Armed Forces Radio and Television Service Keflavik

útvarpsstöð á Suðurnesjum (1951-2006)
(Endurbeint frá Kanasjónvarp)

Armed Forces Radio and Television Service Keflavik eða AFRTS Keflavik (áður Radio TFK) eða Kanaútvarpið/Kanasjónvarpið eða Keflavíkursjónvarpið, eins og það var almennt nefnt af Íslendingum, var útvarpsstöð Varnarliðsins á Keflavíkurstöðinni á Suðurnesjum sem starfaði frá 1951 til 2006 þegar herstöðinni var lokað.

Skilgreint hlutverk stöðvarinnar var að senda út skemmtiefni til upplyftingar hermönnum og starfsfólki hersins á starfsstöðvum hersins á Íslandi. Dagskrá stöðvarinnar byggðist fyrst og fremst á vinsælu bandarísku útvarps- og sjónvarpsefni, en hluti dagskrárinnar voru sérstakir upplýsingaþættir framleiddir af Pentagon sem af þótti nokkur áróðurskeimur. Einnig framleiddi stöðin sitt eigið efni, aðallega fréttir og veðurfréttir. Stöðin var hluti af útvarpsnetinu Armed Forces Network sem starfar á herstöðvum Bandaríkjamanna um allan heim. Rekstraraðili stöðvarinnar var Navy Media Center (NMC) Broadcasting Detachment í Keflavík en megnið af efninu var fengið frá AFRTS sem sá um innkaup og framleiðslu á efni.

Þegar stöðinni var lokað í september 2006 störfuðu þar 25 manns, þar af þrír íslenskir tæknimenn.

Útvarpsútsendingar

breyta

Stöðin hóf útsendingar á miðbylgju með 25 watta styrk í nóvember 1951 og fékk síðan leyfi íslenskra stjórnvalda til reksturs útvarpsstöðvar allan sólarhringinn í maí 1952. Um leið var krafturinn aukinn í 250 wött og var stöðin alla tíð ein sú öflugasta á stóru svæði kringum Ísland. Áður hafði Bandaríkjaher rekið útvarpsstöð við Keflavíkurflugvöll í Síðari heimsstyrjöldinni. Útvarpsstöðin sendi út samfellt frá 1952 til 2006.

Sjónvarpsútsendingar

breyta

1954 sótti stöðin um og fékk leyfi til sjónvarpsútsendinga 4. mars 1955. Sent var út á tíðninni 108-186 Hz í 345° geisla. Þetta voru fyrstu sjónvarpsútsendingar frá Íslandi, ellefu árum áður en Ríkissjónvarpið hóf útsendingar. Leyfið var háð þeim skilyrðum að styrkur útsendingarinnar væri bundinn við 50 wött og reynt að beina geislanum að stöðinni sjálfri. Vegna þess að málið var ekki talið snerta íslenska hagsmuni bar Kristinn Guðmundsson utanríkisráðherra málið ekki undir Alþingi.

Brátt kom í ljós að sjónvarpsmerkið frá stöðinni náðist á Suðurnesjum, Hafnarfirði og Reykjavík og ýmsir urðu sér út um sjónvarpsviðtæki og sjónvarpsloftnet til að geta fylgst með dagskrá stöðvarinnar. Viðtækin voru dýr og því fá heimili sem leyfðu sér slíkan munað, en áhorfið hefur líklega verið meira en fjöldi tækja gaf til kynna vegna hópáhorfs á vinsæla dagskrárliði.

Deilan um Keflavíkursjónvarpið

breyta

1959 lögðu tveir þingmenn Alþýðubandalagsins fram tillögu um lokun sjónvarpsstöðvarinnar en hún var ekki samþykkt. 1961 sótti stöðin um að útsendingarstyrkur yrði aukinn úr 50w í 250w og var það leyfi veitt 17. apríl. Þegar stöðin jók útsendingastyrk sinn árið eftir kom málið aftur upp á Alþingi. Þingmaður Framsóknarflokksins gagnrýndi þá að utanríkisráðherra hefði veitt erlendri sjónvarpsstöð í reynd einokunarstöðu í sjónvarpsútsendingum á Íslandi. Málið var enn sárara þar sem ekki hafði enn tekist að koma á fót íslensku sjónvarpi þrátt fyrir umræður um nauðsyn þess í tæpan áratug. Danska ríkisútvarpið hafði hafið sjónvarpsútsendingar árið 1951.

