Jiang Zemin

Fyrrum leiðtogi Alþýðulýðveldisins Kína
Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Jiang, eiginnafnið er Zemin.

Jiang Zemin (17. ágúst 192630. nóvember 2022) var kínverskur stjórnmálamaður og meginleiðtogi „þriðju valdakynslóðar“ kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína. Hann var framkvæmdastjóri flokksins 1989-2002, forseti Alþýðulýðveldisins 1993- 2003, og formaður Hermálanefndar flokksins 1989-2004.

Jiang Zemin
江泽民
Jiang Zemin (江泽民) árið 2002.
Aðalritari kínverska kommúnistaflokksins
Í embætti
24. júní 1989 – 15. nóvember 2002
ForveriZhao Ziyang
EftirmaðurHu Jintao
Forseti Alþýðulýðveldisins Kína
Í embætti
27. mars 1993 – 15. mars 2003
ForsætisráðherraLi Peng
Zhu Rongji
VaraforsetiRong Yiren
Hu Jintao
ForveriYang Shangkun
EftirmaðurHu Jintao
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. ágúst 1926
Yangzhou, Kína
Látinn30. nóvember 2022 (96 ára) Sjanghæ, Kína
DánarorsökHvítblæði og fjöllíffærabilun[1]
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Kína
MakiWang Yeping (g. 1949)
BörnJiang Mianheng, Jiang Miankang
StarfRafvirki, stjórnmálamaður
Undirskrift

Jiang Zemin gekk til liðs við Kommúnistaflokkinn á námsárum árið 1946. Hann útskrifaðist úr rafmagns- og vélaverkfræðideild Sjanghæ Jiaotong-háskóla árið 1947. Árið 1955 hlaut Jiang ársstarfsþjálfun í „Jósef Stalín-bílaverksmiðjunum“ („ZiL“) í Moskvu, Sovétríkjunum. Næstu tvo áratugi gegndi Jiang ýmsum störfum í iðnaði Sjanghæborgar. Að endingu tók hann við opinberum embættum í Wuhan-borg og höfuðborginni Beijing, en þar varð hann ráðherra rafmagnsframleiðslu 1982—1985. Sama ár tók hann sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins og gegndi því til 1987. Árið 1985 fór Jiang aftur til Sjanghæ, þar sem hann gegndri stöðu borgarstjóra til 1987 og stöðu aðalritara flokksins í borginni. Hann var kjörinn í miðstjórn kommúnistaflokksins á 12. – 15. flokksþinginu og kjörinn í Politburo á 13.- 15. flokkþinginu. Árið 1989 var Jiang kjörinn aðalritari miðstjórnarinnar og formaður hermálanefndar flokksins. Hann komst þá til valda í kjölfar óeirðanna á Torgi hins himneska friðar er hann tók við af Zhao Ziyang sem þótti taka of vægt á mótmælendunum. Jiang varð í raun leiðtogi Kína árið 1990 vegna elli leiðtogans Deng Xiaoping. Jiang var kjörinn forseti Alþýðulýðveldisins Kína árið 1993 og sat í embætti til ársins 2003. Hann sagði af sér sem formaður hermálanefndarinnar árið 2004.

Undir forystu hans upplifði Alþýðulýðveldið Kína gríðarlegar efnahagsumbætur; friðsamlega yfirtöku á stjórnun Hong Kong frá Bretlandi og Makaó frá Portúgal; og bætt samskipti við umheiminn. Á sama tíma hélt kommúnistaflokkurinn fast í stjórnartaumana. Jiang hefur verið gagnrýndur fyrir að vera of annt um persónulega ímynd sína heima fyrir, og fyrir linkind gagnvart Rússlandi og Bandaríkjunum erlendis. Þá hefur hann verið gagnrýndur fyrir veika kennismíð hans byggðum á marxisma. Sumir harðlínumenn í röðum kommúnista telja að á valdatíma Jiang hafi hreinn kapítalismi verið lögleiddur í Kína.

Bakgrunnur

breyta

Jiang Zemin, fæddist þann 17. ágúst 1926 í Yangzhou í Jiangsu-héraði. Fjölskylda hans átti uppruna sinn í Jiangwan þorpi (江湾村) í Wuyuan sýslu (婺源县) í Norður-Jiangxi héraði. Hann ólst upp við hernám Japana á meginlandi Kína. Opinberar heimildir segja Jiang hafa alist upp hjá frænda sínum og fósturföður, Jiang Shangqing, lést í baráttunni gegn Japönum og var talinn sem slíkur píslavottur. Gagnrýnendur hafa sagt lífföður Jiang Shijun föður hans verið svikara sem unnið hafi með Japönum í hernáminu.[2] Jiang nam fjarskiptaverkfræði við Þjóðarháskólanum (e. National Central University) í hertekinni Nanjing-borg. Hann færðist síðar til Sjanghl Jiao Tong háskóla í Sjanghæ-borg, þaðan sem hann útskrifaðist í rafmagnsverkfræði árið 1947.

