Slésvík-Holtsetaland

eitt af 16 sambandslöndum Þýskalands
(Endurbeint frá Slesvig-Holsten)

Slésvík-Holtsetaland (háþýska: Schleswig-Holstein, lágþýska: Sleswig-Holsteen, frísneska: Slaswik-Holstiinj, danska: Slesvig-Holsten) er sambandsland í Þýskalandi norður af Hamborg (Hamburg) og liggur á milli Norðursjávar og Eystrasalts. Íbúar eru 2,9 milljónir (2021). Höfuðstaður sambandslandsins er Kíl (Kiel).

Fáni Slésvik-Holtsetalands Skjaldarmerki Slésvik-Holtsetalands
Flagge von Schleswig-Holstein
Flagge von Schleswig-Holstein
Landeswappen Schleswig-Holsteins
Kjörorð
"Op ewig ungedeelt"
("Auf ewig ungeteilt")
("Um allar aldir óskipt")
Upplýsingar
Opinbert tungumál: háþýska, lágþýska, frísneska, og danska
Höfuðstaður: Kiel (Kíl)
Stofnun: 23. ágúst 1946
Flatarmál: 15.799,65 km²
Mannfjöldi: 2,9 milljónir (2021)
Þéttleiki byggðar: 179/km²
Vefsíða: schleswig-holstein.de Geymt 16 apríl 2015 í Wayback Machine
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Torsten Albig (SPD)
Lega

Lega og lýsing

breyta

Slésvík-Holtsetaland er nyrsta sambandsríki Þýskalands og er eina sambandsríkið sem á strandlengju bæði að Norðursjó og Eystrasalti. Það liggur að Mecklenborg-Vorpommern í austri og Neðra-Saxlandi og Hamborg í suðri. Auk þess á það landamæri að Danmörku í norðri. Flatarmál Slésvíkur-Holtsetalands er 15.799 km² og það er þar með næstminnsta sambandsríki Þýskalands sem ekki er borgríki. Aðeins Saarland er minna. Það er mjög láglent og víða skógi vaxið. Mörg stöðuvötn er að finna í ríkinu. Ströndin við Norðursjó er hluti af Vaðhafinu. Þar eru Norðurfrísnesku eyjarnar. Ströndin við Eystrasalt er vogskorin. Þar eru nokkrir firðir, þeir einu í Þýskalandi (t.d. Schlei og Flensburger Förde).

Orðsifjar

breyta

Schleswig er nefnt eftir samnefndri hafnarborg við Eystrasalt. Orðið er samsett úr Schles og wig. Schles merkir fjörðinn Schlei og wig merkir vík eða bær. Schlei sjálft merkir óhreint vatn (sbr. slím og slý á íslensku). Merkingin er því bærinn við fjörðinn Schlei. Holtsetaland hét upphaflega Holzsassen, sem merkir Holtsetar (skógarbúar). Holzsassen breytist í Holtsaten, svo í Holsten og loks í Holstein. Orðið hefur ekkert með stein (þ.e. steina að gera). Athyglisvert er að íslenska heitið, Holtsetaland, kemst því einna næst að vera upprunalegt heiti svæðisins. [1]

