Urðir
Urðir er bær og kirkjustaður í Svarfaðardal. Urðasókn nær yfir allan innsta hluta dalsins. Bærinn heitir eftir berghlaupsurðum í hlíðinni fyrir ofan staðinn og setja þær mikinn svip á landslagið. Urðir er landnámsjörð og í Landnámu er getið um Þorvarð á Urðum. Hann er þó ekki nefndur í Svarfdælu enda fátt sagt frá Urðamönnum í þeirri sögu. Jörðin hefur lengst af verið í bændaeign og var höfðingjasetur fyrr á öldum. Þorsteinn Eyjólfsson hirðstjóri og lögmaður bjó á Urðum á seinnihluta 14. aldar og síðan Arnfinnur sonur hans, sem einnig var hirðstjóri. Urðir komu mjög við sögu í deilum Jóns Sigmundssonar lögmanns, sem þá hafði umráð yfir staðnum, og Gottskálks biskups grimma. Þeim lauk með því að biskup sölsaði jörðina undir Hólastól um 1508. Guðbrandur biskup, dóttursonur Jóns náði eignunum aftur undan stólnum og hafði umráð yfir staðnum meðan hann lifði og afkomendur hans lengi síðan.
Kirkja hefur lengi verið á Urðum, annexía frá Tjörn. Hennar er getið í Auðunarmáldaga frá 1318. Þar segir að hún sé helguð heilagri Maríu og Andrési postula. Urðakirkja var byggð 1902 en gamla kirkjan fauk af grunni í Kirkjurokinu haustið 1900 og brotnað í spón. Hún er turnlaus og í svipuðum byggingarstíl og hinar kirkjur dalsins, á Tjörn og Völlum. Í henni er altaristafla eftir Arngrím málara frá Gullbringu. Þar er einnig gamall predikunarstóll, málaður af Jóni Hallgrímssyni (1741-1808) en hann var sonur Hallgríms Jónssonar sem var einn þekktasti myndlistarmaður landsins á 18. öld. Á stólnum eru myndir af helgum mönnum og dýrum.
Stjórnmálamaðurinn Sigfús Sigurhjartarson fæddist á Urðum árið 1902.
Heimildir
breyta- Hjörtur Eldjárn Þórarinsson. „Svarfaðardalur og gönguleiðir um fjöllin“. Árbók Ferðafélags Íslands. () (1973): 9-119.
- Stefán Aðalsteinsson (1978). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík.