Róska
Ragnhildur Óskarsdóttir (31. október 1940 – 13. mars 1996) best þekkt undir listamannsnafninu Róska var íslensk listakona, kvikmyndagerðarkona, kommúnisti og femínisti. Hún lærði myndlist og kvikmyndagerð í Prag og Róm á Ítalíu þar sem hún bjó lengst af. Eitt af einkennismerkjum hennar eru hárauðar varir sem koma fyrir í mörgum myndum hennar.
Hún gerði eða átti þátt í gerð myndanna L'impossibilità di recitare Elettra oggi (1970), Sóley (1982) og Ólafur Liljurós meðal annarra, auk sjö heimildarmynda um Ísland fyrir ítalska ríkissjónvarpið (RAI) á áttunda áratugnum.
Hún var þekkt fyrir róttækar stjórnmálaskoðanir sínar, sem komu einnig skýrt fram í verkum hennar, var meðlimur í Æskulýðsfylkingunni og tók þátt í að ráðast inn í sjónvarpssal Keflavíkursjónvarpsins á Keflavíkurstöðinni árið 1969 og úða þar málningu á linsur tökuvélanna. Í Róm var hún virkur þátttakandi í hópum vinstrimanna og anarkista og tók meðal annars þátt í fjögurra mánaða setuverkfalli ásamt manni sínum Manrico Pavolettoni í smábænum Fabbrico nálægt Reggio Emilia á Norður-Ítalíu árið 1968.
Ævi Rósku
breytaRagnhildur Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 31. október 1940. Foreldrar hennar eru Óskar B. Bjarnason og Sigurbjörg Emilsdóttir. Róska á tvær yngri systur, Borghildi, sem er myndlistarkona, og Guðrúnu, sem er lyfjafræðingur. Róska hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík en hvarf þaðan eftir eitt ár. Hún vann um tíma í listgalleríi Gunnars S. Magnússonar ljósmyndara við Hverfisgötu. Hún innritast í Myndlista- og handíðaskólann og þar kynnist hún fyrri eiginmanni sínum Gylfa Reykdal. Þau fluttu til Prag og þar sem hún lærði myndlist og kvikmyndagerð. Þau eignuðust son, Höskuld Harra Gylfason, sem er grafískur hönnuður. Róska slasaðist við að detta niður stiga og átti síðan við þungbæra flogaveiki að stríða. Árið 1954 fór hún með föður sínum víða um Evrópu að leita sér lækninga. [1] Róska flytur til Parísar og býr þar í listamannanýlendu í tæpt ár. Róska og Gylfi skilja stuttu síðar. Árið 1965 fer Róska til Rómar og kynnist þar ungum ítölskum bókmenntamanni Manrico Pavolettoni sem hún síðar giftist. Róska innritast í L´Accademia di Belle Arti þar sem hún er við nám næstu tvö árin. Íbúð þeirra Manrico varð að einskonar listamiðstöð í Róm. Róska og Manrico búa á Ítalíu í rúm 30 ár. Hún lést í Reykjavík 13. mars 1996 eftir að hafa glímt við veikindi.
Ferill
breytaRóska var ein þeirra myndlistarmanna sem stofnuðu Nýlistasafnið en vegna langdvala sinna erlendis var hún ekki áberandi í starfi félagsins allan þann tíma. Hún varð einnig félagi í SÚM árið 1967 en tók aðallega þátt í því úr fjarlægð. Róska barðist fyrir betra hlutskipti fólks og gegn valdbeitingu, hroka valdhafa og valdstétta. Listakonan og aðgerðasinninn Róska vildi ekki láta skilgreina sig sem femínista samt sem áður var hún mjög femínísk í anda, róttæk og mikill réttlætissinni og myndverk hennar endurspegla hugarheim konu sem ekki var alltaf sátt við hlutskipti sitt. Konan var eitt af helstu viðfangsefnum Rósku í listinni og tengdi hún oft verk sín á seinni hluta ævinnar við kvennaréttindi og kvennabaráttu en fyrri hlutann frekar við almenn mannréttindi. Rauðar varir voru einnig áberandi í verkunum hennar.
Listasýningar
breytaSeptember 1967: Listasýning í Casa-Nova. 55 málverk og teikningar. Hún varð meðlimur SÚM. Sýning kynnt sem “ Listkynning á vegum SÚM”. Sýningin fékk mjög góða dóma og vakti mikla athygli.
1968: Tekur þátt í sýningunni “ Unge nordiske Kunstnere” í Alborg.
Október 2000: Yfirlitssýning helguð Rósku á Nýlistasafninu. Á sýningunni voru sýnd málverk og teikningar eftir Rósku, ljósmyndir og pólitískir skúlptúrarar, veggspjöld og pólitísk barátturit. Einnig voru sýndar kvikmyndir eftir Rósku sem aldrei höfðu verið sýndar á Íslandi.[1] Það var gefin út bók í kjölfar sýningarinnar, Róska.
Júní 2002: Samsýning á Kjarvalsstöðum, Maður og borg. Fyrstu spor íslenskrar menningar inn í samtíma sinn á 19. öld og við upphaf þeirrar 20. lágu í gegnum landið.[2]
Febrúar 2009: Verk hennar hluti af sýningu á Listasafni Íslands, Nokkrir vinir. Sýningin bregður ljósi á þann kapítula í íslenskri listasögu þegar formræn list lét undan síga fyrir óformrænum gildum og önnur viðhorf tóku að banka uppá með þunga uppúr miðri síðustu öld.[3]
Maí 2014: Verk hennar hluti af sýningu á Kjarvalsstöðum sem hét Hliðstæður. Hvernig listamenn sáu Reykjavíkurborg 1891-1993 og þær bornar saman til að sjá mismunandi sjónir listamanna.
Gagnrýni
breyta"Sterk, óstýrilát og áköf" var fyrirsögn greinar Morgunblaðsins árið 2001 og á það mjög við persónuleika hennar.
Eftirfarandi var skrifað um sýninguna hennar í Casa Nova "Myndirnar voru kröftugar, oft með húmorísku ívafi þótt undirtónninn væri alvarlegur. Nöfn myndanna voru einnig oft skondin. Minnisstæð er mynd nr. 18, "Hlandblautar löggur"[4]
Um sýninguna í nýlistasafninu: "Sýning Rósku í Nýlistasafninu er frískleg. Hinar mismunandi vinnuaðferðir skila af sér fjölbreyttum verkum og gefa áhorfandanum gott tækifæri til að meta þá möguleika sem felast í vinnubrögðunum. Í viðtali sagði listakonan að viðfangsefni hennar á sýningunni væri kynlíf og heimsendir, og er það í góðu samræmi við það sem hún hefur fjallað um á einn eða annan hátt í listinni í gegnum árin. Þetta kemur misjafnlega sterkt fram í verkunum; í sumum þeirra er tilvísunin bein og ögrandi, en í öðrum fínlegri og mýkri."[5]
Tenglar
breyta- Kjartan Guðjónsson (1969). Róttækir listamenn - og óróttækir. Þjóðviljinn 209: 5.
- Féll í skóla og varð flogaveik upp úr því; grein í Helgarpóstinum 1996
- Ragnhildur Óskarsdóttir - andlát; grein í Morgunblaðinu 1996
- Ragnhildur Óskarsdóttir, Róska; minningar sem birtust í Morgunblaðinu 1996
- "SÍFELLD UPPREISN Í LIFANDI PÓESÍU OG PÓLITÍK ", grein í morgunblaðinu 2000[6]
Heimildir
- ↑ Róska, 2000.