Ragnar Stefánsson

íslenskur jarðskjálftafræðingur

Ragnar Kristján Stefánsson (f. 14. ágúst 1938, d. 25. júní 2024) var íslenskur jarðskjálftafræðingur[1] og prófessor. Ragnar var í 38 ár forstöðumaður jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands.

Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur

Náms- og starfsferill

breyta

Hann stundaði nám við Uppsala háskóla í Svíþjóð og lauk Fil. kand prófi (B.Sc.) í stærðfræði og eðlisfræði 1961 og Fil. kand prófi í jarðeðlisfræði 1962 og árið 1966 Fil.lic prófi (Ph.D.) í jarðskjálftafræði.

Árin 1962 – 1963 og frá 1966 til 2003 var hann forstöðumaður jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands og 2004 – 2005 forstöðumaður Rannsóknarstofu Veðurstofunnar við Háskólann á Akureyri. Árin 2005 – 2008 var hann rannsóknarprófessor við Háskólann á Akureyri.

Vísindastörf

breyta

Sem forstöðumaður jarðeðlisfræðideildar Veðurstofunnar var eitt meginhlutverk Ragnars að hafa umsjón með jarðskjálftamælingum og úrvinnslu þeirra. Frá 1980 hafði hann forystu um uppbyggingu mælikerfa og rannsókna sem miða að því að vara við jarðskjálftum og eldgosum og hættum sem af þeim geta stafað og hafði forystu í mögrum íslenskum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem miðuðu að því marki.[2][3][4] Árið 2011 sendi Ragnar frá sér bókina Advances in Earthquake prediction. Research and Risk Mitigation, þar sem hann dregur saman meginniðurstöður rannsókna sinna og reynslu af jarðskjálftaspám.[5] Árið 2022 gaf Skrudda út bók hans Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta. Þetta er mikið yfirlitsrit um jarðskjálfta á Íslandi og fjallar einnig um uppbyggingu vöktunarkerfis með jarðhræringum og jarðskjálftaspár. Ragnar fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin á sviði fræðibóka fyrir árið 2022.

Félagsstörf

breyta

Ragnar hefur sinnt ýmsum félagsstörfum. Hann var í forystu Fylkingarinnar á árunum 1966 – 1984, lengst af sem formaður samtakanna. Hann var formaður Framfarafélags Dalvíkurbyggðar frá stofnun þess 2002 og lengi framan af. Á árunum 2004 – 2008 var hann formaður samtakanna Landsbyggðin lifi. Hann var meðal stofnenda VG, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, árið 1999 og var um hríð í flokksráði samtakanna.

Einkahagir

breyta

Ragnar fæddist í Reykjavík, sonur Rósu Kristjánsdóttur og Stefáns Bjarnasonar. Hann er landskunnur sem Ragnar skjálfti en viðurnefnið er vitaskuld dregið af starfi hans. Með fyrri eiginkonu sinni Astrid Malmström (Ástríði Ákadóttur), menntaskólakennara, sem hann kvæntist 1961, eignaðist hann börnin Kristinu, Stefán Áka og Gunnar Bjarna. Með Björk Gísladóttur eignaðist hann Bryndísi Hrönn. Seinni kona hans er Ingibjörg Hjartardóttir, rithöfundur, sem hann kvæntist 1990.

Sjálfsævisaga Ragnars, Það skelfur, kom út 2013.

Tilvísanir

breyta
  1. "Scientists: Enough Tension for 6.8 Quake in North Iceland" Geymt 28 október 2018 í Wayback Machine. Iceland Review, October 24, 2012
  2. "FORECASTING EARTHQUAKES - Seismic warnings: the Icelandic laboratory". RTDinfo, #43 - nóvember 2004
  3. "Stress-forecasting not predicting earthquakes: a paradigm ...". www.geos.ed.ac.uk, S Crampin 1998-11-10
  4. Annali di geofisica. Istituto nazionale di geofisica, 2001,
  5. "Små skalv kan avslöja stora jordbävningar" Forskning Framsteg, Michaela Lundell 2012-06-20