Ragnar Loðbrók er hálfgoðsöguleg hetja úr íslenskum fornsögum. Frá honum er aðallega sagt í Ragnars sögu loðbrókar og Þætti af Ragnars sonum. Hann var sonur Sigurðar hrings danakonungs og svíakonungs. Þegar hann varð fullveðja fékk hann skip og áhöfn frá föður sínum og fór í víking.

Ragnar loðbrók og Áslaug kráka
Ragnar loðbrók og Áslaug Kráka

Frægasta sagan af Ragnari fjallar um það hvernig hann vann fyrri konu sína, jarlsdótturina Þóru borgarhjört. Þóra hafði eignast fagran lyngorm sem hún geymdi í öskju þar sem hann lá á gulli. Ormurinn stækkaði stöðugt og gullið með. Að lokum varð hann svo stór að hann þurfti að borða uxa í hvert mál. Þá bauð jarlinn hverjum þeim sem myndi drepa orminn dóttur sína og gullið með. Ragnar heyrði af þessu og útbjó loðklæði. Þessi klæði vörðu hann fyrir eitri ormsins þannig að Ragnar gat drepið hann. Með Þóru átti Ragnar synina Agnar og Eirík.

Seinni kona Ragnars var Áslaug Kráka, dóttir Sigurðar Fáfnisbana. Þeirra synir voru Ívar beinlausi, Sigurður ormur í auga, Björn járnsíða og Hvítserkur.

Ragnar er einnig sagður faðir Rögnvalds, Hálfdáns og Ubba.

Í frönskum annálum er sagt frá víkingahöfðingja að nafni Reginherus sem ræðst inn í París árið 845. Löngum hafa verið uppi getgátur um að Reginherus og Ragnar hafi verið sami maður en fyrir því eru engar beinar heimildir.

Ragnar var drepinn af Ella konungi sem varpaði honum í ormagryfju. Synir Ragnars gerðu innrás á England til að hefna föður síns og drápu Ella með því að rista honum blóðörn.

Íslendingabók segir að Ívar beinlausi, sonur hans, hafi drepið Játmund hinn helga Englakonung.

Heimildir

breyta