Sankti Pierre og Miquelon

Sankti Pierre og Miquelon (franska: Saint-Pierre-et-Miquelon) eru nokkrar litlar eyjar sem eru franskt yfirráðasvæði handan hafsins, skammt undan strönd Nýfundnalands. Eyjarnar eru það eina sem eftir er af nýlendunni Nýja Frakklandi. Franskir og baskneskir fiskimenn námu þar land snemma á 16. öld og notuðu sem miðstöð fyrir þorskveiðar í Norður-Atlantshafi, nokkru áður en Jacques Cartier kom þangað 1536.

Saint-Pierre et Miquelon
Fáni Sankti Pierre og Miquelon Skjaldarmerki Sankti Pierre og Miquelon
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
A mare labor (Atvinna, af hafi)
Staðsetning Sankti Pierre og Miquelon
Höfuðborg Saint-Pierre
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Lýðveldi

Þingformaður
héraðsstjóri
Stéphane Lenormand
Thierry Devimeux
franskt handanhafshérað
 - Franskt tilkall 1536 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
214. sæti
242 km²
0
Mannfjöldi
 - Samtals (2011)
 - Þéttleiki byggðar
233. sæti
6.080
25/km²
VLF (KMJ) áætl. 2004
 - Samtals 0,161131 millj. dala (*. sæti)
 - Á mann 26.073 dalir (*. sæti)
Gjaldmiðill evra (EUR)
Tímabelti UTC-3
Þjóðarlén .pm
Landsnúmer +508

Eyjarnar eru í mynni Fortune-flóa við suðurströnd Nýfundnalands rétt hjá Miklabanka þar sem eru auðug fiskimið. Aðalútflutningsvörur eyjanna eru fiskur, humar og fiskafurðir. Efnahagslífið hefur dregist saman vegna minnkandi fiskistofna og takmarkana á fiskveiðum í lögsögu Kanada frá 1992.

Íbúar voru 6.080 í manntali sem gert var árið 2011. Þar af bjuggu 5.456 á Saint-Pierre og 624 á Miquelon-Langlade. Nær allir tala frönsku sem er líkari evrópskri frönsku en kanadískri frönsku. Áður talaði fólk af baskneskum uppruna basknesku en notkun hennar lagðist af seint á 6. áratug 20. aldar.

Landslag á Sankti Pierre og Miquelon

HeitiBreyta

Franska heitið á Saint-Pierre er dregið af nafni heilags Péturs sem er verndardýrlingur fiskimanna.

Miquelon kemur fyrst fyrir sem Micquelle í leiðsögubók baskneska sjómannsins Martin de Hoyarçabal fyrir Nýfundnaland frá 1579. Því hefur verið haldið fram að þetta nafn sé basknesk útgáfa af nafninu „Mikael“ sem kemur oft fyrir sem Mikelon í Baskalandi. Miquelon kann því að vera frönsk aðlögun á baskneska nafninu.

Miquelon kann líka að vera dregið af spænska heitinu Miguelón sem er Mikael með stækkunarendingu, „stóri Mikael“. Nafn eyjunnar Langlade, sem tengist Miquelon um eiði, er dregið af franska heitinu l'île à l'Anglais, „eyja Englendingsins“.

SagaBreyta

Portúgalski landkönnuðurinn João Álvares Fagundes tók land á eyjunum 21. október 1520 og nefndi eyjaklasann við Saint-Pierre „ellefu þúsund jómfrúr“ þar sem dagurinn var messudagur heilagrar Úrsúlu og fylgismeyja hennar. Árið 1536 gerði Jacques Cartier tilkall til eyjanna fyrir hönd Frakkakonungs. Eyjarnar voru notaðar sem bækistöðvar veiðimanna frá Mi'kmaq-þjóðinni, auk Baska og Bretóna en föst búseta í eyjunum hófst fyrst undir lok 17. aldar. Árið 1670 voru fjórir íbúar taldir hafa þar fasta búsetu og 22 árið 1691.

