Úsbekistan
Úsbekistan (úsbekíska: Oʻzbekiston) er tví-landlukt land í Mið-Asíu með landamæri að Kasakstan í vestri og norðri, Kirgistan og Tadsikistan í austri og Afganistan og Túrkmenistan í suðri. Sjálfstjórnarlýðveldið Karakalpakstan nær yfir allan norðvesturhluta landsins. Úsbekistan er annað af tveimur tvílandluktum löndum heims; hitt er Liechtenstein.
Úsbekistan | |
O‘zbekiston Respublikasi | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: O'zbekiston Respublikasining Davlat Madhiyasi | |
Höfuðborg | Taskent |
Opinbert tungumál | úsbekíska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Shavkat Mirziyoyev |
Forsætisráðherra | Abdulla Aripov |
Sjálfstæði | |
• frá Sovétríkjunum | 1. september 1991 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
56. sæti 448.978 km² 4,9 |
Mannfjöldi • Samtals (2020) • Þéttleiki byggðar |
41. sæti 34.588.900 74,1/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2020 |
• Samtals | 275,806 millj. dala (55. sæti) |
• Á mann | 1.831 dalir (144. sæti) |
VÞL (2019) | 0.720 (106. sæti) |
Gjaldmiðill | úsbekskur som (UZS) |
Tímabelti | UTC+5 |
Þjóðarlén | .uz |
Landsnúmer | +998 |
Til forna var landsvæðið sem nú er Úsbekistan hluti af írönskumælandi héruðunum Transoxíana og Turan. Fyrstu íbúar sem heimildir eru til um voru hirðingjaþjóðin Skýþar sem stofnuðu ríkin Khwarazm, Baktríu, Sogdíu, Fergana og Margiana í fornöld. Landið varð hluti af ríki Akkamenída og síðan Parþaveldinu, eftir stutt skeið undir yfirráðum Makedóna. Sassanídar ríktu þar fram að landvinningum múslima á 7. öld. Á þeim tíma varð íslam ríkjandi trúarbrögð á svæðinu og borgirnar Búkara, Khiva og Samarkand blómstruðu sem áfangastaðir á Silkiveginum frá Kína. Þar fæddust rithöfundar sem höfðu mikil áhrif á Gullöld íslams, eins og Muhammad al-Bukhari, Al-Tirmidhi, Ismail Samani, al-Biruni og Avicenna. Khwarazm-veldið féll við innrásir Mongóla á 13. öld og tyrkískar þjóðir lögðu landið undir sig. Mongólski herforinginn Tímúr fæddist þar í borginni Shahrisabz. Hann stofnaði Tímúrveldið á 14. öld með Samarkand sem höfuðborg. Þar var miðstöð Tímúrendurreisnarinnar undir forystu Ulugh Beg. Á 16. öld réðust Úsbekar inn í landið frá heimaslóðum sínum norðan Aralvatns og stofnuðu Búkarakanatið. Landsvæðið skiptist þá í þrjú ríki: Khiva-kanatið, Kokandkanatið og emíratið Búkara. Babúr, stofnandi Mógúlveldisins á Indlandi, fæddist í Andijan við Fergana á 15. öld og flúði þaðan undan árásum Úsbeka. Á 19. öld hófu Rússar að leggja löndin í Mið-Asíu undir sig. Taskent varð höfuðstaður Rússneska Túrkestans. Úsbekistan varð hluti af Sovétríkjunum sem Sovétlýðveldi Úsbeka árið 1924. Landið lýsti yfir sjálfstæði við upplausn Sovétríkjanna 31. ágúst 1991. Islam Karimov, forseti sovétlýðveldisins, var kjörinn fyrsti forseti landsins og sat hann í embætti þar til hann lést árið 2016.