Jiang tók þátt frá árinu 1943 í námsmannafélagi sem stýrt var af neðanjarðarhreyfingu Kommúnistaflokksins. Hann gekk loks til liðs við flokkinn í apríl 1946.

Árið 1955 hlaut Jiang ársstarfsþjálfun í „Jósef Stalín-bílaverksmiðjunum“ („ZiL“) í Moskvu í Sovétríkjunum. Á árunum 1956- 57, starfaði Jiang í bifreiðaverksmiðjum Changchun borgar (nú FAW Group Corporation).

Árið 1972 ferðaðist Jiang til Rúmeníu þar sem hann dvaldi í tvö ár. Eftir heimkomuna varð hann aðstoðarforstöðumaður í alþjóðasamskiptadeild og síðan árið 1976 forstöðumaður hennar.[3]

Að endingu tók hann við opinberum embættum í Wuhan borg og höfuðborginni Peking, en þar varð hann ráðherra rafmagnsframleiðslu 1982—1985. Sama ár tók hann sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins og gegndi því til 1987. Árið 1985 fór Jiang aftur til Sjanghæ-borgar, þar sem hann gegndri stöðu borgarstjóra til 1987 og stöðu aðalritara flokksins í borginni.

Sem borgarstjóri Sjanghæ fékk hann mismunandi dóma. Gagnrýnendur hans í Sjanghæ líktu honum við „blómavasa“ sem er kínversk lýsing á þeim sem meir eru til skrauts en gagns.[4][5] Þar starfaði hann með hinum frjálslynda Zhu Rongji sem síðar varð aðstoðarforsætisráðherra Alþýðulýðveldisins. Þegar Jiang fékk loks frama gat hann ferðast til útlanda. Það virðist hafa ýtt við honum um að efnahagsumbóta væri þörf heima fyrir. Heimsókn til „fríverslunarsvæða“ á Írlandi og í Singapúr ýtti undir stuðning hans við stofnun sambærilegra svæða í Alþýðulýðveldinu Kína.[3] Jiang fylgdi að því er virtist fast eftir efnahagslegum umbótum Deng Xiaoping og var einn liðsmanna hans.

Jiang var hækkaður í tign árið 1987 þegar hann varð meðlimur fastanefndar miðstjórnar kommúnistaflokksins. Var þar fylgt þeirri hefð að flokksleiðtogi Sjanghæ-borgar taki þar sæti.

Árið 1989 var róstusamt í kínverskum stjórnmálum. Í óeirðum á Torgi hins himneska friðar þótti hinn frjálslyndi Zhao Ziyang aðalritari flokksins og forsætisráðherra, taka of vægt á mótmælendunum. Zhao sem var talsmaður frjálsræðis og efnahagumbóta vildi frekari viðræður við mótmælendur. Flokksforystan leitaði að nýjum manni og horfði til Jiang flokksleiðtoga Sjanghæ sem steig vaxandi mótmælaöldur þar í borg. Þar þótti flokksforystunni honum hafa tekist vel upp með að bæla niður mótmælin. Það gerði hann með hörku.[6] Hann lokaði m.a. dagblaðinu World Economic Herald sem hann taldi „skaðlegt“. Eftir þessu var tekið í höfuðborginni Beijing og Deng Xiaoping meginleiðtoga alþýðulýðveldisins. Þegar mótmælin mögnuðust í höfuðborginni var Zhao Ziyang, sem hingað til hafði verið talinn næsti arftaki Deng Xiaoping, fjarlægður úr starfi og fangelsaður. Jiang varð fyrir valinu óvænt sem nokkurs konar málamiðlun milli frambjóðenda tveggja andstæðra fylkinga. Annars vegar var það Li Ruihuan og hins vegar Chen Yun sem var fulltrúi hins íhaldssama arms Li Peng forsætisráðherra.

Niðurstaða þessa var að Jiang var, árið 1989, kjörinn aðalritari miðstjórnarinnar og formaður hermálanefndar flokksins. Sem stjórnmálamaður kunni Jiang Zemin þá list að vita stöðu sína og sigla milli skers og báru. Sumir sögðu hann þannig vera „pólitískan vindhana“.[7] Hann virtist sem stjórnmálamaður hafa sjötta skilningarvitið sem gerði honum kleift að sjá framtíðina fyrir.[3]

Upphafsár sem leiðtogi

breyta

Þegar Jiang komst til metorða 1989 var hann með tiltölulega veikt bakland sem þýddi að raunveruleg völd hans voru takmörkuð. Hann var álitinn bráðabirgðaleiðtogi uns annar sterkari eftirmaður fyndist. Jafnvel var rætt um að leiðtogar innan hersins, Yang Shangkun og Yang Baibing, hefðu íhugað valdarán. Jiang sem naut stuðnings Deng Xiaoping til forystu fyrstu árin var þó talinn gagnrýnin á markaðsvæðingu landsins. Hann varaði við of miklu frelsi „borgaralegra afla“.

Hafa verður í huga að á þessum tíma voru Sovétríkin í upplausn og kommúnisminn þar í landi kominn að endastöð. Það hafði eðlilega áhrif á pólitískar umræður valdhafa í Alþýðulýðveldinu í Kína. Tryggja yrði meir stöðugleika.

Á fyrsta fundi fastanefndar miðstjórnarinnar eftir átökin á Torgi hins himneska friðar 1989, var Jiang gagnrýninn á fyrri tíma þar sem lögð hafði verið mjög rík áhersla á hagkerfið[8] en stjórnmálin setið á hakanum. Huga yrði meir að hugmyndafræðilegri vinnu og mikilvægi hennar. Jiang vildi auknar áherslur á áróðurmál og markaði fundurinn upphaf nýs tímabils í áróðri og pólitískri hugmyndavinnu. Áróðursdeild flokksins fékk því meiri bjargir, fjármagn og völd. M.a. var hófust hreinsanir innan raða þeirra sem höfðu stutt af mótmælin 1989. Á næstu árum var æ meir sveigt frá markaðsvæðingu efnahagslífsins og annarra efnahagsumbóta.

Árin 1990 -1991 voru kommúnistum erfið víða um heim. Fall kommúnistastjórnarinnar í Póllandi tók tíu ár, tíu mánuði í Ungverjalandi, tíu vikur í Austur Þýskalandi, tíu daga í Tékkóslóvakíu, og 10 klst. í Rúmeníu. Skiljanleg hafði forystan í Alþýðulýðveldinu Kína áhyggjur. Ekki síst Jiang Zemin.[9]

Þann 1. júlí 1991 á 70 ára afmæli Kommúnistaflokksins hélt Jiang ræðu þar sem hann talaði gegn efnahagsumbótum í frjálsræðisátt. Hann vildi að einkafyrirtækin og sjálfstætt starfandi fólk yrði gerð gjaldþrota.[9] Í þessari andstöðu sinni naut hann stuðnings Li Peng forsætisráðherra og róttækra vinstri afla innan flokksins.[10] Horfið skyldi til fyrri vegar sósíalismans. Og Jiang fylgdi með.

En þetta var gagnstætt því sem Deng hafði haldið fram að eina lausnin til réttlæta yfirráð Kommúnistaflokksins væri að halda áfram nútímavæðingu og efnahagsumbótum í frjálsræðisátt. Deng varð því æ gagnrýnni á forystu Jiang árið 1992. Með frægri „Suðurför“ mótmælti Deng því að hægt hefði á efnahagsumbótum. Deng með bakland í foringjum hersins, taldi að „forysta flokksins“ með Jiang í fararbroddi bæri þar mesta ábyrgð. Embættismaðurinn Jiang las rétt í hina pólitísku stöðu og fylkti sér að fullu á bak við efnahagsumbætur Deng. Árið 1993 tók Jiang undir með Deng og talaði fyrir „Sósíalískum markaðsbúskap“ sem myndi færa hið miðstýrða sósíalíska skipulag Alþýðulýðveldisins Kína yfir í hagkerfi sem í meginatriðum var kapítalískt markaðshagkerfi sem ríkisstjórnin myndi skipuleggja með reglusetningu. Þetta hét samkvæmt kennismíð Deng „sósíalismi með kínverskum eiginleikum“.

Eftir að hafa aftur fengið traust Deng kom Jiang mörgum af stuðningsmönnum sínum frá Sjanghæ, til aukinna valda í stjórnkerfinu í Beijing. Hnignað áhrif leiðtogans Deng Xiaoping vegna elli, þýddi að Jiang varð í raun leiðtogi Kína árið 1990. Innan þriggja ára hafði Deng flutt mest völd í ríkinu, flokknum og hernum til Jiang.

Jiang afnam ráðgjafarnefnd flokksins þar sem samanstóð af gömlum og íhaldssömum byltingarhetjum. Hann varð formaður síðan formaður hernefndar flokksins árið 1989, og síðan forseti í mars 1993.

