Jólasveinninn

(Endurbeint frá Jólasveinn)
Þessi síða á við um alþjóðlegu jólapersónuna. Sjá greinina Jólasveinarnir fyrir íslensku jólapersónurnar.

Jólasveinn er þjóðsagnakennd persóna sem sögð er búa á fjöllum uppi eða jafnvel á Norðurpólnum. Hann heldur svo til byggða á aðventunni til að gera sprell og ekki síður til þess að verðlauna þæg börn með gjöfum. Jólasveinar eru því persónur tengdar kristni fyrst og fremst.

Leikari í hlutverki Jólasveinsins heimsækir börn

Jólasveinninn þekkist í fjöldamörgum löndum hins vestræna heims, Evrópu og Ameríku. Jólasveinninn hefur síðustu áratugi iðulega verið klæddur í þykk og hlý rauð föt með hvítum loðkraga. Uppruna hins rauðklædda jólasveins má rekja til heilags Nikulásar sem var biskup í borginni Mýra í Tyrklandi á 4. öld e.Kr. Nikulás var meðal annars verndardýrlingur sæfarenda, kaupmanna, menntasetra og barna. Síðar varð hann þekktur sem gjafmildur biskup, klæddur purpuralitaðri kápu með mítur á höfði, sem deildi út gjöfum til bágstaddra en einkum til barna.

Á 4. áratug 20. aldar hóf Coca-Cola hina frægu auglýsingaherferð sína þar sem jólasveinninn var í aðalhlutverki. Ef til vill hefur sú herferð orðið til þess að festa ákveðna ímynd jólasveinsins í sessi en víst er að þessi ímynd hafði verið til um skeið og var ekki uppfinning Coca-Cola.

Sjá einnig breyta

Tenglar breyta

* „Hvað getið þið sagt mér um jólasveina?“. Vísindavefurinn.