Menningarlega er Úsbekistan mjög fjölbreytt vegna sögu landsins og legu þess. Úsbekíska er opinbert mál landsins. Úsbekíska er tyrkískt mál skrifað með latínuletri og er talað af um 85% íbúa. Rússneska er útbreidd sem samskiptamál og í stjórnsýslunni. Úsbekar eru um 81% landsmanna, en þar á eftir koma Rússar (5,4%), Tadsikar (4%), Kasakar (3%) og aðrir (6,5%). Um 79% íbúa eru múslimar, 5% fylgja rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og 16% aðhyllast önnur trúarbrögð eða eru trúlaus. Meirihluti Úsbeka eru múslimar utan fylkinga. Úsbekistan er aðili að Samveldi sjálfstæðra ríkja, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Sameinuðu þjóðunum og Samvinnustofnun Sjanghæ. Landið er opinberlega skilgreint sem lýðveldi, en mannréttindasamtök hafa skilgreint Úsbekistan sem „alræðisríki með takmörkuð borgararéttindi“.[1]
Sem sjálfstætt lýðveldi er Úsbekistan veraldlegt, miðstýrt forsetaræði. Landið skiptist í 12 héruð (viloyatlar), borgina Taskent og sjálfstjórnarlýðveldið Karakalpakstan. Taskent er bæði stærsta borg landsins og höfuðborgin. Shavkat Mirziyoyev, sem tók við forsetaembætti eftir lát Karimovs, breytti um stefnu sem var lýst sem „byltingu að ofan“. Hann lýsti því yfir að hann hygðist binda endi á nauðungarvinnu í bómullarframleiðslunni, kerfislæga barnaþrælkun og útgönguáritanir. Hann hugðist endurhæfa skattkerfið og koma á frísvæðum. Hann náðaði nokkra samviskufanga. Samskipti landsins við nágranna sína, Kirgistan, Tadsíkistan og Afganistan, stórbötnuðu.[2][3][4][5] Í skýrslu Amnesty International fyrir 2017/2018 var sagt frá því að þrátt fyrir töluverðar umbætur væru enn til staðar þvingandi reglur og skortur á réttarreglum, hluti verkafólks á bómullarökrum væri enn í nauðungarvinnu, auk þess sem samviskufangar sem hefðu verið látnir lausir byggju við takmarkað frelsi.[6] Skýrsla Human Rights Watch frá 2020 fagnaði umbótunum, en gagnrýndi mikil völd öryggissveita, áframhaldandi útbreidda nauðungarvinnu í bómullariðnaðinum, og ógnanir við stofnanir réttarríkisins.[7]
Efnahagslíf Úsbekistan byggist aðallega á framleiðslu hrávöru eins og bómullar, gulls, úrans og jarðgass. Í Úsbekistan eru fjórðu mestu gullnámur heims. Vöxtur hefur verið hraður en þróun frá áætlunarbúskap í markaðsbúskap hefur verið mjög hæg. Gjaldmiðill landsins hefur verið skiptanlegur á markaðsvirði frá því í september 2017. Úsbekistan er stór bómullarframleiðandi á heimsvísu. Í landinu eru risavaxin orkuver frá Sovéttímanum sem, auk stórra jarðgaslinda, gera Úsbekistan að stærsta orkuframleiðanda Mið-Asíu.[8] Árið 2018 fékk landið lánshæfismatið BB-. Meðal styrkleika landsins eru aðgengi að veltufjármagni, mikill vöxtur og lágar skuldir; en meðal veikleika eru lág verg landsframleiðsla miðað við höfðatölu.
Heiti
breytaNafnið „Uzbegistán“ kemur fyrir í ritinu Tarikh-i Rashidi frá 16. öld.[9]
Viðskeytið -stan kemur úr írönskum málum og merkir „staður“ eða „land“. Þrjár tilgátur eru til um uppruna fyrri hlutans:
- „frjáls“, „sjálfstæður“ eða „eigin herra“, úr uz („eigin“) og bek („leiðtogi“),[10]
- dregið af heiti Oghuz kan sem er líka þekktur sem Oghuz beg,[10]
- samsetning úr Uğuz, áður Oğuz, það er Oghuz-tyrkir, og bek „leiðtogi Oghuz-tyrkja“.[11]
Allar þrjár tilgáturnar ganga út frá því að miðhlutinn sé dreginn af tyrkíska titlinum beg.