Aðalritari og forseti

breyta

Leiðtoginn Deng Xiaoping dó í byrjun árs 1997 og í Alþýðulýðveldinu Kína voru tímar efnahagsumbóta og stöðugleika á tíunda áratugnum. Engu að síður voru margvísleg efnahagsleg og félagsleg vandamál áberandi. Á jarðarför Deng flutti Jiang honum eftirmæli: í landinu ríkti hömlulaus spilling stjórnvalda og ört vaxandi hagkerfi ógnaði stöðugleika á landinu. Sú hugmynd Deng að „sum svæði gætu orðið efnaðri á undan öðrum“ hafði þýtt gjá í efnahag strandsvæða Kína og strjálbýlli héraða í vestri og norðri. Hinn ótrúlegi hagvöxtur hafði leitt til lokun margra ríkisfyrirtækja og atvinnuleysi var allt að 40% í sumum borgum á landsbyggðinni. Umfang fólksflutninga úr dreifbýli í þéttbýli hafði fá fordæmi í heiminum. Spilling og skipulagðir glæpir voru hvarvetna. Á sama tíma voru bætt umhverfismál að verða æ háværari krafa innanlands.

Stærsta markmið Jiang í efnahagslífinu var meiri stöðugleiki sem fengist best með stöðugri ríkisstjórn með auknu miðstýrðu valdi. Pólitískum umbótum var því slegið á frest. Þrátt fyrir þetta hélt Jiang þó áfram að verja gríðarlegu fjármagni til þróunar fríverslunarsvæða á strandsvæðunum.

Jiang nýtti sér sjónvarp til að bæta eigin ímynd. Árið 1996 beitti Jiang sér fyrir umbótum í ríkisfjölmiðlunum þannig að þeir studdu meir við „leiðtoga landsins“ á kostnað pólitískra andstæðinga Jiang. Þessi persónudýrkun hafði legið í láginni á tímum Deng, og leita þarf til embættisára Mao og Hua Guofeng til að finna sambærilegar áherslur. Kvöldfréttatímar CCTV-1 og „Dagblað fólksins“ settu atburði er tengdust Jiang í forgang.

Og hvert tækifæri var nýtt. Árið 1997 nýtti Jiang jafnvel minningarathöfn Deng Xioping til að minna þjóð sína á hver væri forseti, formaður kommúnistaflokksins og yfirmaður heraflans. Á stórum borða sem hékk framan á svölum Alþýðuhallarinnar stóð: „Látið óuppfylltar óskir Dengs rætast undir leiðsögn flokksins með Jiang Zemin við stýrið.“[11]

Utanríkisstefna Jiang Zemin

breyta
 
Jiang Zemin á leiðtogafundi með Bill Clinton forseta Bandaríkjanna árið 1997. Þeir voru sammála um að ræða ekki ágreining þjóðanna.

Jiang Zemin fór í sögulega heimsókn til Bandaríkjanna árið 1997, þar sem ýmsar mótmælahreyfingar tóku á móti honum allt frá Sjálfstæðishreyfingu Tíbets til hreyfinga er berjast fyrir auknu lýðræði innan Kína. Hann flutti m.a. ræðu á ensku í Harvard-háskóla, en fór ekki varhluta af spurningum um lýðræði og frelsi. Leiðtogafundur með forseta Bandaríkjanna Bill Clinton, var afslappaður þar sem Jiang og Clinton leituðu sameiginlegra áherslna á meðan ágreiningur var ekki ræddur. Clinton heimsótti Alþýðulýðveldið Kína í júní 1998 og undirstrikaði vináttu þjóðanna og samstarf. En þegar sprengjur NATO, undir forystu Bandaríkjanna, lentu á kínverska sendiráðinu í Belgrad árið 1999, mótmælti Jiang mjög harkalega að því er virtist til að ná stuðningi heima fyrir. Helstu utanríkisáherslur Jiang voru á sviði alþjóðlegra viðskipta og efnahagssamstarfs.

Og Jiang Zemin fór víða um heim. Hann kom m.a. til Íslands í opinbera heimsókn um miðjan júní 2002, og átti fund annars vegar með Davíð Oddssyni þáverandi forsætisráðherra og Halldóri Ásgrímssyni þáverandi utanríkisráðherra og hins vegar Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. En Jiang fékk fremur kaldar kveðjur frá íslenskum almenningi, og nokkur hundruð Falun Gong-meðlimum sem ferðuðust til landsins til að mótmæla á meðan heimsókn Jiang stóð.[12] Íslensk stjórnvöld bönnuðu fjölda útlendinga sem ætluðu að taka þátt í mótmælum komu hingað til lands.[13]

Kennismíð um „þrískipt fulltrúahlutverk flokksins“

breyta
 
Kommúnistaflokkurinn gaf út leiðbeinandi bækur hvernig hinu „þrískipta fulltrúahlutverk flokksins“ verði best beitt á hinum ýmsum sviðum allt frá stjórnun flokksins og stjórnvalda til þróun efnahags og hersins.

