Kirkjurokið
Kirkjurokið var fárviðri sem gekk yfir landið þann 20. september árið 1900. Víða var það einnig nefnt Aldamótaveðrið. Þann dag gekk yfir landið suðvestan- og vestan illviðri, eitt hið allra versta af þeirri gerð sem sögur fara af. Margháttaður skaði varð bæði á mönnum og munum og má í því sambandi nefna drukknun 17 manna á fjórum bátum á Arnarfirði þennan örlagaríka dag.
Manntjón varð einnig við Eyjafjörð. Þar brast veðrið á um hádegi. Íbúðarhúsið í Rauðuvík á Árskógsströnd, sem þá var nýbyggt timburhús, hófst af grunni og steyptist ofan fyrir sjávarbakkann sem það stóð á. Átta manns voru þar innan veggja og létust þrír þegar húsið féll saman. Tveir bátar fórust á Hríseyjarsundi og með þeim sex manns og bóndi í Arnarneshreppi lést síðar vegna áverka sem hann fékk í rokinu. Á landinu öllu fórust um 30 manns af völdum veðurofsans og auk þess varð gríðarlegt eignatjón. Í Svarfaðardal minntust menn og minnast enn þessa óveðurs sem Kirkjuroksins haustið 1900. Það kom til af því að tvær af fjórum kirkjum dalsins fuku og brotnuðu í spón. Það voru kirkjurnar á Urðum og Upsum. Kirkjurnar á Tjörn og Völlum skekktust á grunnum sínum svo lá við stórtjóni.
Tenglar
breytaNokkrar heimildir
breyta- Almanak hins Íslenska Þjóðvinafélags um árið 1902.
- Halldór Pálsson. Skaðaveður 1897-1901. Reykjavík 1968.
- Jóhannes Óli Sæmundsson. Tuttugasti september. Tímaritið Súlur 1975.
- Kristmundur Bjarnason, Saga Dalvíkur 1.-4. bindi.
- Trausti Jónsson. Fárviðrislægðin 20. september aldamótaárið 1900. Veðrið, 2. hefti, 1977.