Landfræði
breytaÚsbekistan er 447.400 ferkílómetrar að stærð. Það er 56. stærsta land heims og það 42. fjölmennasta.[12] Innan SSR er það það 4. stærsta og 2. fjölmennasta.
Úsbekistan liggur milli 37. og 46. breiddargráðu norður, og 56. og 74. lengdargráðu austur. Landið er 1.425 km á lengd frá vestri til austurs, og 930 km á breidd frá norðri til suðurs. Úsbekistan á landamæri að Kasakstan og Aralkumeyðimörkinni í norðri og norðvestri, Túrkmenistan og Afganistan í suðvestri, Tadsíkistan í suðaustri, og Kirgistan í norðaustri. Landið er stærsta Mið-Asíuríkið og það eina sem á landamæri að öllum hinum fjórum. Landamærin að Afganistan eru aðeins 150 km að lengd.
Úsbekistan er þurrt landlukt land. Það er annað tveggja landa heims sem er tvílandlukt, eða umkringt landluktum löndum (hitt er Liechtenstein). Landið liggur innan klasa af dældum og engin af ám þess rennur til sjávar. Innan við 10% af landsvæðinu er ræktarland með áveitum, við ár og í vinjum og áður við Aralvatn, sem var þurrkað upp. Þurrkun Aralvatns hefur verið kölluð eitt af stærstu umhverfisslysum sögunnar.[13] Afgangurinn af landinu liggur í Kysylkumeyðimörkinni og í fjalllendi.
Hæsta fjall Úsbekistan er Hazrat Sulton, 4.643 metrar á hæð. Það er í suðurhluta Gissarfjalla í Surxondaryo-héraði við landamærin að Tadsíkistan, suðvestan við Dúsjanbe.
Þurrt meginlandsloftslag er ríkjandi í Úsbekistan og meðalúrkoma er aðeins 100-200 mm árlega. Meðalháhiti á sumrin er nálægt 40°C og meðallághiti á veturnar er í kringum -25°C.
Í Úsbekistan eru sex vistsvæði: Alai-Vestur-Tian Shan-steppan, Gissaro-Alai-skógarnir, Bagdhyz og Karabil-hálfeyðimörkin, Norðureyðimörkin í Mið-Asíu, Árskógarnir í Mið-Asíu og Suðureyðimörkin í Mið-Asíu.[14]
Stjórnmál
breytaStjórnsýslueiningar
breytaÚsbekistan skiptist í tólf héruð (viloyatlar, eintala viloyat), eitt sjálfstjórnarlýðveldi (Karakalpakstan) og eina sjálfstjórnarborg (Taskent).
Hérað | Höfuðstaður | Stærð (km2) |
Íbúar (2008)[15] | Nr. |
---|---|---|---|---|
Andijan-hérað | Andijan | 4.303 | 2.965.500 | 2 |
Búkarahérað | Búkara | 41.937 | 1.843.500 | 3 |
Ferganahérað | Fergana | 7.005 | 3.564.800 | 4 |
Jizzakh-hérað | Jizzakh | 21.179 | 1.301.000 | 5 |
Karakalpakstan | Nukus | 161.358 | 1.817.500 | 14 |
Qashqadaryo-hérað | Qarshi | 28.568 | 3.088.800 | 8 |
Xorazm-hérað | Urgench | 6.464 | 1.776.700 | 13 |
Namangan-hérað | Namangan | 7.181 | 2.652.400 | 6 |
Navoiy-hérað | Navoiy | 109.375 | 942.800 | 7 |
Samarqand-hérað | Samarkand | 16.773 | 3.651.700 | 9 |
Surxondaryo-hérað | Termez | 20.099 | 2.462.300 | 11 |
Sirdaryo-hérað | Guliston | 4.276 | 803.100 | 10 |
Taskent | Taskent | 327 | 2.424.100 | 1 |
Tashkent-hérað | Nurafshon | 15.258 | 2.829.300 | 12 |
Héruðin skiptast síðan í umdæmi (tuman).
