Ásmundur Einar Daðason

íslenskur stjórnmálamaður

Ásmundur Einar Daðason (fæddur 29. október 1982) er mennta- og barnamálaráðherra Íslands, alþingismaður Framsóknarflokksins í Reykavíkurkjördæmi Norður.[1] Áður en Ásmundur Einar var kjörinn á þing starfaði hann sem sauðfjárbóndi á Lambeyrum í Dalasýslu og rak hann þar innflutnings- og sölufyrirtæki með vörur fyrir landbúnað til 2011. Hann var formaður félags sauðfjárbænda í Dalasýslu.

Ásmundur Einar Daðason (ÁsmD)
Mennta- og barnamálaráðherra Íslands
Núverandi
Tók við embætti
28. nóvember 2021
ForsætisráðherraKatrín Jakobsdóttir
Bjarni Benediktsson
ForveriLilja Alfreðsdóttir
Félags- og barnamálaráðherra Íslands
Í embætti
30. nóvember 2017 – 28. nóvember 2021
ForsætisráðherraKatrín Jakobsdóttir
ForveriÞorsteinn Víglundsson
EftirmaðurGuðmundur Ingi Guðbrandsson
Alþingismaður
frá til  kjördæmi    þingflokkur
2009 2011  norðvestur  Vinstri græn
2011 2016  norðvestur  Framsóknarfl.
2017 2021  norðvestur  Framsóknarfl.
2021    Reykjavík n.  Framsóknarfl.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. október 1982 (1982-10-29) (42 ára)
Reykjavík
StjórnmálaflokkurFramsóknarflokkurinn
Æviágrip á vef Alþingis

Menntun og fyrri störf

breyta

Ásmundur er menntaður sem búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 2002 og árið 2007 lauk hann B.Sc.-próf í almennum búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ásmundur Einar sat í stúdentaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, Hvanneyri, 2001-2002, var formaður þess 2004-2005. Formaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu 2005-2010 og Formaður svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í Dölum 2005-2007. Þá sat hann í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands 2009.[2]

Stjórnmálaferill

breyta

Ásmundur var þann 15. nóvember 2009 kosinn formaður Heimssýn, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

Ásmundur Einar var kjörinn á þing fyrir Vinstrihreyfinguna-grænt framboð en sagði sig svo úr þingflokki þeirra þegar hann studdi vantrauststillögu á ríkisstjórnina 13. apríl 2011. Sagði Ásmundur að hann studdi ríkistjórnina ekki í mörgum málum þar á meðal Evrópumálunum.[3]

Ásmundur Einar var einn þeirra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar sem hafði miklar efasemdir við Icesave samkomulagið og sat meðal annars í fjárlaganefnd á þeim tíma, var hann beittur miklum þrýstingi að samþykkja málið. [4]

Þann 1. júní 2011 gekk Ásmundur Einar til liðs við Framsóknarflokkinn. [5]

Ásmundur Einar var kjörinn aftur á þing vorið 2013 þá fyrir Framsóknarflokkinn. Skipaði hann annað sæti lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.[6] Ásmundur Einar sat á þingi frá 2013-2016 og settist svo aftur á þing eftir Alþingiskosningar haustið 2017.

Ráðherraferill

breyta

Hann tók við embætti félags- og jafnréttismálaráðherra það ár. Hann breytti hins vegar ráðherratitli sínum til þess að endurspegla áherslu sína á málefni barna hinn 31. desember 2018 yfir í að vera félags- og barnamálaráðherra.

Í ráðherratíð sinni lýsti Ásmundur Einar því yfir að hans aðaláherslumál yrðu málefni barna og að í því fælist að hann vildi gera miklar breytingar á því kerfi sem þjónustar börn á Íslandi. Meðal annars þyrfti að gera barnið að hjartanu í kerfinu þannig að þjónustuveitendur kæmu til barnsins en ekki öfugt og nauðsynlegt væri að mismunandi þjónustukerfi hefðu vettvang þar sem þau gætu betur unnið saman en ekki sitt á hvað.

Árið 2020 steig Ásmundur Einar fram í viðtali við Morgunblaðið og lýsti æsku sinni og uppeldi og þeim áhrifum sem reynsla hans hafi haft á hans fullorðinsár. Á grunni þeirrar reynslu sinnar hefur Ásmundur Einar þekkingu á því hvernig er að vera barn þar sem ekki sé alveg allt með felldu í nærumhverfinu og aðstoðar þörf. Má með sanni segja að þessi reynsla hafi verið einn helsti hvatinn að því að aðaláherslumál Ásmundar Einars þegar hann hlaut embætti félagsmálaráðherra hafi verið málefni barna og ein ástæða þess að hann hafi breytt embættistitlinum yfir í að vera félags- og barnamálaráðherra.

Árið 2020 lagði Ásmundur Einar fram á Alþingi frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið er afurð mikils og góðs samstarfs, þvert á þingflokka innan þings kjörtímabilsins sem það var lagt fram á, og er til marks um þá sýn að málefni barna séu hafin yfir hefðbundna flokkadrætti. Frumvarpið miðar að því að þau kerfi sem veita börnum, og aðstandendum þeirra, þjónustu séu samþætt á þann hátt sem lýst var hér áður og geti betur unnið saman að farsæld barna sem þau veita þjónustu.

