Nanjing

höfuðborg Jiangsu héraðs í Kína

Nanjing, áður ritað Nanking á latnesku letri, er borg í austurhluta Alþýðulýðveldisins Kína sem stendur við bakka fljótsins Jangtse um 240 km vestan við Sjanghæ.

Nanjing
南京市
Borg og undirhéraðsborg
Myndir af kennileitum Nanjing.
Myndir af kennileitum Nanjing.
Staðsetning Nanjing
Kort af Nanjing
Nanjing er staðsett í Kína
Nanjing
Nanjing
Staðsetning Nanjing borgar í Jiangsu héraði í Kína.
Hnit: 32°03′41″N 118°45′49″A / 32.0614°N 118.7636°A / 32.0614; 118.7636
LandFáni Kína Kína
HéraðJiangsu
StofnunÓvíst (Yecheng, 495 f. Kr. Jinling-borg, 333 f. Kr.)
Stjórnarfar
 • FlokksritariHan Liming
 • BorgarstjóriChen Zhichang
Flatarmál
 • Samtals6,587 km2
Hæð yfir sjávarmáli
20 m
Mannfjöldi
 (2020)
 • Samtals9.314.685
 • Þéttleiki1.237/km2
Póstnúmer
210000–211300
TímabeltiUTC+08:00
Vefsíðahttp://www.nanjing.gov.cn/

Borgin er höfuðborg kínverska héraðsins Jiangsu. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Nanjing um 9,3 milljónir manna.[1] Allt borgarsvæðið nær yfir 6.596 km²

Nafn borgarinnar merkir „syðri höfuðborgin“ og vísar til þess að borgin var höfuðborg Kína frá 317–582, 1368–1421 og 1928–1949. Lýðveldið Kína á Taívan leit enn formlega á Nanjing sem höfuðborg Kína allt fram á tíunda áratuginn, en í reynd hefur höfuðborg Lýðveldisins verið í Taípei frá lokum kínversku borgarastyrjaldarinnar árið 1949.

Saga Nanjing

breyta

Keisaratíminn

breyta

Nanjing er meira en 2.000 ára gömul borg og hefur gengið undir ýmsum nöfnum, meðal annars Jinling, Danyang og Jiangnan. Nafnið Nanjing hefur verið notað frá árinu 1368. Nafnið merkir „syðri höfuðborgin“ og vísar til þess að Nanjing hefur verið höfuðborg Kína á þremur tímabilum; 317–582, 1368–1421 og 1928–1949. Vegna yfirburða sinna í iðnaði, efnahagi og mannfjölda hefur Nanjing löngum verið keppinautur borgarinnar Beijing um áhrif í Kína, jafnvel eftir að Nanjing hætti að vera höfuðborg.

Þegar Tjingveldið komst til valda í Kína var Nanjing formlega nefnd Jiangning en nafnið Nanjing var áfram notað í daglegu tali. Á tíma Tjingveldisins var Nanjing höfuðborg varakonungdæmisins Liangjiang, sem samanstóð af héruðunum Jiangsu, Anhui og Jiangxi. Árið 1853 voru íbúar Nanjing um 800.000 talsins og á gullöld hennar var borgin ein fjölmennasta borg í heimi.

Nanjing kom illa út úr Taiping-uppreisninni á miðri 19. öld. Í febrúar árið 1853 hertóku uppreisnarmenn Nanjing og myrtu marga borgarbúana, sérstaklega Mansjúmenn. Leiðtogi uppreisnarmannanna, Hong Xiuquan, gerði Nanjing að höfuðborg „hins himneska ríkis hins mikla friðar“ og lýsti sjálfan sig „himneskan konung“ þess. Nanjing var í höndum uppreisnarmanna í ellefu ár, en þann 19. júlí 1864 tókst Zeng Guofan, hershöfðingja keisarastjórnarinnar, að endurheimta borginna eftir tveggja ára umsátur. Miklir hlutar borgarinnar voru lagðir í rúst í uppreisninni og fjöldi borgarbúa létu lífið. Margar af merkustu byggingum borgarinnar voru jafnaðar við jörðu, meðal annars hinn frægi Postulínsturn í Nanjing. Turninn, sem var í byggingu frá 1411 til 1430, var átthyrnd 67,5 metra há pagóða með níu hæðir úr múrsteinum og þakinn marglitu postulíni. Hundruðir klukkna og lampa héngu af turninum á kvöldin.

Borgin var endurbyggð eftir uppreisnina en í miklu smærri sniðum. Innan 30 eða 35 km langra borgarmúranna voru því lengi auðar víðáttur og veiðilönd.

Við aldamótin bjuggu bæði Kínverjar og fjöldi Tatara í Nanjing og iðnaður borgarinnar hafði dafnað á ný. Meðal annars var mikið framleitt af bleki, pappír, gerviblómum, silki og bómullarefnum í borginni. Nanjing var einnig ein af helstu menntaborgum Kína og á hverju ári komu um 12.000 námsmenn til að þreyta próf í borginni. Í borginni urðu til umfangsmiklar bókabúðir og prentsmiðjur. Í Nanjing var einnig stór minnihluti múslima sem voru um 50.000 talsins við aldamótin.