Saga Slésvíkur-Holtsetalands

breyta

Upphaf

breyta

Upphaflega bjuggu germanskir þjóðflokkar á svæðinu, aðallega Englar, en einnig Jótar og Frísar. Á tímum þjóðflutninganna miklu á 5. öld fluttu margir Englar til Englands og sameinuðust þar aðfluttum Söxum (þeir mynduðu þar engilsaxa). Þetta varð til þess að margir Jótar (upphaflega í Jótlandi) fluttu sig sunnar í héraðið. Á víkingatímanum stofnuðu þeir bæinn Heiðabú (á þýsku: Haithabu, á dönsku: Hedeby) við fjörðinn Schlei, rétt sunnan við borgina Schleswig. Sótt hefur verið um að setja víkingabæinn Heiðabú á heimsminjaskrá UNESCO. Víkingar byggðu auk þess Danavirki til varnar Söxum. Karlamagnús hernam suðurhluta svæðisins (nokkurn veginn Holtsetaland), en eftirlét víkingum norðursvæðið. Árið 811 gerðu Karlamagnús og víkingar samkomulag um að áin Egða (Eider) skyldi vera landamæri milli ríkis Karls og Danaríkis. Þessi landamæri héldust allt til 1864, er Prússar tóku Slésvík af Dönum með hervaldi. Áin myndaði því einnig landamerki milli Slésvíkur og Holtsetalands.

Togstreita milli Dana og þýska ríkisins

breyta

Danir reyndu á öldum áður að hertaka Holtsetaland, en Valdimar 2. Danakonungur beið hins vegar ósigur í orrustunni við Bornhöved 1227. Á næstu öldum tókst greifunum í Holtsetalandi (Schauenburg-ættinni) að eigna sér lönd og skika í Slésvík. Á 14. öld má segja að héruðin bæði hafi myndað eina heild, þó að Slésvík hafi tilheyrt dönsku krúnunni, en Holtsetaland þýska ríkinu. Eftir 1250 var uppgangstími Hansasambandsins. Við það varð hafnarborgin Lübeck meðal mikilvægustu borga Norður-Evrópu. Árið 1460 dó Schauenburg-ættin út í Holtsetalandi. Aðalsmenn í báðum héruðunum kusu því Kristján 1. Danakonung sem nýjan fursta sinn, enda var hann náskyldur síðasta fursta Schauenburg-ættarinnar. Samkomulag um þetta náðist í borginni Ribe á Jótlandi. Slésvík og Holtsetaland áttu að vera ein heild um ókomna tíð. Kristján átti ekki að ríkja sem konungur yfir svæðinu, heldur sem hertogi. Holtsetaland breyttist í kjölfarið af því úr greifadæmi i hertogadæmi. Í lénsskipulaginu var Danakonungur lénsherra Slésvíkur, en þýski keisarinn var þó áfram lénsherra Holtsetalands. Stjórnkerfið var í höndum Danakonunga, en skatturinn fór til keisarans. Siðaskiptin í hertogadæmunum tveimur komu frá Danmörku, ekki frá þýska ríkinu. Það var Kristján 3. sem skipaði fyrir um nýja siðinn 1542, ásamt prestinum Johannes Bugenhagen. Árið 1544 braut Kristján 3. Ribesamkomulagið með því að skipta Slésvík-Holtsetalandi í tvö ný lén, sitt fyrir hvorn hálfbróður sinn. Þannig mynduðust Gottorf-svæðið við Norðursjó og Hadersleben-svæðið við Eystrasalt.

30 ára stríðið

breyta

Þessi mikla styrjöld hófst 1618, en hvorki Slésvík né Holtsetaland voru þátttakendur til að byrja með. Það var ekki fyrr en 1625 að héruðin drógust inn í stríðið er Kristján 4. Danakonungur ákvað að taka þátt í hildarleiknum. Árið 1626 beið hann hins vegar ósigur í orrustu gegn Tilly, einum af herforingjum Wallensteins. Wallenstein sjálfur rak flótta Danakonungs norður um Slésvík-Holtsetalandi og hertók síðan Jótland. Þar með voru Danir úr leik í stríðinu. Friðarsamningar þess eðlis voru undirritaðir í Lübeck.