Stærstu borgir
breytaTaskent Namangan |
Samarkand Andijan |
Sæti | Borg | Hérað | Íbúar |
---|---|---|---|
1 | Taskent | Tashkent-hérað | 2.571.668 |
2 | Namangan | Namangan-hérað | 597.000 |
3 | Samarkand | Samarkand-hérað | 530.000 |
4 | Andijan | Andijan-hérað | 417.000 |
5 | Nukus | Karakalpakstan | 310.000 |
6 | Búkara | Búkarahérað | 285.000 |
7 | Qarshi | Qashqadaryo-hérað | 260.000 |
8 | Fergana | Ferganahérað | 275.000 |
9 | Kokand | Ferganahérað | 240.000 |
10 | Margilan | Ferganahérað | 223.000 |
Tilvísanir
breyta- ↑ US Department of State, 2008 Country Report on Human Rights Practices in Uzbekistan, Bureau of Democracy, Human Rights, and Labour, 25. febrúar 2009
- ↑ „Eurasia's Latest Economic Reboot Can Be Found In Uzbekistan“. Forbes. 14. september 2017. Afrit af uppruna á 14. september 2017. Sótt 18. september 2017.
- ↑ Lillis, Joanna (3. október 2017). „Are decades of political repression making way for an 'Uzbek spring'?“. The Guardian. ISSN 0261-3077. Afrit af uppruna á 1. desember 2017. Sótt 19. nóvember 2017.
- ↑ „Uzbekistan: A Quiet Revolution Taking Place – Analysis“. Eurasia Review. 8. desember 2017. Afrit af uppruna á 8. desember 2017. Sótt 8. desember 2017.
- ↑ „The growing ties between Afghanistan and Uzbekistan – CSRS En“. CSRS En. 28. janúar 2017. Afrit af uppruna á 22. desember 2017. Sótt 25. desember 2017.
- ↑ „Amnesty International Report 2017/18“ (PDF). Amnesty International. 2018. Sótt 27-4-2021.
- ↑ „World Report 2020: Uzbekistan“. Human Rights Watch. 2020. Sótt 27-4-2021.
- ↑ „Uzbekistan | Energy 2018 – Global Legal Insights“. GLI – Global Legal InsightsUzbekistan | Energy 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. desember 2017. Sótt 2. desember 2017.
- ↑ Kenzheakhmet Nurlan (2013). The Qazaq Khanate as Documented in Ming Dynasty Sources. bls. 140.
- ↑ 10,0 10,1 A. H. Keane, A. Hingston Quiggin, A. C. Haddon, Man: Past and Present, p.312, Cambridge University Press, 2011, Google Books, tilvitnun: „Who take their name from a mythical Uz-beg, Prince Uz (beg in Turki=a chief, or hereditary ruler)“.
- ↑ MacLeod, Calum; Bradley Mayhew. Uzbekistan: Golden Road to Samarkand. bls. 31.
- ↑ „Countries of the world“. worldatlas.com. Afrit af uppruna á 7. maí 2010. Sótt 2. maí 2010.
- ↑ Daily Telegraph (5. apríl 2010). „Aral Sea 'one of the planet's worst environmental disasters'“. The Daily Telegraph. London. Afrit af uppruna á 8. apríl 2010. Sótt 1. maí 2010.
- ↑ Dinerstein, Eric; og fleiri (2017). „An Ecoregion-Based Approach to Protecting Half the Terrestrial Realm“. BioScience. 67 (6): 534–545. doi:10.1093/biosci/bix014. ISSN 0006-3568. PMC 5451287. PMID 28608869.
- ↑ „Statistical Review of Uzbekistan 2008“ (PDF). bls. 176. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. nóvember 2010. Sótt 2. maí 2010.