Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur

Önnur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021 og skipaði hún, eins og í fyrri ríkisstjórn Katrínar sem starfaði frá 2017-2021, Vinstri græna, Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Ríkisstjórnarmyndun og kynning stjórnarsáttmála drógst á langinn vegna rannsóknar undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa á brotum kosningalaga við talningu í Norðvesturkjördæmi en það var loks afgreitt á Alþingi 25. nóvember 2021. Flokkarnir héldu þingmeirihluta sínum í Alþingiskosningunum 2021, fengu 37 þingmenn kjörna, eitt þingsæti bættist síðar við tveimur vikum eftir kosningar er Birgir Þórarinsson gekk úr Miðflokknum og yfir í Sjálfstæðisflokkinn og þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar því 38 þingmenn.[1] Ríkisstjórnin var kynnt á Kjarvalsstöðum og í henni sitja 12 ráðherrar sem skiptist þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fimm ráðuneyti auk embættis Forseta Alþingis, Framsóknarflokkurinn hefur fjögur og Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur þrjú. Ráðherrum var fjölgað úr 11 í 12 og ráðuneytum úr 10 í 12 frá fyrri ríkisstjórn og verkefni færð til á milli ráðuneyta.[2]

Þann 5. apríl 2024 tilkynnti Katrín að hún myndi láta af embætti forsætisráðherra og gefa kost á sér í forsetakosningunum 2024. 9. apríl 2024 var mynduð ný ríkisstjórn, annað ráðuneyti Bjarna Benediktssonar með sömu þremur flokkunum, og tók hún við 10. apríl 2024.

Nafn Embætti Flokkur
Katrín Jakobsdóttir Forsætisráðherra Vinstri grænir
Guðmundur Ingi Guðbrandsson Félags og vinnumarkaðsráðherra
Svandís Svavarsdóttir Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Bjarni Benediktsson (frá 28. nóvember 2021 til 14. október 2023) Fjármála- og efnahagsráðherra Sjálfstæðisflokkurinn
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (frá 14. október 2023 til 10. apríl 2024)
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (frá 28. nóvember 2021 - 14. október 2023) Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra
Bjarni Benediktsson (frá 14. október 2023 til 10. apríl 2024)
Guðlaugur Þór Þórðarson Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
Jón Gunnarsson (frá 28. nóvember 2021 til 18. júní 2023) Innanríkisráðherra
Guðrún Hafsteinsdóttir (frá 19. júní 2023 til 10. apríl 2024)
Willum Þór Þórsson Heilbrigðisráðherra Framsóknarflokkurinn
Sigurður Ingi Jóhannsson Innviðaráðherra
Lilja Alfreðdóttir Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra
Birgir Ármannsson Forseti Alþingis Sjálfstæðisflokkurinn

Tilvísanir breyta

  1. Jónsdóttir, Hallgerður Kolbrún E. „Birgir Þórarins­son gengur til liðs við Sjálf­stæðis­flokkinn vegna Klausturs­málsins - Vísir“. visir.is. Sótt 29. nóvember 2021.
  2. „Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur skipað“. www.stjornarradid.is. Sótt 29. nóvember 2021.