Clement Attlee
Clement Richard Attlee (3. janúar 1883 – 8. október 1967) var breskur stjórnmálamaður sem gegndi embætti forsætisráðherra Bretlands á árunum 1945 til 1951 og formaður Verkamannaflokksins frá 1935 til 1955. Árið 1942 gerðist Attlee fyrsti aðstoðarforsætisráðherra Bretlands í stríðsstjórnarsamstarfi Verkamannaflokksins við Íhaldsflokk Winston Churchill. Samstarfið entist til stríðsloka árið 1945, en í þingkosningunum það ár vann Verkamannaflokkurinn óvæntan stórsigur og fékk í fyrsta sinn að stofna eigin meirihlutastjórn. Stjórninni tókst að framkvæma ýmsar umbótatillögur sem áttu að hjálpa Bretlandi á eftirstríðsárunum. Á þessum tíma var 12% fylgisaukning Verkamannaflokksins í aðdraganda kosninganna fordæmalaus og er enn sú mesta sem nokkur flokkur hefur náð fyrir kosningar í Bretlandi. Attlee var endurkjörinn árið 1950 með mjög naumum þingmeirihluta en kallaði til nýrra kosninga árið eftir til þess að reyna að styrkja stöðu sína. Þar tapaði hann hins vegar naumlega fyrir Churchill og Íhaldsmönnunum þrátt fyrir að hafa fengið fleiri atkvæði. Attlee gegndi leiðtogastöðu Verkamannaflokksins lengur en nokkur annar.
Clement Richard Attlee | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 26. júlí 1945 – 26. október 1951 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 6. |
Forveri | Winston Churchill |
Eftirmaður | Winston Churchill |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 3. janúar 1883 Putney, Surrey, Englandi |
Látinn | 8. október 1967 (84 ára) London, Englandi |
Þjóðerni | Breskur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Violet Millar (g. 1922; d. 1964) |
Börn | 4 |
Háskóli | University-háskóli, Oxford |
Æviágrip
breytaAttlee var fyrst kjörinn á breska þingið árið 1922 í Limehouse. Hann varð fljótt aðstoðarráðherra í minnihlutastjórn Ramsay MacDonald árið 1924 og síðan hluti af annarri ríkisstjórn MacDonald á árunum 1929-31. Eftir afhroð Verkamannaflokksins í kosningunum 1931 var Attlee einn af fáum forstöðumönnum flokksins sem enn áttu sæti á þingi og gerðist aðstoðarformaður flokksins. Þegar George Lansbury sagði af sér árið 1935 var Attlee kjörinn til formanns Verkamannaflokksins og varð jafnframt leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Í fyrstu var Attlee málsvari friðar og málamiðlunar en hann skipti fljótt um skoðun; árið 1938 var hann orðinn harður gagnrýnandi friðþægingarstefnu Neville Chamberlain gagnvart hernaðarstefnu Adolf Hitler og Benito Mussolini. Eftir að seinni heimsstyrjöldin hófst leiddi Attlee Verkamannaflokkinn í stjórnarsamstarf við Íhaldsflokk Churchill árið 1940 og gerðist aðstoðarforsætisráðherra árið 1942. Samstarf Attlee og Churchill var gott og skiptist þannig að Attlee tók að sér flest smáatriði og skipulagningu baksviðs innan þingsins á meðan Churchill einbeitti sér að utanríkis- og hernaðarmálum. Þegar Bandamenn sigruðu Öxulveldin í Evrópu í maí 1945 var stjórnarsamstarf flokkanna leyst upp. Attlee leiddi Verkamannaflokkinn til stórsigurs í kosningum tveimur mánuðum síðar.
Ríkisstjórn Attlee kom á fót ýmsum fordæmum sem fylgt var á eftirstríðsárunum. Verkamannaflokkurinn tileinkaði sér þá stefnu að atvinnuleysi yrði haldið niðri með aðgerðum í anda keynesískrar hagfræði og kom að stofnun mun sterkara velferðakerfis. Í stjórnartíð hans voru ýmis þjónustu- og iðnaðarfyrirtæki ríkisvædd og bresku Þjóðarheilbrigðisþjónustunni komið á fót. Attlee lét Ernest Bevin að mestu um utanríkismál en hafði þó mikinn áhuga á Indlandi. Attlee kom að skiptingu Indlands í Indland og Pakistan árið 1947 auk þess sem hann skildi Mjanmar og Srí Lanka frá Indlandi og gerði þau sjálfstæð. Ríkisstjórn hans batt enda á umboðsstjórn Breta í Palestínu og Jórdaníu. Frá árinu 1947 beittu þeir Bevin þrýstingi á Bandaríkin til að fá þá til að taka virkari þátt í kalda stríðinu gegn Sovétríkjunum. Þegar Bretar neyddust til að yfirgefa Grikkland árið 1947 bað Attlee Bandaríkjamenn að standa gegn Kommúnistum þar í samræmi við Truman-kenninguna. Attlee var ötull stuðingsmaður Marshalláætluninnar til að endurreisa Vestur-Evrópu með bandarísku fé. Árið 1949 studdi hann við stofnun Atlantshafsbandalagsins og aðgöngu Breta að því. Einnig samþykkti Attlee að Bretland skyldi koma sé upp eigin kjarnavopnum, beitti 13.000 manna herfjölda og sérstakri löggjöf til að bæla niður hafnarverkföll árið 1949 og sendi breska hermenn til að berjast í Kóreustríðinu eftir nauman kosningasigur hans árið 1950.
Eftir nauman ósigur sinn fyrir Churchill árið 1951 gerðist Attlee leiðtogi stjórnarandstöðunnar á ný. Hann hélt áfram sem formaður Verkamannaflokksins en var mun áhrifaminni. Hann sagði af sér eftir annan ósigur Verkamanna árið 1955 og gerðist þingmaður í Lárvarðadeild breska þingsins.
Ólíkt Churchill þótti Attlee hæverskur og lítillátur. Hann átti í erfiðum með almannatengsl og skorti persónutöfra. Styrkleiki hans þótti liggja baksviðs, sérstaklega í hópnefndum þar sem hann naut góðs af þekkingu sinni, hljóðlæti, hlutlægni og skynsemi.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Clement Attlee“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. júní 2017.
Fyrirrennari: Winston Churchill |
|
Eftirmaður: Winston Churchill |