Króatía

land í Suðaustur-Evrópu
(Endurbeint frá Republika Hrvatska)

Króatía er ríki á Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu. Króatía á strönd að Adríahafi og landamæriSlóveníu og Ungverjalandi í norðri, Serbíu í austri og Svartfjallalandi á örstuttum kafla allra syðst. Króatía á einnig landamæri að Bosníu og Hersegóvínu en hún umlykur það land að mestu. Höfuðborg og stærsta borg Króatíu er Zagreb. Landið skiptist í 20 sýslur og Zagreb. Flestir íbúar eru rómversk-kaþólskir. Króatíska er opinbert tungumál landsins.

Lýðveldið Króatía
Republika Hrvatska
Fáni Króatíu Skjaldarmerki Króatíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Lijepa naša domovino
Staðsetning Króatíu
Höfuðborg Zagreb
Opinbert tungumál króatíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Zoran Milanović
Forsætisráðherra Andrej Plenković
Evrópusambandsaðild 1. júlí 2013
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
126. sæti
56.542 km²
1,09
Mannfjöldi
 • Samtals (2011)
 • Þéttleiki byggðar
128. sæti
4.284.889
79/km²
VLF (KMJ) áætl. 2014
 • Samtals 80,620 millj. dala (79. sæti)
 • Á mann 18.314 dalir (57. sæti)
VÞL (2012) 0.805 (47. sæti)
Gjaldmiðill Evra
Tímabelti UTC +1 (UTC +2 á sumrin)
Þjóðarlén .hr
Landsnúmer ++385

Í fornöld var landið hluti af Illyríu og síðan rómverska skattlandinu Dalmatíu. Króatar numu þetta land snemma á 7. öld en deilt er um það hvaðan þeir komu. Á miðöldum voru þar tvö hertogadæmi undir keisaranum í Konstantínópel, Pannónía og Dalmatía. Á 9. öld gerðust króatar kristnir og konungsríkið Króatía var stofnað um árið 925 en þetta ríki gekk í konungssamband við Ungverjaland árið 1102. Landið varð fyrir árásum frá Tyrkjaveldi í austri og Feneyska lýðveldinu í vestri. Á 16. öld varð það hluti af ríki Habsborgara og síðar Austurríki-Ungverjalandi. Eftir Fyrri heimsstyrjöld lýsti króatíska þingið yfir sjálfstæði og ákvað síðan að gerast hluti af Júgóslavíu. Þegar Þjóðverjar og Ítalir lögðu Júgóslavíu undir sig í Síðari heimsstyrjöld var leppríki nasista stofnað í Króatíu en hlutar Dalmatíustrandarinnar voru hernumdir af Ítölum. Eftir stríð varð Króatía eitt af fylkjum sósíalíska sambandsríkisins Júgóslavíu. Króatía lýsti yfir sjálfstæði frá Júgóslavíu 1991 eftir að borgarastyrjöldin í Júgóslavíu hófst. Sjálfstæðisstríð Króatíu stóð í fjögur ár og lauk með sigri króata árið 1995. Króatía gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu árið 2009 og Evrópusambandinu árið 2013.

Króatía er hátekjuland með háa lífsgæðavísitölu. Tveir þriðju vergrar landsframleiðslu liggja í þjónustugeiranum. Iðnframleiðsla er aðallega bundin við skipasmíðar, matvælaframleiðslu, lyfjaframleiðslu, upplýsingatækni, líftækni og timbur. Króatía er líka vinsælt ferðamannaland. Frá aldamótunum 2000 hefur Króatía fjárfest verulega í hraðbrautum og járnbrautum sem tengja landið við stofnbrautakerfi Evrópu. Sjö alþjóðaflugvellir eru í Króatíu, í Zagreb, Zadar, Split, Dubrovnik, Rijeka, Osijek og Pula.

Uppruni heitis landsins er óviss en talið er að það sé komið úr norðvesturslavnesku sem heiti á slavneskum þjóðflokki. Heitið kemur fyrst fyrir í miðaldalatínu sem Croātia og í áletrun frá 9. öld þar sem Branímír af Króatíu er kallaður DUX CRUATORVM.

Landlýsing

breyta

Króatía er alls 56.594 ferkílómetrar. Landamæri Króatíu eru 2.237 km löng og strandlengjan er 5.835 km. Dinara-tindur er hæsti punktur landsins í 1.831 metra hæð í Dínarísku-ölpunum. Þar er karstlandslag með djúpum hellum.

Eyjar Króatíu eru yfir þúsund talsins og 3300 ferkílómetrar og eru Cres og Krk stærstar. Helstu fljót í landinu eru Dóná (sem rennur í gegnum borgina Vukovar), Drava, Kupa og Sava. Um 44% landsins er vaxið skógi og 9% landsins er verndað svæði, þar af eru 8 þjóðgarðar.

Stjórnsýslueiningar

breyta

Stjórnskipan Króatíu er tvískipt: Frá 1992 hefur Króatíu verið skipt í 20 sýslur líkt og á miðöldum þótt þessar sýslur séu gjörólíkar þeim fyrri. Zagreb nýtur þeirrar sérstöðu að vera bæði sýsla og borg. Sýslurnar skiptast svo í 429 sveitarfélög og 127 borgir.

 
Sýsla Höfuðstaður Stærð (km²) Mannfjöldi í
manntali 2011
Bjelovar-Bilogora Bjelovar 2.652 119.743
Brod-Posavina Slavonski Brod 2.043 158.559
Dubrovnik-Neretva Dubrovnik 1.783 122.783
Istria Pazin 2.820 208.440
Karlovac Karlovac 3.622 128.749
Koprivnica-Križevci Koprivnica 1.746 115.582
Krapina-Zagorje Krapina 1.224 133.064
Lika-Senj Gospić 5.350 51.022
Međimurje Čakovec 730 114.414
Osijek-Baranja Osijek 4.152 304.899
Požega-Slavonia Požega 1.845 78.031
Primorje-Gorski Kotar Rijeka 3.582 296.123
Šibenik-Knin Šibenik 2.939 109.320
Sisak-Moslavina Sisak 4.463 172.977
Split-Dalmatia Split 4.534 455.242
Varaždin Varaždin 1.261 176.046
Virovitica-Podravina Virovitica 2.068 84.586
Vukovar-Syrmia Vukovar 2.448 180.117
Zadar Zadar 3.642 170.398
Zagreb-sýsla Zagreb 3.078 317.642
Zagreb-borg Zagreb 641 792.875

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.