Steinunn Jóhannesdóttir
Steinunn Jóhannesdóttir eða Steinunn Alice J. Hayes (19. janúar 1870 - 14. mars 1960) var fyrsta íslenska konan sem tók læknapróf. Hún var fædd og uppalin á Hvalfjarðarströnd og fór að heiman 16 ára þegar hún réð sig sem vinnukonu í Reykjavík. Árið 1888 þegar hún var 18 ára gömul flutti hún til Vesturheims og fór þá fyrst til Winnipeg í Kanada og síðan til Norður-Dakóta og svo til Chicago. Þar fór hún á trúboðsskóla og tók prestvígslu. Hún starfaði sem aðstoðaprestur í Indíana og var svo trúboðsprestur meðal Kínverja í Oregon og aðstoðarprestur í Los Angeles í kirkju babtista. Hún fór í læknanám í University of Southern California, School of Education og lauk því 11. febrúar 1902. Hún giftist skólabróður sínum úr læknanáminu, Charles Arthur Hayes, en hann var skurðlæknir og trúboði. Þau fóru til Kína árið 1902 og störfuðu þar í 40 ár sem læknar og trúboðar. Þau fóru fyrst í kínverskunám á eyjunni Macao og síðar til Hong Kong og Canton. Árið 1909 fóru þau í eins árs leyfi og fengu fararleyfi til Íslands og Bandaríkjanna. Þegar Japanir réðust inn í Kína í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar var mikill straumur særðra og hungraðra flóttamanna í trúboðsstöðina hjá þeim og voru það þúsundir á dag þegar mest var. Dvöl Steinunnar og Charles í Kína lauk með fangavist frá 1939 - 1942. Þeim var fyrst bannað að stunda trúboð, síðan voru þau hneppt í stofufangelsi og máttu ekki sinna læknisstörfum og svo voru þau sett í fangelsi. Þau komust frá Kína í fangaskiptum og komust til Shanghai árið 1942 og þaðan með skipi til Bandaríkjanna.
Steinunn kom í tveggja vikna heimsókn til Íslands árið 1909 með manni sínum og syni. Hún hélt þá fræðsluerindi um störf þeirra í Kína. Hún kom aftur í heimsókn til Íslands árið 1950.