Áður en Jiang Zemin afhenti völd sín til yngri leiðtoga kynnti hann kenningu sína um „þrískipt fulltrúahlutverk“ flokksins. Með henni kynnti Jiang hugmyndafræði sem kvað á um að Kommúnistaflokkur Alþýðulýðveldisins ætti að vera fulltrúi fyrir félagslega þróuð framleiðsluöfl, háþróaða menningu og hagsmuni yfirgnæfandi meirihluta Kínverja. Samkvæmt þessu á flokkurinn að verða fulltrúi meirihluta fólks í stað eldri kenninga um að flokkurinn sé sértækur byltingarflokkur sem knúnir væru af öreigunum. Að vissu marki opnar þetta fyrir flokksaðild annarra þjóðfélagshópa á borð við kapítalista.

Möguleg túlkun á hinu „þrískipta fulltrúahlutverki“ flokksins er að hann eigi að standa fyrir að þróa framleiðsluöflin, þe. efnahagskerfið, þróaða menningu landsins og tryggja hagsmuni yfirgnæfandi meirihluta Kínverja, þ.e. tryggja pólitíska samstöðu innan Kína. Jiang Zemin sagði á 16. flokksþingi Kommúnistaflokksins í nóvember 2002:

 
Þegar barátta og reynsla síðustu 80 ára er metin og horft er til verkefna og bjartrar framtíðar á nýrri öld, verður Kommúnistaflokkurinn að standa í fremstu röð á hverjum tíma og leiða sigurför fólksins. Flokkurinn verður alltaf að standa fyrir kröfuna um framþróun háþróaðra framleiðsluafla Kína, þróun kínverskrar menningar, og að gæta hagsmuna yfirgnæfandi meirihluta íbúa í Kína.[14]
 

Á 16. þingi Kommúnistaflokksins árið 2002 voru ákvæði um hið „þrískipta fulltrúahlutverk flokksins“ felldar inn í stjórnarskrá hans, ásamt kennismíð Marx-Lenínisma, „Hugsun Mao Zedong“ og „Kenningum Deng Xiaoping“. Þær voru um margt andstæðar marxisma og maóisma, en telast engu að síður til leiðsagnar um framtíðarhugmyndafræði flokksins. Gagnrýnendur telja þessa kennismíð bæði óljósa og bera einkenni áherslu Jiang á eigin persónudýrkun. Með kenningunum hafi Jiang viljað koma sér á stall við hlið hinna kínversku marxísku heimspekinga Mao og Deng. Gallinn sé hins vegar sá að kenningar Jiangs virðist aðeins vera samsafn af slagorðum.[15]

Og kennismíð Jiang flaug hvorki hátt né lengi. „Fjórða valdakynslóð“ undir forystu Hu Jintao, hefur fremur lagt áherslu á opnbera kennismíð Deng Xiaoping. Kenningar Jiang Zemin um hið „þrískipta fulltrúahlutverk“ telst nú einungis opinbert skjal sem vermir stór skjalasöfn flokksins.

Efnahagsstjórn

breyta

Jiang sem var ekki lærður í hagfræði, afhenti árið 1997 stóran hluta stjórnar efnahagsmála til Zhu Rongji, sem varð forsætisráðherra. Undir sameiginlegri stjórn þeirra hélt Alþýðulýðveldið Kína, að meðaltali 8% árlegum hagvexti, sem var einn sá mesti í helstu hagkerfum heims. Þetta náðist að mestu með því að þróa hagkerfið enn frekar í átt til markaðskerfis líkt og Deng Xioping hafi hvatt til. Og breytingarnar voru gríðarlegar: Landbúnaðarkommúnurnar sem Maó formaður var frumkvöðull að, hurfu og þúsundir ríkisfyrirtækja heyrðu sögunni til. Dregið var að mestu úr verðlagseftirliti, stór hluti efnahagslífsins heyrði nú til einkarekstrar, og verslun var nú tiltölulega frjáls. Þátttaka í Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) þýddi að létta yrði meir á viðskiptahöftum og eftirliti á starfsemi erlendra fyrirtækja og fjárfestinga þeirra í kínverskum atvinnuvegum.[16] Aðrir segja að stjórnun kommúnistaflokksins yfir Kína var enn frekar styrkt eftir að inngöngu landsins í Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og enn frekar með Sumarólympíuleikunum í Beijing árið 2008.

