkvarinn Władysław Kozakiewicz frá Póllandi vann gullverðlaun með nýju heimsmeti. Hann gerði gys að sovéskum áhorfendum á verðlaunapallinum og kom til tals að svipta hann gullinu vegna þessa.

Petre Roşca frá Rúmeníu, 57 ára gamall keppandi í hestaíþróttum, varð elsti verðlaunahafinn á leikunum með brons.

Kúbverjar unnu sex af átta gullverðlaunum sínum á leikunum í hnefaleikakeppninni. Þar á meðal var Teófilo Stevenson sem varð eini maðurinn í sögunni til að vinna á þremur Ólympíuleikum í röð.

Þátttaka Íslendinga á leikunum breyta

Skiptar skoðanir voru á því hvort Íslendingar ættu að taka þátt á Ólympíuleikunum í Moskvu eða fara að fordæmi Bandaríkjamanna og fleiri þjóða með því að sitja heima. Morgunblaðið og Vísir gagnrýndu þátttökuna harðlega, en íslenska Ólympíunefndin hélt sínu striki. Skoðanakannanir leiddu í ljós að mikill meirihluti landsmanna var sammála þeirri ákvörðun.

Níu íslenskir íþróttamenn kepptu í Moskvu, allt karlmenn. Þetta voru fjórir frjálsíþróttamenn, þrír keppendur í Ólympískum Lyftingum og tveir keppendur í júdó. Í fyrsta sinn frá leikunum í Melbourne 1956 sátu íslenskir sundmenn heima.

Íslenskir lyftingamenn stóðu framarlega á þessum árum og þóttu líklegir til afreka enda var það lyftingamaðurinn Birgir Þór Borgþórsson sem var fánaberi Íslenska hópsins.

Keppendur í Ólympískum Lyftingum voru auk Birgis þeir Guðmundur Helgi Helgason og Þorsteinn Leifsson.

Árangur frjálsíþróttamannanna var mjög góður. Jón Diðriksson og Oddur Sigurðsson náðu til að mynda báðir 19. sæti, Oddur í 800 metra hlaupi og Jón í 1.500 metrum. Hreinn Halldórsson og Óskar Jakobsson komust báðir í úrslit kúluvarpskeppninnar og höfnuðu í 10. og 11. sæti.

Bjarni Friðriksson náði góðum árangri í júdókeppninni. Hann tapaði naumlega í fjórðungsúrslitum á dómaraúrskurði og endaði að lokum í 7. sæti.

Íslenska handknattleikslandsliðinu bauðst að keppa á leikunum, sem ein af varaþjóðum mótsins. Tilboðið var afþakkað í virðingarskyni við þær þjóðir sem kusu að sniðganga leikana og vegna mikils kostnaðar.

Verðlaunaskipting eftir löndum breyta

 Nr.  Land  Gull Silfur Brons Alls
1   Sovétríkin 80 69 46 195
2   Austur-Þýskaland 47 37 42 126
3   Búlgaría 8 16 17 41
4   Kúba 8 7 5 20
5   Ítalía 8 3 4 15
6   Ungverjaland 7 10 15 32
7   Rúmenía 6 6 13 25
8   Frakkland 6 5 3 14
9   Bretland 5 7 9 21
10   Pólland 3 14 15 32
11   Svíþjóð 3 3 6 12
12   Finnland 3 1 4 8
13   Tékkóslóvakía 2 3 9 14
14   Júgóslavía 2 3 4 9
15   Ástralía 2 2 5 9
16   Danmörk 2 1 2 5
17   Brasilía 2 0 2 4
  Eþíópía 2 0 2 4
19   Sviss 2 0 0 2
20   Spánn 1 3 2 6
21   Austurríki 1 2 1 4
22   Grikkland 1 0 2 3
23   Belgía 1 0 0 1
  Indland 1 0 0 1
  Zimbabwe 1 0 0 1
26   Norður-Kórea 0 3 2 5
27   Mongólía 0 2 2 4
28   Tansanía 0 2 0 2
29   Mexíkó 0 1 3 4
30   Holland 0 1 2 3
31   Írland 0 1 1 2
32   Úganda 0 1 0 1
  Venesúela 0 1 0 1
34   Jamaíka 0 0 3 3
35   Guyana 0 0 1 1
  Líbanon 0 0 1 1
Alls 204 204 223 631