Holdsveiki
Holdsveiki (einnig kallað líkþrá) er smitsjúkdómur sem orsakast af bakteríunni Mycobacterium leprae sem er skyld berklabakteríu (M. tuberculosis). Holdsveikibakterían leggst sérstaklega á kaldari svæði líkamans svo sem fingur, tær, eyru og nef. Holdsveikibakterían finnst í mönnum, beltisdýrum og sumum apategundum. Limafallssýki er oft haft um holdsveiki almennt, en einnig um þá tegund holdsveiki sem veldur dofa í höndum og fótum (lepra anaesthetica).
Holdsveiki hefur verið útrýmt á Íslandi. Holdsveiki er þó ennþá landlægur sjúkdómur í mörgum löndum, sérstaklega á Indlandi. Talið er að holdsveiki smitist við snertingu, í gegnum innöndun, af smituðum jarðvegi eða gegnum bit skordýra. Meðgöngutími sjúkdómsins getur verið langur eða frá 1-2 árum upp í 40 ár. Holdsveiki leggst á taugar í útlimum og getur valdið tilfinningaleysi, krepptum vöðvum og lömunum. Nú er til auðveld lækning við holdsveiki en skemmdir á taugum og öðrum vefjum eru þó varanlegar.
Hallgrímur Pétursson skáld dó úr holdsveiki. Fyrstu ljósmyndirnar af Íslendingum voru teknar af holdsveikisjúklingum. Sérstakt herbergi er í lækningasafninu í Nesstofu um holdsveiki.
Líf holdsveikra fyrr á öldum
breytaHoldsveikir voru útskúfaðir úr samfélaginu og oft einangraðir í sérstökum holdsveikranýlendum. Maður sem var sýktur af holdsveikir var nefndur spillingi, og menn voru sagðir spilltir á fingrum eða andliti, eða eins og segir á einum stað í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: Einar varð stundum eins og spilltur maður í andlitinu eða holdsveikur af útbrotum með hrúðum og kýlum og rispum.
Holdsveikir menn þurftu að bera með sér rellu eða bjöllu og gefa til kynna komu sína svo aðrir gætu forðast samneyti við þá. Fyrr á öldum var algengt að allir sem þjáðust af húðsjúkdómum svo sem sóragigt, húðkrabbameini eða kýlum væru taldir holdsveikir. Á tólftu öld voru holdsveikissjúklingar í Evrópu einangraðir í sérstökum húsum.
Holdsveiki var talin merki um syndir mannsins. Stundum var settur sérstakur lágur gluggi í kirkjur fyrir holdsveika þannig að þeir gætu fylgst með guðsþjónustum án þess að smita þá sem inni voru. Holdsveikir þurftu á miðöldum að vera í sérstökum klæðnaði og urðu að búa utan borgarmarka á afmörkuðum svæðum og strangar reglur giltu um samneyti þeirra við aðra borgara. Á tuttugustu öldinni voru holdsveikir einnig neyddir til að búa í einangrun, oft í sérstökum holdsveikranýlendum.
Holdsveikraspítalar á Íslandi
breytaHoldsveiki barst fyrst til Íslands á þrettándu öld. Útbreiðsla sóttarinnar virðist hafa verið hæg í fyrstu, en á sextándu öld var hún orðin útbreidd og skaðvæn. Var þá farið að ræða um að stofna sérstaka holdsveikraspítala hér á landi. Framkvæmdin dróst í heila öld, en með konungsbréfi 1651 var heimilað að stofna fjóra spítala, einn í hverjum landsfjórðungi. Þessir staðir voru ekki líkir spítölum nútímans, þangað kom fátækt fólk, hreppsómagar og flækingar. Ekki var þar heldur mikil von um lækningu, enda engir læknar starfandi við stofnanirnar og hreinlæti lélegt.
Þessir staðir voru aflagðir með konungsúrskurði 12. ágúst 1848, enda höfðu velflestir vistmennirnir látist í mislingafaraldri sama ár. Næstu hálfu öldina áttu holdsveikir Íslendingar því í engin hús að venda. Dönskum lækni sem ferðaðist um landið undir lok nítjándu aldar rann til rifja aðstöðuleysið og hvatti félaga sína í dönsku Oddfellow-hreyfingunni til að koma til aðstoðar. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður árið 1898 fyrir danskt gjafafé en spítalahúsið brann 1943. Síðustu íslensku holdsveikisjúklingarnir voru vistaðir á Kópavogshæli og voru þar í einangrun.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Leprosy“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. febrúar 2006.
- Um holdsveiki eður limafallssýki eptir Edward lækni Johnsen, Ný félagsrit, 1873, bls 77-100
- Sæmundur Bjarnhéðinsson, Ágrip af sögu holdsveikinnar á Íslandi, Skírnir,01.08.1910, Blaðsíða 229
- Robt. J. Kirk and EDV. EHLERS,Leprocy in Iceland, Public Health Reports (1896-1970) Vol. 11, No. 8 (February 21, 1896), pp. 168-171