Starfslok

breyta
 
George W. Bush og kona hans Laura Bush bjóða Jiang Zemin forseta Alþýðulýðveldisins Kína og konu hans Wang Yeping velkomin á heimili þeirra í Crawford, Texasríki, í október 2002.

Kínverski leiðtoginn Deng Xiaoping valdi á sínum tíma Jiang Zemin– en einnig Hu Jintao. Áður en hann lést 1997 hafði hann ákveðið að Jiang, myndi að lokum víkja fyrir Hu Jintao.[15]

Árið 2002 lét Jiang loks af völdum í miðstjórn kommúnistaflokksins og gaf um leið eftir mikil völd til svokallaðrar „fjórðu kynslóðar" undir forystu undir Hu Jintao. Samkvæmt áætlun Deng gamla um valdaskiptin átti „þriðja valdakynslóð“ kínverskra leiðtoga að víkja fyrir þeirri „fjórðu“, ekki aðeins á efsta þrepi valdastigans heldur í öllu forystuliði kommúnistaflokksins. Það gekk þó hægar eftir því stuðningsmenn Jiang voru margir andvígir valdaskiptaáætlun Deng og höfðu beyg af „fjórðu kynslóðinni“.[15] Það merkti hægfara valdaskipti sem tók nokkur ár. Um leið og Hu tók stöðu aðalritara flokksins var valið í fastanefnd miðstjórnarinnar. Af nýjum meðlimum nefndarinnar voru sex af níu taldir til fylgismanna Jiang sem báru heitið „Sjanghæ-klíkan“

Þó Jiang haldið formennsku í hernefnd flokksins voru flestar nefndarmenn faghermenn. Dagblað „Frelsishersins“ sem talið er að standi fyrir skoðun meirihluta hersins, birti grein 11. mars 2003, sem varaði við þeim vanda að þjóna tveimur herrum. Þetta var víða túlkað sem gagnrýni á tilraun Jiang til að halda í forystutaumana með Hu.

Hu tók við af Jiang sem forseti Alþýðulýðveldisins Kína þann 15. mars 2003. Þrátt fyrir að eiga marga fylgismenn innan miðstjórnarinnar dvínuðu áhrif Jiang á opinbera fjölmiðla hratt.

Á miðstjórnarfundi flokksins 19. september 2004 sagði Jiang af sér sem formaður hernefndar kommúnistaflokksins. Sex mánuðum síðar sagði hann einnig af sér sem formaður hermálanefndar hersins. Það var hans opinbera embætti. Það var löngu áður en starfstímabili hans átti að ljúka. Talið var að stuðningsmenn Hu Jintao hafi þrýst á að Jiang stígi til hliðar. Hann beið þar pólitískan ósigur fyrir Hu. Þetta markaði opinberlega lok valdatímabils Jiang í Alþýðulýðveldinu Kína sem stóð frá árunum 1993 til 2004.

Þó Jiang sjaldan komið fram á opinberum vettvangi frá árinu 2004, hefur það þó gerst af og til þegar hann birtist opinberlega með Hu Jintao. Dæmi um það var þegar herinn fagnaði 80 ára afmæli og við opnunarathöfn Ólympíuleikana í Beijing 2008. Að auki birtist hann með Hu Jintao við skrúðgöngu á 60 ára afmæli Alþýðulýðveldisins Kína í október 2009.

Persónan Jiang Zemin

breyta

Jiang Zemin var lýst með sæmilegt vald á nokkrum erlendum tungumálum, þar á meðal rúmensku, rússnesku, og ensku. Hann þótti njóta sín í viðræðum við erlenda gesti um myndlist og bókmenntir á móðurmáli þeirra, auk þess að syngja erlend lög á frummálinu.

Opinberar fréttastofur Alþýðulýðveldisins segja Jiang hafa lesið mörg frægra verka vestrænna bókmennta, á borð við skáldsögur Mark Twain, Hamlet eftir Shakespeare og erindi úr Óði til vestanvindsins eftir Shelley. Hann þekkti mjög vel verk eftir Lev Tolstoj, Púshkín, Tsjekhov og Túrgenjev. Sömu heimildir segja segja hann ekki einungis unna bókmenntum heldur hafði einnig mörg önnur áhugamál. Hann naut jafnt kínverskrar þjóðlagatónlistar A Bing sem sinfóníutónlistar Mozart og Beethoven. Í frístundum spilaði hann á hefðbundin kínversk hljóðfæri s.s. bambusflautu auk þess sem hann spilaði á vestræn hljóðfæri s.s. píanó. Hann taldi að gersemi kínverskrar og vestrænnar menningar væru sameiginleg andleg auðæfi alls mannkyns.[17]

