Valgerður Hafstað
Valgerður Birna Árnadóttir Hafstað (1. júní 1930 – 9. mars 2011) var íslenskur myndlistarmaður.
Valgerður fæddist í Vík í Skagafirði 1. júní 1930 en lést í Reykjavík 9. mars 2011. Foreldrar hennar voru Árni Hafstað bóndi í Vík í Skafafirði og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir. Valgerður lærði myndlist við Akademi for fri og merkantil kunst í Kaupmannahöfn og Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík en fór til frekara náms í París árið 1951 ásamt vinkonu sinni Guðmundu Andrésdóttur. Þar lærði hún málun og mósaík við Académie de la Grande Chaumière og Atelier Severini og eftir það gerð steindra glugga í Atelier Barrilet.
Í Frakklandi kynntist hún eiginmanni sínum, André Énard myndlistarmanni (15. október 1926 – 28. júlí 2010), og bjuggu þau lengi í Saulx Marcais, smáþorpi skammt utan við París. Árið 1974 fluttu þau til New York þar sem þau stunduðu kennslu samhliða listmálun. Þau dvöldu á víxl í Frakklandi og New York um árabil en settust loks alfarið að vestra. Þau eignuðust þrjá syni: Árna Olivier (1960), Grím André (1962) og Halldór Yves (1964).
Eftir Valgerði liggur fjöldi málverka, einnig nokkrar mósaikmyndir, brúður og listvefnaður. Sem málari fyllti Valgerður hóp abstraktlistamanna. Málverk eftir hana eru á listasöfnum bæði vestanhafs og austan sem og á Íslandi. Steindir gluggar eftir hana eru í kirkjunni á Tjörn í Svarfaðardal og veggskreytingar í Héraðsskólanum í Varmahlíð.
Valgerður hélt bæði einkasýningar og tók þátt í samsýningum hér á landi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Fyrsta myndlistarsýning Valgerðar var samsýning hennar og Gerðar Helgadóttur árið 1957 í Galerie La Rouge í París.
Heimildir
breyta- Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Ritstjóri, Ólafur Kvaran. Listasafn Íslands og Forlagið 2011.