Deilan vatt upp á sig eftir þetta og 13. mars árið 1964 birtu sextíu þekktir Íslendingar grein þar sem skorað var á íslensk stjórnvöld að takmarka útsendingar stöðvarinnar, til þess „að það mál [stofnun íslensks sjónvarps] fái þróazt í samræmi við vilja og getu þjóðarinnar, án þess að knúið sé fram með óeðlilegum hætti“. Andstæðingar stöðvarinnar höfðu meðal annars áhyggjur af því að íslensk ungmenni myndu verða fyrir "óæskilegum" menningaráhrifum og jafnvel glata íslenskunni. Ýmsir urðu þó til að koma Keflavíkursjónvarpinu til varnar og yfir 14.000 manns skrifuðu undir undirskriftalista þar sem þess var óskað að stöðin fengi áfram að senda út á Íslandi.

Takmörkun sjónvarpsútsendinga

breyta

Þegar Ríkissjónvarpið hóf útsendingar árið 1966 kom fram sú skoðun framleiðenda sjónvarpsefnis í Bandaríkjunum að sjónvarpsstöð varnarliðsins ætti að greiða sambærileg gjöld fyrir útsendingu á aðkeyptu efni þar sem áhorfendahópurinn á Íslandi væri stærri en sem næmi varnarstöðinni sjálfri. Í framhaldi af því óskaði flotaforinginn eftir því við íslensk stjórnvöld að dregið yrði verulega úr útsendingarstyrk stöðvarinnar þannig að hann takmarkaðist við stöðina og næsta nágrenni hennar enda hefði rekstrarkostnaður stöðvarinnar ella margfaldast. 15. september 1967 voru svo sjónvarpsútsendingar takmarkaðar þannig að þær næðust aðeins á Suðurnesjum og sunnanverðum Hafnarfirði. Dagskrá stöðvarinnar var t.d. birt í héraðsblöðum á Suðurnesjum til 1972. Samkvæmt könnunum náðist dagskrá stöðvarinnar á köflum víða í Reykjavík. Þannig héldu útsendingar áfram til 1974 þegar allar sjónvarpsútsendingar stöðvarinnar voru færðar í kapalkerfi.

16. nóvember 1969 réðust 22 meðlimir í Æskulýðsfylkingunni inn í upptökusal sjónvarpsstöðvarinnar, máluðu „Che Guevara“ og „Viva Cuba“ á veggi og á tökuvélar og hrópuðu slagorð gegn stríðinu í Víetnam. Í hópnum voru meðal annarra Birna Þórðardóttir og Róska, Einar Már Guðmundsson, Kári Stefánsson og Ragnar Stefánsson.

Á árunum 1972 til 1974 birtust reglulega greinar í íslenskum dagblöðum um að Keflavíkursjónvarpið væri að brjóta íslensk útvarpslög með útsendingum sínum þar sem þau lög kváðu á um einkarétt Ríkisútvarpsins til sjónvarpsútsendinga. Á móti kvörtuðu margir undan takmörkunum á móttöku sjónvarpsins.

Í nóvember 1974 urðu miklar deilur á þingi um þingsályktunartillögu Alberts Guðmundssonar sem fjallaði meðal annars um að opna bæri fyrir útsendingar Keflavíkursjónvarpsins. Tillagan var felld með 40 atkvæðum gegn 5 og þannig ljóst að þverpólitísk samstaða var um lokun þess.

Litasjónvarp og gervihnattasjónvarp

breyta

Árið 1976 voru teknar upp útsendingar í lit.

Á 9. áratugnum var farið að endurvarpa sjónvarpsefni frá gervihnöttum í kapalkerfinu sem á endanum taldi 40 sjónvarpsrásir og 11 útvarpsrásir.

Tenglar

breyta