Jiang Zemin hefur notið gæfu í fjölskyldumálum. Hann og kona Wang Yeping hans eiga tvo syni, og tvö barnabörn, strák og stúlku. Í frítíma sínum hefur hann sinnt barnabörnum vel og kennt þeim sögur, lestur fornra ljóða og enskrar tungu. Þannig hefur Jiang notið þeirra auðnu sem liggur í hefðbundnu kínversku fjölskyldumynstri þar sem kynslóðirnar búa saman undir einu þaki.[17]

Hin pólitíska arfleifð

breyta

Sagnfræðingar og ævisagnaritarar hafa deilt um hvað eigi að telja til „pólitískrar arfleifðar Jiang Zemin“. Jiang sjálfur lagði mikið upp úr því að kennismíð hans um hið „þrískipta fulltrúahlutverk flokksins“ yrði mikilvægur þáttur í hugmyndafræðilegri arfleifð hans. Því lagði hann mikla áherslu á að þær yrðu felldar inn í stjórnarskrá kommúnistaflokksins, ásamt kennismíð Marx-Lenínisma, „Hugsun Mao Zedong“ og „Kenningum Deng Xiaoping“. Þannig kæmist hann á sögulegan stall. Enn er þó óljóst að þessi hugmyndafræðismíð hans ná því, þar sem kennismíð eftirmanna hans, Hu Jintao og sér í lagi Xi Jinping, skyggja verulega á þetta framlag Jiang.

Jiang hefur einnig verið gagnrýndur innan kommúnistaflokksins fyrir að einblína um of á hagvöxt á kostnað afleiðinga markaðskerfisins á borð við umhverfisspjöll, aukna misskiptingu fólks og byggða og aðrar neikvæðar félagslegar afleiðingar. Eftirmenn hans, Hu Jintao og Wen Jiabao, hafa aftur á móti verið taldir sýna meiri viðleitni til að taka á þessum ójafnvægi efnahags og félagsmála. Þeir þykja hafa fært stefnuáherslur frá hagvexti til þátta á borð við heilsu og umhverfi.

Innanlands, eru ólíkar skoðanir um pólitískan arfur Jiang. Sumir telja að valdatími hans hafi einkennst af stöðugleika og vexti. Aðrir telja að Jiang hafi gert lítið í að leiðrétta erfiðar afleiðingar markaðsvæðingar Deng Xiaoping.

Margir Kínverjar hafa ekki gleymt því að valdaframi Jiang byggði á átökunum á Torgi hins himneska friðar og víðar í Kína. Sumir ævisagnaritarar Jiang telja að ríkisstjórn hans hafi fremur verið fáveldisstjórn en ekki flokksræði- eða alræðisstjórn. Hann hefur verið talinn mikill tækifærissinni og er sem slíkur fyrirmynd flokksmanna er nutu góðs af kerfisspillingu á valdatíma hans. Afskipti hans af rannsóknum á spillingarmálum undirstrikuðu þá mynd af Jiang.

Vart verður fjallað um pólitíska arfleifð Jiang Zemin án þess að nefna hversu óhönduglega Jiang tók á málum tengdum Falunggong-hreyfingarinnar, sem er varð vinsæl andleg hreyfing eða trúarhópur á tíunda áratugnum. Að sama skapi verður hans minnst fyrir íhaldssama afstöðu til pólitískra endurbóta.[18]

Það er etv. áhersla Jiang við eigin ímynd eða arfleifð sem vinnur gegn honum. Þessi sjálflægni sem kanna að þykja heillandi eða eðlilega á Vesturlöndum getur einmitt virkað þveröfugt í hinu tiltölulega íhaldssama kínverska samfélagi, þar sem slíkt er talið til hjákátleika og talið til skorts á karakter og innihaldi.

Þegar Jiang Zemin forseti var að láta af völdum var gerð tilraun til ritunar sögulegrar arfleifðar hans með formlegri ályktun miðstjórn Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins. „Hin stórkostlegu afrek undanfarinna 13 ára verða örugglega skráð í hina dýrðlegu sögu hinnar miklu endurfæðingar kínversku þjóðarinnar,“ segir í ályktun miðstjórnarinnar.[19] ― Það á síðan eftir að koma í ljós hve stór þáttur Jiang Zemin verður talinn í hinni merkilegu sögu Kínverja.

