Friðland Svarfdæla

Friðland Svarfdæla var stofnað árið 1972 að frumkvæði bænda og annarra landeigenda. Það er 5,4 km² að flatarmáli og nær frá sjó við ósa Svarfaðardalsár og spannar flatan dalbotninn beggja vegna ár að merkjum Tjarnar og Grundar. Þarna líður áin fram, lygn og í breiðum sveigum. Bakkar hennar eru þurrir og vaxnir valllendisgróðri og víðikjarri. Fjær ánni eru votlendari svæði og mýrarflákar. Nokkrar grunnar tjarnir eru innan svæðisins umluktar vatnagróðri. Þær eru Tjarnartjörn, Saurbæjartjörn, Hrísatjörn og Flæðatjörn. Upp af flatlendinu rísa lágir höfðar eða hólar. Þeir mynduðust í ísaldarlok við sporð mikils jökuls sem fyllti dalinn að mestu. Þetta eru Hrísahöfði, Ingólfshöfði og Lambhaginn. Stórir flákar friðlandsins flokkast undir þá tegund gróðurríkis sem kallast flæðimýri. Fuglalíf er mikið og fjölskrúðugt innan friðlandsins og þar verpa yfir 40 tegundir árlega. Friðlandið er vinsælt útivistarsvæði og náttúruperla. Merktar reið- og gönguleiðir liggja um það og sérstakt fuglaskoðunarhús er á bakka Tjarnartjarnar skammt neðan við Húsabakkaskóla. Sumarið 2017 var gerð göngubrú yfir Svarfaðardalsá úr friðlandinu og yfir í Hánefsstaðaskóg

Friðland Svarfdæla Fuglaskoðunarhús á bakka Tjarnartjarnar.
Göngubrú á Svarfaðardalsá úr Friðlandi Svarfdæla og yfir í Hánefsstaðaskóg.

Friðlýsingin felur í sér að innan svæðisins má ekki raska landi á neinn hátt, þó er hefðbundin nýting leyfð s.s. beit. Taka skal tillit til dýralífs og gróðurfars. Öll skotveiði er bönnuð.

Tenglar

breyta
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.