Tjörn í Svarfaðardal

Tjörn er kirkjustaður í Dalvíkurbyggð í Svarfaðardal. Bærinn stendur að vestanverðu í dalnum um 5 km innan við Dalvík. Þórarinn Kr. Eldjárn lét reisa núverandi íbúðarhús 1931. Tjarnartjörn er lítið og grunnt stöðuvatn á flatlendinu neðan við bæinn. Tjörnin er innan Friðlands Svarfdæla sem teygir sig allt til strandar. Þar er mikið fuglalíf. Tjörn er með stærri jörðum í Svarfaðardal og að líkindum landnámsjörð þótt bæjarins sé ekki getið í Landnámu. Þar hafa verið stundaðar úrkomumælingar á vegum Veðurstofunnar frá árinu 1970. Í hlíðinni ofan við Tjörn eru volgrur og í framhaldi af þeim er jarðhitinn í Laugahlíð þar sem Sundskáli Svarfdæla fær vatn sitt. Kristján Eldjárn forseti fæddist á Tjörn 1916 og ólst þar upp. Sönghópurinn Tjarnarkvartettinn var kenndur við Tjörn í Svarfaðardal.

Tjörn í Svarfaðardal
Tjörn í Svarfaðardal er staðsett á Íslandi
Tjörn í Svarfaðardal
Staðsetningarkort.

Tjarnarbændur á 20. öld:

Sr. Kristján Eldjárn Þórarinsson og Petrína Soffía Hjörleifsdóttir
Þórarinn Kr. Eldjárn og Sigrún Sigurhjartardóttir
Hjörtur Eldjárn Þórarinsson og Sigríður Hafstað
Kristján Eldjárn Hjartarson og Kristjana Arngrímsdóttir

Tjarnarkirkja

breyta
Tjörn í Svarfaðardal
 
Tjarnarkirkja (mars 2008) Á.Hj.
Almennt
Prestakall:  Vallaprestakall
Núverandi prestur:  Magnús Gamalíelsson
Byggingarár:  1892
Breytingar:  Endurbætur 1992
Kirkjugarður:  Kirkjugarður umhverfis kirkju
Arkitektúr
Byggingatækni:  Timbur

Kirkja hefur líklega verið reist á Tjörn fljótlega eftir að kristni var lögleidd í landinu. Hennar er þó ekki getið með beinum hætti í heimildum fyrr en í Auðunarmáldaga frá 1318. Þar segir að kirkjan sé helguð Maríu guðsmóður, Mikjáli erkiengli, Jóhannesi skírara og Andrési postula. Kirkjan átti þá hálft heimalandið, Ingvarastaðaland og hólminn Örgumleiða. Á 16. öld er Tjörn orðin beneficium, þ.e. öll komin í eigu kirkjunnar og þannig hélst þar til sr. Kristján Eldjárn Þórarinsson (1843-1917) keypti jörðina árið 1915. Sr. Kristján var síðasti prestur á Tjörn. Í Svarfaðardal voru lengi fjórar sóknir en þrír prestar því Urðakirkja var annexía frá Tjörn. Upsasókn var síðan lögð undir Tjarnarprest 1859 en 1917 var Tjarnarprestakall með sínum þremur sóknum sameinað Vallaprestakalli. Eftir að prestssetrið var flutt frá Völlum 1969 hefur Tjarnarkirkju verið þjónað af frá Dalvík. Tjarnarsókn nær frá SteindyrumYtraholti.

Núverandi kirkja var reist 1892. Hún er úr timbri á hlöðnum grunni og tekur 60-70 manns í sæti. Í henni eru steindir gluggar teiknaðir af Valgerði Hafstað listmálara. Kirkjugarður er umhverfis kirkjuna. Kirkjan skemmdist nokkuð í Kirkjurokinu svokallaða, miklu óveðri sem gekk yfir landið þann 20. september árið 1900. Þá eyðilögðust kirkjurnar á Urðum og Upsum og Vallakirkja varð fyrir skemmdum. Tjarnarkirkja snaraðist á grunni sínum og hallaðist mjög til norðurs en járnkrókar miklir, sem héldu timburverkinu við hlaðinn grunninn, vörnuðu því að verr færi. Nokkru eftir fárviðrið gerði hvassviðri af norðri sem færði hana til á grunninum og rétti hana að mestu við á ný. Mörgum þóttu þetta stórmerki. Gert var við kirkjuna eftir þetta og m.a. voru útbúin á hana járnstög sem lengi settu skemmtilegan svip á bygginguna og minntu á hið mikla fárviðri sem hún hafði staðið af sér. Kirkjan stóð einnig af sér Dalvíkurskjálftann 1934 en þó urðu skemmdir á grunni hennar.

Heimildir

breyta
  • Hjörtur Eldjárn Þórarinsson. „Svarfaðardalur og gönguleiðir um fjöllin“. Árbók Ferðafélags Íslands. () (1973): 9-119.
  • Tómas Einarsson og Helgi Magnússon (ritstj.) (1989). Íslandshandbókin. Náttúra saga og sérkenni. Örn og Örlygur, Reykjavík.
  • Kirkjur Íslands 9. bindi. Tjarnarkirkja bls. 271-307. Reykjavík 2007

Tenglar

breyta