Tilvísanir

breyta
 1. „Jiang Zemin fallinn frá“. mbl.is. 30. nóvember 2022. Sótt 2. desember 2022.
 2. „Real Story of Jiang Zemin: Introduction(1)“, Chinaview.wordpress.com, 25 ágúst 2006. Skoðað 17. maí 2010
 3. 3,0 3,1 3,2 Louis Gerber: Bókadómur[óvirkur tengill] (á ensku) um bók Bruce Gilley: „Tiger on the Brink. Jiang Zemin and China's New Elite, Cosmopolis English edition. Skoðað 19. maí 2010
 4. Dagblaðið Vísir - DV: 135. tbl., bls. 12, 15. júní 2002. Tilnefning borgarstjórans í Sjanghæ sem aðalritara kommúnistaflokksins, kom á óvart enda óþekktur á landsvísu. „Í Sjanghæ hafði hann öðlast viðurnefnið „blómapotturinn" sem Kínverjar nota oft fyrir þá sem eru taldir vera meira til skrauts en gagns.“
 5. „BBC: Profile: Jiang Zemin“. BBC. BBC News. Sótt 19. maí 2010.
 6. Tíminn: 293. tbl. bls. 7, 1986.
 7. Dagblaðið Vísir - DV: 135. tbl., bls. 12, 15. júní 2002. Við tilnefningu Jiang sem aðalritara kommúnistaflokksins, var viðurnefnið hans „vindhaninn“ rifjað upp. Um Jiang segir Dagblaðið Vísir: „Hann hefur ætíð forðast hugmyndafræðilega baráttu og hæfileiki hans til að láta aðgerðir ráðast af aðstæðum hefur orðið til þess að hann hefur öðlast annað viðurnefni, „vindhaninn““.
 8. Dagblaðið Vísir- DV: „Herða tökin í Kína“] 142. tbl. bls. 10-11, 1989. Hér er Jiang sagður harðlínumaður í anda Li Peng forsætisráðherra, kunnur fyrir tengsl við eldri ráðamenn og er talinn hlynntur miðstýringu í efnahagsmálum.
 9. 9,0 9,1 The Epoch Times: „Anything for Power: The Real Story of China’s Jiang Zemin“ Geymt 11 desember 2013 í Wayback Machine (á ensku), 2005. Skoðað 22. maí 2010
 10. Þjóðviljinn: 111. tbl. bls. 6, 1989. Sagt frá Jiang, tengslum hans við „öldungaklíkuna“ og ávarpi hans þar sem hann vék verulega frá línu Deng Xiaopings.
 11. Morgunblaðið: 47. tbl. 85. árg., bls. 1, 1997. Hér er sagt frá Jiang við minningarathöfn um Deng Xioping. Morgunblaðið segir hann hafa oft grátið „...með leikrænum tilþrifum við lestur lofgjarðar um leiðtogann látna.“
 12. Encyclopædia Britannica: „Iceland: Year in Review 2002“, Tekið af vefnum 25. maí 2010.
 13. Morgunblaðið: 139. tbl., bls. 39, 15. júní 2002. Í tilefni af opinberri heimsókn Jiang Zemin til Íslands, bönnuðu íslensk stjórnvöld iðkendum Falun Gong og stuðningshreyfingu þeirra að koma til landsins. Til að mótmæla þessu birti hópur undir nafninu „Vinir Falun Gong“ heilsíðuauglýsingu ávarp „til íslensku þjóðarinnar og íslensku ríkisstjórnarinnar“. Þar segir m.a. „Kínverski einræðisherrann, Jiang Zemin, hefur beitt öllum þeim ráðum sem honum eru tiltæk til að standa fyrir hatursherferð sinni, þar með taldar hótanir um efnahagslegar þvinganir gegn erlendum ríkisstjórnum.“
 14. Vefur Alþjóðadeildar Miðstjórnar Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína: [ http://www.idcpc.org.cn/english/policy/3represents.htm Geymt 25 september 2004 í Wayback Machine „On the Three Represents“] (á ensku). Skoðað 22. maí 2010
 15. 15,0 15,1 15,2 Morgunblaðið: „Jiang Zemin tregur til að láta af embætti“, 173. tbl., bls. 22, 26. júlí 2002.
 16. Dagblaðið Vísir - DV: „Markaðstengt flokksræði og einkavædd spilling“, 272. tbl., 2002.
 17. 17,0 17,1 Vefurinn Chinatoday.com: „Who's Who“.Tekið af vefnum: 24. maí 2010
 18. Thomas M. Leonard: Encyclopedia of the developing world, (Kafli um Jiang Zemin), 2006.
 19. Fréttablaðið : 222 tbl. bls. 12, 8. nóv. 2002. Frétt af þingi kommúnistaflokksins þegar Hu tók við af Jian árið 2002

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Zhao Ziyang
Aðalritari kínverska kommúnistaflokksins
(24. júní 198915. nóvember 2002)
Eftirmaður:
Hu Jintao
Fyrirrennari:
Yang Shangkun
Forseti Alþýðulýðveldisins Kína
(27. mars 199315. mars 2003)
Eftirmaður:
Hu Jintao