Upsir í Svarfaðardal eru landnámsjörð og líklega hefur kirkja verið reist þar fljótlega eftir kristnitöku. Fyrstu heimildir um kirkjuna eru í Prestssögu Guðmundar Arasonar, en hann var prestur á Upsum skamman tíma 1196. Upsakirkja var lögð af er Dalvíkurkirkja var reist og síðan var hún rifin. Þó stendur gamla forkirkjan enn í kirkjugarðinum miðjum og kallast Upsakapella. Kirkjan var reist eftir Kirkjurokið mikla aldamótaárið 1900. Kirkjan sem áður stóð á Upsum var reist 1853, þetta var timburkirkja en fyrrum var torfkirkja á staðnum. Tveimur árum síðar fengu menn reynslu af því timburhúsum var hættara í hvassviðri en gömlu torfhúsunum því þá fauk þessi nýja kirkja af grunni sínum og stórskemmdist. Hún var þó endurreist og stóð óhögguð þar til Kirkjurokið reið yfir þann 20. september árið 1900. Þá lyftist hún af grunni sínum á ný og brotnaði í spón úti á túni og munir hennar margir stórskemmdust. Þeirra á meðal voru margir kjörgripir t.d. Upsakristur sem er forn róðukross úr kaþólskum sið, merkileg altaristafla frá 18. öld eftir Hallgrím Jónsson, einn merkasta myndlistarmann sinnar tíðar, og nýleg altaristafla máluð af Arngrími málara. Mynd Arngríms eyðilagðist með öllu en Upsakristur og altaristafla Hallgríms og fleiri munir voru seldir Forngripasafninu í Reykjavík til fjáröflunar fyrir nýja kirkju. Fengust 31 kr. fyrir, sem virðist furðulega lág upphæð því nú teljast þessir gripir þjóðargersemar. Ný kirkja var síðan reist á sama stað og sú gamla stóð á. Hún var vígð haustið 1903. Orgel kom í kirkjuna 1916 eða 1917.[1]

Upsakapella. Forkirkja síðustu kirkjunnar á Upsum.

Haustið 1931 laskaðist kirkjan í vestanroki og færðist af grunninum, kom þá mjög til tals að reisa nýja og stærri kirkju fyrir hið vaxandi byggðarlag á Dalvík. Það varð þó ekki um sinn heldur var gert við kirkjuna, en árið 1954 var hún formlega lögð niður sem sóknarkirkja enda var þá hin nýja Dalvíkurkirkja í smíðum. Þar með lauk meira en 800 ára sögu þessa kirkjustaðar.[2] Meðal þeirra sem hvíla í Upsakirkjugarði er Látra-Björg.

Eins og fram kemur í upphafi greinarinnar hefur Upsakirkja nú verið rifin að mestu. Í Svarfaðardal standa hins vegar enn Vallakirkja , Urðakirkja og Tjarnarkirkja. Byggingarlag þeirra er sérsvarfdælskt sem felst í því að kirkju”turninn” er lægri en sjálf kirkjan og gefur það kirkjunum sérstakt yfirbragð. [3] Dæmi um kirkjur með lágreista kirkju"turna" er þó að finna víðar, m.a. er Bægisárkirkja í Möðruvallaprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi með lágreistan turn. [4]

Upsaprestakall var lagt niður árið 1859 og sóknin varð hluti af Tjarnarprestakalli. Síðan var Tjarnarprestakall lagt niður 1917 og allar sóknir Svarfaðardals settar undir einn prest. Hann sat fyrst í stað á Völlum en er nú á Dalvík og er Upsasókn nú hluti af Dalvíkurprestakalli [5] í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Síðasti prestur á Upsum var sr. Baldvin Þorsteinsson en hann þjónaði kallinu til dauðadags, 1859. Sr. Baldvin var einn fjögurra bræðra sem allir voru prestar við Eyjafjörð á fyrri hluta 19. aldar. Hinir voru Hallgrímur Þorsteinsson á Hrauni, Stefán Þorsteinsson á Völlum og Kristján Þorsteinsson sem þjónaði víða m.a. á Tjörn.[6]

Heimildir breyta

  1. Kristmundur Bjarnason (1984). Saga Dalvíkur III Dalvíkurbær
  2. Kristmundur Bjarnason (1984). Saga Dalvíkur III Dalvíkurbær
  3. „Vefur Dalvíkurbyggðar“. Sótt 24. mars 2008.
  4. „nat.is“. Sótt 29. mars 2008.
  5. „Vefur þjóðkirkjunnar“. Sótt 24. mars 2008.
  6. Kristmundur Bjarnason (1984). Saga Dalvíkur III Dalvíkurbær

Tenglar breyta