Hafnir Nanjing voru opnaðar fyrir breskum kaupskipum árið 1899 eftir samning sem Kína neyddist til að gera við Bretland.[2]

Nanjing á 20. öld

breyta
 
Franskt kort af Nanjing frá árinu 1912.

Eftir Xinhai-byltinguna árið 1912, sem batt enda á stjórn Tjingveldisins, var Nanjing stuttlega höfuðborg Kína á tíma bráðabirgðastjórnar Sun Yat-sen. Þegar Yuan Shikai varð fyrsti forseti Kína síðar sama ár var Beijing valin sem höfuðborg landsins. Árið 1926 hóf Chiang Kai-shek, leiðtogi Kuomintang, norðurleiðangurinn svokallaða til þess að endursameina héruð Kína undir einni stjórn. Chiang og hermenn hans hertóku Nanjing þann 24. mars árið 1927 og fóru ránshendi um eignir útlendinga í borginni. Átök milli hermanna Chiangs og útlendinga í borginni voru kölluð „Nanjing-atvikið“.[3] Chiang tókst að leysa úr ágreiningnum á friðsamlegan hátt og þegar hermenn Chiangs hertóku Beijing árið 1928 var Nanjing viðurkennd sem ný höfuðborg Lýðveldisins Kína. Á stjórnartíð Chiangs var ráðist í stórtæka uppbyggingu í borginni, meðal annars byggingu grafhýsis fyrir Sun Yat-sen.

 
Gamla forsetahöllin í Nanjing

Nanjing kom illa úr úr seinna stríði Japans og Kína. Japanir hertóku borgina í desember árið 1937 og frömdu fjöldamorð á hundruðum þúsunda borgarbúa. Chiang Kai-shek flúði borgina ásamt stjórn sinni og gerði borgina Chongqing að höfuðborg Lýðveldisins Kína til bráðabirgða á stríðstímanum. Árið 1940 stofnaði Wang Jingwei leppstjórn Japana með höfuðborg í Nanjing.

Eftir ósigur Japana í seinni heimsstyrjöldinni varð Nanjing höfuðborg Kína á ný. Í júní árið 1946 kom til átaka milli þjóðernissinna og kommúnista og lokaþáttur kínversku borgarastyrjaldarinnar hófst. Þann 23. apríl árið 1949 hertók alþýðuher kommúnista Nanjing og eftir að þeir lýstu yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína næsta ár flúði stjórn Chiangs til eyjunnar Taívan. Lýðveldið Kína á Taívan leit enn formlega á Nanjing sem höfuðborg Kína fram á tíunda áratuginn.

Stjórnsýsluskipting

breyta

Nanjing skiptist í sex borgarhverfi, þrjú úthverfi og tvær dreifbýlissýslur við bakka Jangtsefljóts.

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Nanjing 7.519.814 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 9.314.685.

Kort Skipting Pinyin Kínverska Mannfjöldi 2010[4] Flatarmál (km2)
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
Borgarhverfi
1 Xuanwu 玄武区 651 957 80,97
2 Qinhuai 秦淮区 1 007 922 50,36
3 Jianye 建邺区 426 999 82,00
4 Gulou 鼓楼区 1 271 191 57,62
5 Yuhuatai 雨花台区 391 285 131,90
6 Qixia 栖霞区 644 503 340,00
Úthverfi
7 Jiangning 江宁区 1 145 628 1 573,00
8 Pukou 浦口区 710 298 913,00
9 Luhe 六合区 915 845 1 485,50
Sveitasýslur
10 Lishui 溧水区 421 323 983,00
11 Gaochun 高淳区 417 729 801,00

Stjórnmál

breyta

Flokksritari Kommúnistaflokksins í Nanjing hefur verið Han Liming frá árinu 2021.[5] Chen Zhichang er borgarstjóri Nanjing.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. Bulletin of the Seventh National Population Census of Jiangsu Province (18. maí 2021). „Seventh National Population Census of the People's Republic of China“. Jiangsu Provincial Bureau of Statistics. Sótt 27. júlí 2022.
  2. Henry George (1934). „Shanghai,: North China Daily News & Herald“. The China Year Book (enska). Wandesforde Woodhead. bls. 181.
  3. Akira Iriye (1965). „Shanghai,: North China Daily News & Herald“. After Imperialism: The Search for a New Order in the Far East, 1921–1931 (enska). Harvard University Press. bls. 125–133.
  4. „Jiangsu Province, General Information“ (enska). GeoHive. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2016. Sótt 4. júní 2020.
  5. Hou Chen (后晨) (8. apríl 2021). 韩立明、赵世勇任省委常委. zgjssw.gov.cn (kínverska). Sótt 30. ágúst 2021.
  6. „Chen Zhichang“ (enska). Heimasíða Nanjing. Sótt 8. apríl 2024.