Frumvarpinu fylgdu tvö önnur frumvörp, annars vegar frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu og hins vegar frumvarp til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Um tvær nýjar stofnanir, á grunni eldri stofnana, er að ræða sem ætlað er að framfylgja lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frekari umfjöllun um málið má finna í stuttu yfirliti hér.

Frumvörpunum fylgdi fjárhagslegt mat á ávinningi þeirra breytinga sem til er boðað í frumvörpunum sjálfum. Utanaðkomandi hagfræðingur framkvæmdi matið og kom þar í ljós að fjárfesting af þeim toga sem frumvörpin fela í sér til breytinga á kerfum sem veita börnum þjónustu geta annars vegar fækkað þeim áföllum sem börn verða fyrir sem og aðstoðað þau við að takast á við þau áföll sem verða. Fjárfesting af þessum toga skilar, samkvæmt matinu, um 11% ávöxtun fyrir íslenska ríkið, sem er sambærileg ávöxtun og við allra arðbærustu fjárfestingar ríkisins hingað til (sbr. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Kárahnjúkavirkjun). Meira hér.

Ásmundur Einar hyggst einnig leggja fram frumvarp til breytinga á fleiri lögum til þess að styðja við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þar ber hæst að miklar breytingar eru fyrirhugaðar á barnaverndarlögum, auk þess sem breyta mun þurfa lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar að auki munu koma fram frumvörp til breytinga á öðrum lögum er varða þau kerfi sem veita börnum farsældarþjónustu, til að mynda í menntakerfi og heilbrigðiskerfi.

Barnvænt Ísland er verkefni sem sett var á fót í samstarfi félagsmálaráðuneytisins og Unicef á Íslandi. Í því felst að gera á öll sveitarfélög á Íslandi formlega barnvæn, þ.e. að þau taki Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna inn í stjórnkerfi sín og veiti börnum þá stöðu og áheyrn sem í sáttmálanum felst. Fjölmörg sveitarfélög hafa óskað eftir því að taka þátt, 12 sveitarfélög hafa hafið vegferð sína og eitt sveitarfélag (Akureyrarbær) varð fyrsta barnvæna sveitarfélag Íslands á árinu 2020. Þátttöku í verkefninu fylgir aðgangur að notkun mælaborðs á velferð barna Geymt 27 febrúar 2021 í Wayback Machine (sjá útlit hér), sem verður öflugt stjórntæki hvað varðar velferð og hagstjórn innan sveitarfélagsins. Mælaborðið hefur þegar hlotið alþjóðleg verðlaun Geymt 15 febrúar 2021 í Wayback Machine.

Í upphafi kjörtímabils lagði Ásmundur Einar upp með að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof, sem áttu 20 ára afmæli árið 2020, og á afmælisárinu að koma með frumvarp til nýrra laga þar sem fæðingarorlof yrði lengt úr 9 mánuðum í 12 mánuði. Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof voru samþykkt í lok árs 2020 og öll börn sem fæðast, eru tekin í varanlegt fóstur, eða ættleidd 1. janúar 2021 eða síðar, geti notið umönnunar beggja foreldra sinna (sé tveimur foreldrum til að dreifa) heima við í 12 mánuði. Meginreglan er sú að orlofstímabilið skiptist að jöfnu milli beggja foreldra, þ.e. hálft ár/hálft ár, en 1,5 mánuður er framseljanlegur milli foreldra. Þá er í nýjum lögum einnig tekið enn meira tillit en áður til þeirra aðstæðna þar sem aðeins einu foreldri er til að dreifa, af margvíslegum orsökum. Einnig er komið fjárhagslega til móts við þá foreldra sem þurfa að ferðast um langan veg til að sækja fæðingarþjónustu. Síðast en ekki síst er orðalag nýju laganna kynhlutlaust, þ.e. ekki er rætt um ,,móður" eða ,,föður", heldur ,,foreldri" í öllum tilvikum.

Á árinu 2020 lagði Ásmundur Einar einnig fram frumvarp til laga um hlutdeildarlán sem varð að lögum í september það ár. Markmið hlutdeildarlána er að auðvelda ungum einstaklingum og tekjulægri að eignast eigið húsnæði. Hlutdeildarlán virka þannig að sú fjárhæð sem einstaklingar þurfa að reiða af hendi til kaupa á húsnæði lækkar umtalsvert, eða niður í 5% af markaðsvirði. Ríkið kemur til móts við einstaklinginn með 20% hlutdeildarláni og það sem eftir stendur tekur einstaklingurinn að láni frá fjármálastofnun. Hlutdeildarlán bera ekki vexti á lánstímanum en endurgreiðast við sölu fasteignarinnar í sama hlutfalli, þ.e. 20% af söluvirði eignarinnar. Þannig tekur ríkið á sig áhættu af lækkun markaðsverðs til móts við einstaklinginn en nýtur einnig góðs af því hafi verð hækkað, líkt og einstaklingurinn sjálfur.

Ásmundur Einar hefur tilkynnt að hann hyggist bjóða sig fram til þings að nýju í kosningum árið 2021, en ekki í sínu gamla kjördæmi (NV-kjördæmi) heldur í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Stjórnmálaflokkur Ásmundar Einars hefur átt undir högg að sækja í kjördæminu undanfarin ár, en Ásmundur Einar telur að flokkurinn þurfi að ná fótfestu í þéttbýli til þess að halda áfram að vera leiðandi afl kerfisbreytinga á borð við áframhaldandi breytingar í málefnum barna á Íslandi.

Tenglar

breyta

Heimildir

breyta
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.