Gamla testamentið er fyrri hluti Biblíu kristinna manna. Það er að mestu leyti byggt á 24 bókum hebresku biblíunnar, sem eru safn fornra trúarrita Ísraelsmanna á hebresku og arameísku. Hinn hluti kristnu biblíunnar er Nýja testamentið, ritað á grísku.

Rit Gamla testamentisins eru rituð af ólíkum höfundum yfir margar aldir. Samkvæmt kristinni hefð er ritunum skipt í fjóra hluta: Fimmbókaritið samsvarar Torah í hebresku biblíunni, söguritin fjalla um sögu Ísraelsmanna frá hernámi Kananslands til útlegðarinnar í Babýlon, spekiritin fjalla um hið góða og hið illa í heiminum, og spámennirnir fjalla um afleiðingar þess að snúa sér frá guði.

Bækur Gamla testamentisins og röðin sem þær koma fyrir í eru mismunandi eftir kristnum söfnuðum. Í Austurkirkjunni eru bækurnar allt að 49 talsins meðan kaþólska kirkjan er með 46 bækur. Mótmælendur eru oftast með 39 bækur.

Þær 39 bækur sem eru nær alltaf viðurkenndar, eru 24 bækur hebresku biblíunnar með nokkrum breytingum og skiptingum texta (sem skýrir meiri fjölda). Þannig hefur Samúelsbók, Konungabók og Esra-Nehemíabók verið skipt í tvennt, og minni spámennirnir tólf fengið hver sína bók. Aðrar bækur sem Austurkirkjan og Kaþólska kirkjan hafa með í sínum Biblíuútgáfum eru svokallaðar apókrýfar bækur sem voru í sjötíumannaþýðingunni sem vísað er til í Nýja testamentinu, en aldrei alveg sömu bækurnar. Þegar mótmælendaguðfræðingar tóku að endurskoða og þýða Biblíuna á þjóðtungur á 16. öld var þessum ritum oft sleppt þar sem þau voru ekki formlegur hluti af hebresku biblíunni. Sum apókrýfu ritin voru þó með í Guðbrandsbiblíu, fyrstu heildarþýðingu Biblíunnar á Íslensku. Meðal þessara bóka eru Tóbítsbók, Júdítarbók, Speki Salómons o.fl. Flest apókrýf rit eru í Biblíu eþíópísku kirkjunnar (Tewahedo-biblíunni) sem skiptist í alls 81 bók.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.