Hringsholt í Svarfaðardal er húsbygging mikil við Holtsá á landi Ytra-Holts, 2,5 km frá Dalvík. Þar eru undir sama þaki fjölmörg hesthús í eigu hestamanna í Dalvíkurbyggð. Þar eru einnig reiðvellir og ýmis aðstaða sem tilheyrir hestamennsku og hestaíþróttum. Þarna var áður mikið loðdýrabú en það fór í þrot eins og mörg önnur hliðstæð bú árið 1989 og Landsbankinn yfirtók húsakynnin. Hestamannafélagið Hringur gerði tilboð í húseignina og keypti hana af Landsbankanum sumarið 1990. [1] Kaupin voru fjármögnuð með þeim hætti að einstaklingum var strax seldur drjúgur hluti húsrýmisins undir hesthús og gekk það bæði fljótt og vel. Hinn hlutinn var innréttaður sem reiðvöllur en utanhúss gert mikið og gott gerði. Húsið er um 4500 fermetrar. Þarna eru um 30 misstór hesthús sem rúma alls 300-400 hross. Í norður enda hússins er lítil reiðhöll sem Hestamannafélagið Hringur rekur og í miðju húsinu að vestanverðu er félagsaðstaða félagsins. Norðan við húsið er hringvöllur og skeiðbraut sem er keppnissvæði hestamannafélagsins Hrings.

Hringsholt í Svarfaðardal

Hringsholt hét áður Ytra-Holt. Bæjarins er getið strax í Svarfdæla sögu og þar var búið fram á 9. áratug tuttugustu aldar er hefðbundinn búskapur lagðist af. Síðustu ábúendur voru bræðurnir Garðar og Valtýr Jóhannessynir. Þeir þóttu sérlundaðir nokkuð og búskaparlag þeirra sérstakt. Enn eru sagðar sögur af þeim í Svarfaðardal. Dalvíkurhreppur keypti jörðina af þeim bræðrum og nú er hún í eigu Dalvíkurbyggðar.

Heimildir

breyta
  1. Þórarinn Hjartarson 1999. Aldarreið. Svarfdælskir hestar og hestamenn á 20. öld. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri.