Zoran Milanović
Zoran Milanović (f. 30. október 1966) er króatískur stjórnmálamaður sem hefur verið forseti Króatíu frá árinu 2020. Hann var áður forsætisráðherra Króatíu frá 2011 til 2016 og leiðtogi króatíska Jafnaðarmannaflokksins frá 2007 til 2016.
Zoran Milanović | |
---|---|
Forseti Króatíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 19. febrúar 2020 | |
Forsætisráðherra | Andrej Plenković |
Forveri | Kolinda Grabar-Kitarović |
Forsætisráðherra Króatíu | |
Í embætti 23. desember 2011 – 22. janúar 2016 | |
Forseti | Ivo Josipović Kolinda Grabar-Kitarović |
Forveri | Jadranka Kosor |
Eftirmaður | Tihomir Orešković |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 30. október 1966 Zagreb, Króatíu, Júgóslavíu |
Stjórnmálaflokkur | Jafnaðarmannaflokkurinn (1999–2020) |
Maki | Sanja Musić (g. 1994) |
Börn | 2 |
Háskóli | Háskólinn í Zagreb Fríháskólinn í Brussel |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaZoran Milanović er menntaður í lögfræði og var áhugamaður í hnefaleikum á yngri árum. Hann tók ekki sjálfur þátt í bardögum heldur kaus hann að halda sig í æfingafélagi hnefaleikakappa sem síðar tóku þátt í keppnum. Milanović hóf störf fyrir utanríkisráðuneyti Króatíu árið 1990, í miðju króatíska sjálfstæðisstríðinu. Eftir stríðið vann hann í þrjú ár fyrir sendinefndir Króatíu gagnvart Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu í Brussel.[1]
Milanović hóf stjórnmálaferil með króatíska Jafnaðarmannaflokknum árið 1999. Árið 2011 leiddi hann jafnaðarmenn til sigurs í þingkosningum og var kjörinn forsætisráðherra Króatíu. Króatar bundu miklar vonir við stjórn Milanovićs og umbæturnar sem hann boðaði.[1] Á forsætisráðherratíð Milanovićs lauk inngönguferli Króatíu í Evrópusambandið. Stjórn hans sá um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 þar sem Króatar samþykktu ESB-aðild með um tveimur þriðju greiddra atkvæða. Króatía varð þar með annað fyrrum lýðvelda Júgóslavíu (á eftir Slóveníu) til að hljóta ESB-aðild.[2]
Ráðherratíð Milanovićs litaðist jafnframt af evrópsku flóttamannakreppunni. Flóttafólk hóf að koma í gegnum Króatíu í stórum stíl árið 2015 eftir að leiðin til Ungverjalands í gegnum Serbíu var girt af árið 2015.[3] Í september þetta ár höfðu um 14 þúsund flóttamenn farið um króatísku landamærin. Milanović áréttaði við það tilefni að Króatía gæti ekki verið endastöð flóttafólks.[4]
Ríkisstjórm Milanovićs tapaði í þingkosningum árið 2015 fyrir Króatíska lýðræðisbandalaginu, kosningabandalagi hægriflokka, og mistókst að ná aftur völdum í kosningum næsta ár. Milanović lét í kjölfarið af völdum og sagði af sér sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins.[1]
Milanović dró sig úr stjórnmálum um skeið og hóf rekstur ráðgjafarfyrirtækis sem meðal annars vann fyrir Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu.[1] Árið 2019 bauð Milanović sig hins vegar fram til embættis forseta Króatíu á móti sitjandi forsetanum Kolindu Grabar-Kitarović. Í fyrri umferð kosninganna þann 22. desember 2019 hlaut Milanović 29,55% atkvæða en Grabar-Kitarović 26,65%.[5]
Seinni kosningaumferðin fór fram þann 6. janúar 2020 og í henni vann Milanović sigur gegn Grabar-Kitarović með 53 prósentum atkvæða. Milanović tók við embætti forseta þann 19. febrúar sama ár.[6]
Árið 2022 hvatti Milanović króatíska þingið til að beita sér gegn aðildarumsókn Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu, sem hann kallaði „hættulegt ævintýri“.[7]
Milanović var forsætisráðherraefni Jafnaðarmannaflokksins í þingkosningum árið 2024 þrátt fyrir að vera enn forseti landsins. Stjórnlagadómstóll lýsti því yfir að sem forseti mætti Milanović ekki taka þátt í flokkspólitískri kosningabaráttu nema hann segði fyrst af sér. Þrátt fyrir að vera því ekki formlega í framboði ferðaðist Milanović um Króatíu á tíma kosningabaráttunnar og gagnrýndi sitjandi stjórnvöld landsins án afláts. Meðal annars fór hann hörðum orðum um nágrannaríkið Bosníu, um ólöglega innflytjendur í Króatíu og um hernaðaraðstoð sitjandi stjórnar við Úkraínu.[8] Persónufylgi Milanović tryggði Jafnaðarmannaflokknum nokkra fylgisaukningu í kosningunum en flokkurinn lenti engu að síður í öðru sæti á eftir Króatíska lýðræðisbandalaginu.[9]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Með vinstrisinnað hjarta og íhaldssamt höfuð“. mbl.is. 7. janúar 2020. Sótt 6. febrúar 2023.
- ↑ „Aðild að ESB samþykkt í Króatíu“. Morgunblaðið. 24. janúar 2012. bls. 17.
- ↑ Birgir Þór Harðarson (7. janúar 2020). „Ungverjar lengja girðinguna eftir landmærunum við Króatíu“. Kjarninn. Sótt 18. september 2015.
- ↑ „Króatar gagnrýna ráðaleysi Evrópusambandsins“. Morgunblaðið. 19. september 2015. bls. 22.
- ↑ Andri Eysteinsson (5. janúar 2020). „Króatar velja á milli Milanovic og Grabar-Kitarovic“. Vísir. Sótt 6. febrúar 2023.
- ↑ Atli Ísleifsson (6. janúar 2020). „Vinstrimaður hafði betur gegn sitjandi forseta í Króatíu“. Vísir. Sótt 6. febrúar 2023.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (27. apríl 2022). „Forseti Króatíu leggst gegn NATO-aðild Svía og Finna“. RÚV. Sótt 6. febrúar 2023.
- ↑ Freyr Rögnvaldsson (15. apríl 2024). „Forseti Króatíu eys skömmum yfir sitjandi stjórnvöld – Ætlar sjálfum sér forsætisráðherrastólinn eftir komandi kosningar“. Samstöðin. Sótt 17. maí 2024.
- ↑ Freyr Rögnvaldsson (18. apríl 2024). „Líkur til að næsta ríkisstjórn Króatíu innihaldi popúlískan hægri þjóðernisflokk“. Samstöðin. Sótt 17. maí 2024.
Fyrirrennari: Kolinda Grabar-Kitarović |
|
Eftirmaður: Enn í embætti | |||
Fyrirrennari: Jadranka Kosor |
|
Eftirmaður: Tihomir Orešković |