Árið 1670, landstjóratíð Jean Talon, voru eyjarnar lagðar undir Nýja Frakkland eftir að franskur liðsforingi hafði farið þangað og fundið þar búðir franskra fiskimanna. Breski sjóherinn hóf fljótlega árásir á búðir og skip fiskimannanna. Snemma á 18. öld voru eyjarnar óbyggðar að nýju. Þær gengu til Breta í Utrecht-sáttmálanum sem batt enda á Spænska erfðastríðið árið 1713.

Með Parísarsáttmálanum 1763 eftir Sjö ára stríðið létu Frakkar Bretum eftir allar nýlendur sínar í Norður-Ameríku, en fengu aftur yfirráð yfir eyjunum Saint-Pierre og Miquelon. Frakkar héldu líka eftir fiskveiðiréttindum við Nýfundnaland (Franska ströndin).

Þar sem Frakkar studdu uppreisnarmenn í Bandaríska sjálfstæðisstríðinu gerðu Bretar árás á nýlenduna og lögðu hana í rúst árið 1778. Allir 2000 íbúar eyjanna voru sendir til Frakklands. Árið 1793 réðust Bretar aftur á nýlenduna, hröktu franska íbúa burt og reyndu að setja upp breska nýlendu. Breska nýlendan var lögð í rúst af frönskum her árið 1796. Með Amiens-sáttmálanum 1802 fengu Frakkar aftur yfirráð yfir eyjunum en Bretar hernámu þær þegar stríð braust aftur út ári síðar.

Frakkar fengu aftur yfirráð yfir eyjunum með Parísarsáttmálanum 1814 þótt Bretar legðu þær aftur undir sig tímabundið í Hundrað daga stríðinu. Eftir það tók Frakkland yfir stjórn eyjanna sem nú voru óbyggðar og nánast allar byggingar ónýtar eða í niðurníðslu. Nýir íbúar, mest Baskar, Bretónar og Normannar, settust að á eyjunum frá 1816. Við bættust innflytjendur frá Nýfundnalandi. Um miðja 19. öld tók byggðin að blómstra vegna aukinna fiskveiða.

Snemma á 2. áratug 20. aldar varð byggðin fyrir miklu áfalli vegna minnkandi tekna af fiskveiðum og margir íbúar fluttu til Nova Scotia og Quebec. Herskylda sem komið var á í upphafi Fyrri heimsstyrjaldar gerði út af við útgerðina. Um 400 karlmenn úr nýlendunni voru kallaðir í franska herinn í Fyrri heimsstyrjöld og um fjórðungur þeirra lét lífið. Vélskipaútgerðin dró síðan enn úr atvinnutækifærum fyrir fiskimenn.

Smygl hafði lengi verið ábatasamur atvinnuvegur á eyjunum og hlaut aukið vægi á Bannárunum á 3. áratugnum. Árið 1931 voru 1.815.271 bandarísk gallon (6.871.550 lítrar) af viskýi flutt inn til eyjanna frá Kanada. Mestu af því mun hafa verið smyglað til Bandaríkjanna. Þegar áfengisbanninu lauk 1933 olli það efnahagslegu hruni á eyjunum.

Í Síðari heimsstyrjöld lagði Charles de Gaulle eyjarnar undir Frjálsa Frakka þrátt fyrir andstöðu Kanada, Bretlands og Bandaríkjanna. Eyjarnar höfðu áður lýst yfir stuðningi við Vichy-stjórnina. Næsta dag samþykktu íbúar yfirtöku Frjálsra Frakka í atkvæðagreiðslu. Eftir stjórnarskrárkosninguna 1958 fengu íbúar að ráða hvort þeir vildu vera hluti Frakklands, heimastjórnarsvæði innan Franska samveldisins eða vera áfram handanhafssvæði. Þeir völdu síðastnefnda kostinn.


TenglarBreyta

 
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.