Prússastríðið

breyta
 
Kort á ensku sem sýnir skiptingu Slésvíkur

Á miðri 19. öld varð mikil þjóðarvakning meðal íbúa Slésvíkur-Holtsetalands, eins og annars staðar. Í marsbyltingunni í Kíl 1848 kröfðust þýskumælandi íbúar héraðsins sameiningar við þýska ríkið. Friðrik 7. Danakonungur var þar að auki barnlaus og næsti erfingi hertogadæmanna var Christian August, samkvæmt þýskum rétti. En samkvæmt dönskum rétti máttu konur hins vegar erfa lönd og því héldu Danir yfirrétti sínum yfir hertogadæmunum. Þýskir íbúar svæðisins tóku þá málin í sínar hendur og gerðu uppreisn gegn Dönum, en töpuðu í orrustunni við Idstedt (nálægt Flensborg). Árið 1864 var Bismarck orðinn kanslari Prússaveldis. Hann setti Dönum úrslitakosti um lausn á deilunni um hertogadæmin. Þar sem Danir sýndu enga tilburði til að leita lausna, sögðu Prússar og Austurríkismenn Dönum stríð á hendur. Í orrustunni við Dybbøl syðst á Jótlandi biðu Danir svo bitran ósigur fyrir sameinuðu liði Prússa og Austurríkismanna. Í framhaldið hernámu Prússar Slésvík, en Austurríkismenn Holtsetaland. Árið 1867 urðu bæði héruðin prússnesk. Tæknilega séð var vandamálið þó enn ekki leyst og deila landanna hélt áfram næstu áratugina. Eftir ósigur Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri var aftur sest að samningaborðinu og rætt um héruðin, sérstaklega þó Slésvík. Niðurstaðan var sú að haldnar voru almennar kosningar (folkeafstemningen) 14. mars 1920 og í þeim kaus einungis norður-Slésvík að sameinast Danmörku. Margir Danir og raunar kóngurinn höfðu vonast til að fleirri svæði kæmu til baka í fangið á Danmörku. Mið-Slésvík með Flensborg kaus að vera áfram þýsk. Þjóðverjar skiluðu norðurhluta Slésvíkur til Danmerkur formlega 10. júlí það sama ár 1920. Landamæri ríkjanna voru sett rétt norðan við borgina Flensborg og þannig standa þau enn í dag.

Nýrri saga

breyta

Í heimstyrjöldinni síðari urðu aðeins fáeinar borgir fyrir loftárásum bandamanna. Lübeck skemmdist nokkuð, en Kíl var nær gjöreyðilögð, enda mikilvæg herskipahöfn Þjóðverja. Við lok stríðsins var Slésvík-Holtsetaland hluti af breska hernámssvæðinu. Árið 1947 kom fyrsta þing svæðisins saman. Höfuðborgin varð Kíl. Það var svo árið 1949 sem Slésvík-Holtsetaland varð hluti af nýstofnuðu Sambandsríki Þýskalands.

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Fáni Slésvíkur-Holtsetalands er gerður úr þremur láréttum röndum: Blátt, hvítt, rautt. Litirnir voru teknir úr skjaldarmerkinu og það var þýskur alþýðuher sem reyndi að brjótast undan danskri yfirstjórn árið 1840 sem notaði þennan fána í fyrsta sinn. Árið 1949 var þessi fáni svo viðurkenndur sem fáni hins nýstofnaða sambandsríkis. Skjaldarmerkið er tvískipt. Vinstra megin eru bláu ljónin frá Slésvík, en til hægri er hvíta netlulaufið frá Holtsetalandi.

Borgir

breyta

Stærstu borgir sambandsríkisins:

Röð Borg Íbúar Hérað
1 Kíl (Kiel) 242 þúsund Holtsetaland
2 Lübeck 213 þúsund Holtsetaland
3 Flensborg 84 þúsund Slésvík
4 Neumünster 77 þúsund Holtsetaland
5 Norderstedt 75 þúsund Holtsetaland
6 Elmshorn 48 þúsund Holtsetaland
7 Pinneberg 42 þúsund Holtsetaland
Alls 2,8 milljónir

Tilvísanir

breyta
  1. Sjá orðabókina Geographische Namen in Deutschland, Dudenverlag, 2009

Heimildir

breyta